CLARA seld fyrir meira en milljarð

Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri CLARA.
Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri CLARA.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið CLARA hefur verið selt til bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Jive Software fyrir meira en milljarð íslenskra króna. CLARA hefur sérhæft sig í því að greina mikið magn texta og draga fram upplýsingar um umræðu um fyrirtæki, vörumerki og einstaklinga. 

CLARA var stofnað í Reykjavík árið 2008. Fyrirtækið beitir háþróaðri gervigreind til þess að greina viðhorf, tilfinningar og hegðun notenda á slíkum spjall- og samfélagsvefjum og búa til sjálfvirkar skýrslur fyrir stjórnendur fyrirtækja. 

Megin söluvara CLARA kallast Resonata og hefur verið í notkun hjá fyrirtækjum eins og Sony og CCP. Resonata bætist við vörulínu Jive en með sölunni fæst mun betri aðgangur að fyrirtækjamarkaði um allan heim. Á meðal viðskiptavina Jive eru mörg þekkt fyrirtæki eins og tölvurisinn Apple, íþróttavörumerkið Nike, snyrtivöruframleiðandinn AVON, tölvufyrirtækið Hewlett Packard, hugbúnaðarfyrirtækið SAP, endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse Coopers, símafyrirtækin Verizon og Vodafone og Alþjóðabankinn.

Frumkvöðlarnir að baki CLARA eru Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, og Jón Eðvald Vignisson. Gunnar Hólmsteinn er nýorðinn 27 ára gamall og Jón Eðvald er á 29. ári.

Jive var upphaflega stofnað árið 2001. Höfuðstöðvar þess eru í bænum Palo Alto á svæði sem oftst er nefnt Kísildalurinn og er skammt utan við San Francisco í Kaliforníu-ríki. 

Árétting: „Vegna þess, sem fram kemur um kaupverð í fréttinni vill Jive software árétta: Mikilvægt er að benda á að um er að ræða samning um greiðslu í bæði reiðufé og hlutabréfum. Nákvæmt verð kemur reyndar ekki fram í fréttinni heldur einungis áætlað verð í íslenskum krónum. En eina nákvæma talan sem gefin var upp var að kaupverð vegna viðskiptanna með CLARA og StreamOnce (sem Jive keypti á sama tíma og CLARA) var innt af hendi með 11,3 milljónum dala í reiðufé og um það bil 533.000 hlutum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK