Raunverð fasteigna 30% lægra en fyrir hrun

Raunverð íbúðarhúsnæði á landinu öllu er nú enn ríflega 30% lægra en það var þegar það stóð hvað hæst í verðbólunni sem var á þessum markaði fyrir hrun, þ.e. í lok árs 2007. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,3% í maí síðastliðnum. Er þetta mesta hækkun í einum mánuði sem mælst hefur síðan í júní í fyrra. Kemur hækkunin til af mikilli hækkun á verði íbúða í fjölbýli, en það hækkaði um 1,7% á milli mánaða. Verð sérbýla hækkaði hins vegar um 0,1% á milli mánaða.

Yfir síðustu tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 6,5% en um 3,2% að raunvirði. Hefur hraðinn í verðhækkun húsnæðis undanfarið verið að aukast, bæði hvað nafnvirði og raunvirði varðar. Það var Þjóðskrá Íslands sem birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í gær, samkvæmt greiningu Íslandsbanka.

19% hækkun frá hruni

Hefur íbúðaverð nú hækkað um 19,% frá því að það náði lágmarki eftir hrun. Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur hins vegar hækkað mun minna sökum þeirrar miklu veðbólgu sem hér hefur verið á tímabilinu.

Þannig hefur íbúðaverð hækkað um 1,4% að raunvirði yfir síðustu tólf mánuði og um 5,1% frá því að það náði lágmarki sínu eftir hrun, sem var á fyrri hluta árs 2010.

„Miklu skiptir fyrir heimilin í landinu í hvaða átt íbúðaverð er að þróast. Samkvæmt nýuppfærðu fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2014 er markaðsvirði íbúðaeigna í landinu öllu 3.263 ma.kr. Þetta eru 125.700 íbúðir.

Heimilin eiga sjálf um 80% af þessum eignum, en um 20% eru t.d. í eigu Íbúðalánasjóðs, banka og leigufélaga. Eru heimilin í skuldsettum stöðum í þessum eignum og var veðsetningarhlutfallið, þ.e. skuldir heimila með veð í íbúðarhúsnæði sem hlutfall af íbúðaeign þeirra, 50,2% í lok síðastliðins árs skv. upplýsingum frá Seðlabankanum.

Hefur þetta hlutfall farið lækkandi frá því að það náði hámarki eftir hrun í 58,5% í lok árs 2010. Verðhækkun íbúðahúsnæðis og skuldaleiðrétting lána eru meðal þeirra þátta sem hafa valdið þeirri þróun. Þrátt fyrir lækkunina er veðsetningarhlutfallið enn nokkuð hærra en það var fyrir hrun, en í lok árs 2007 var það 43,4%,“ segir í Morgunkorni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK