Kínversk fyrirtæki gætu keypt Straumsvík

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Stór hluti álvera á Vesturlöndum er rekinn með tapi og líklegt er að óhagkvæmustu einingunum verði lokað á næstunni. Þetta segir Ketill Sigurjónsson, ráðgjafi á sviði orkumála, í nýlegum pistli sínum hér á mbl.is. Hann tekur fram að álverin þrjú hérlendis séu þó í hópi þeirra hagkvæmustu, en að ólíklegt sé að þau séu í dag öll rekin með hagnaði. 

Nefnir hann að vegna minni tengingar raforkusamninga álversins í Straumsvík við álverð sé það álver líklegast að tapa peningum í dag, en álverð er mjög lágt um þessar mundir. Í kjölfar vandræða sem Rio Tinto Alcan, móðurfélag álversins í Straumsvík, hefur verið í undanfarin ár eftir sameiningu Rio Tinto og Alcan og áherslubreytinga, þá segir Ketill að möguleiki sé á því að farið verði í sölu á álverinu. 

Miðað við stöðu stærstu álfyrirtækjanna í heiminum í dag telur hann ólíklegt að Alcoa og Rusal, tvö stærstu fyrirtækin, kaupi Straumsvík, en telur líklegt að kínverska ríkisfyrirtækið og álrisann Chalco myndi vera áhugasamt. Í því samhengi bendir hann á að kínversk ríkisolíufyrirtæki hafi verið áhugasöm um olíuleit á Drekasvæðinu og að ríkisfyrirtækið ChemChina sé langstærsti eigandi móðurfélags Elkem-járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

Ketill telur það þó ekki með öllu ólíklegt að Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, gæti séð sér tækifæri á borði og keypt álverið í Straumsvík í stað þess að fara í að byggja upp álver í Helguvík. Nýleg kaup fyrirtækisins á álveri í Kentucky í Bandaríkjunum gætu þó hafa slegið á ákafa Century á frekari uppbyggingu hér á landi að mati Ketils.

Lesa má pistil Ketils í heild sinni hér

Ketill Sigurjónsson
Ketill Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK