Snjóhengja ekki rétta orðið

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir snjóhengju ekki vera rétta orðið, heldur …
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir snjóhengju ekki vera rétta orðið, heldur eigi frekar að nota kvika peningaeign. Eggert Jóhannesson

Snjóhengja er ekki rétta orðið þegar talað er um eignir erlendra aðila sem gætu farið úr landi ef ekki væri fyrir höftin. Þetta sagði Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, á opnum fundi Eyjunnar um snjóhengjuvandann. Hann sagði að réttara væri að tala um mögulega kvika snjóhengju eða kvika peningaeign, þar sem snjóhengjur skríða alltaf fram í lokin, en það þurfi ekki að vera niðurstaðan í þessu tilfelli.

Sagði hann ekki víst að það þurfi að taka snjóhengjuna niður í núll og að það væri ekki víst að allir þeir sem taldir væru með í 800 til 1000 milljarða snjóhengjunni myndu vilja flytja fjármuni úr landi. Auk þess væri alltaf ákveðin dýnamík í fjármálakerfinu og þegar einn vildi út, þá sæju aðrir tækifæri og kæmu inn.

Hefur ekki áhyggjur af lífeyrissjóðunum

Á fundinum var einnig komið inn á mögulegan þrýsting frá lífeyrissjóðunum varðandi að færa fjármagn úr landi til að uppfylla lögbundið hlutverk sitt um lágmarks ávöxtun og til að dreifa áhættu af fjárfestingum víðar. Már sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki hag af því að láta gengi krónunnar falla og því væri þessi framtíðarávöxtunarþörf sjóðanna ekki eitthvað sem myndi brjótast út um leið og færi gæfist, heldur væru sjóðirnir meðvitaðir um að haga þyrfti seglum eftir vindi.

Már viðurkenndi að útboðsleiðin, sem farin var til að minnka pressuna á krónuna, hafi ekki gengið mjög hratt og að nú væri verið að vinna í því að skoða aðrar leiðir og útfærslur til að endurbæta áætlunin um losun haftanna. Hann ítrekaði þó mikilvægi þess að  ríkissjóður yrði ekki skuldsettur upp í rjáfur og að skuldir einkageirans færu ekki yfir á ríkissjóð. Sagði hann að þótt slíkt gæti seinkað ferlinu, þá væri „mikilvægt að fylgja því grundvallaratriði að flytja ekki einkaskuldir yfir á ríkissjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK