„Lítið vit í því að prenta út og dreifa“

Hópurinn sem stendur að Kjarnanum.
Hópurinn sem stendur að Kjarnanum.

Í dag kemur út fyrsta tölublað Kjarnans, en það er fyrsti app-fjölmiðillinn á Íslandi, þar sem möguleikar spjaldtölva og snjallsíma varðandi viðmót eru nýttir að fullu. Það voru blaðamennirnir Magnús Halldórsson, Þórður Snær Júlíusson og Ægir Þór Eysteinsson, auk Hjalta Harðarsonar og Gísla Eysteinssonar sem stofnuðu miðilinn. Þá koma Birgir Þór Harðarson, Þórunn Elísabet Bogadóttir og Magnús Teitsson einnig að verkefninu.

Hugmyndin kviknaði á árunum 2010-2011

Í samtali við mbl.is segja Magnús og Þórður að hugmyndin hafi fyrst komið upp hjá þeim á árunum 2010 til 2011, en þá hafi þeir verið að færa sig frá Viðskiptablaðinu yfir til 365 miðla. Þórður segir að þeir hafi viljað nýta upplýsingatæknina til að búa til vettvang þar sem þeir gætu verið í fjölmiðlun á eigin forsendum. Í vor, þegar þeir sögðu upp hjá 365 miðlum, hafi svo tækifæri komið og eftir að hafa rætt við bræðurna Gísla og Ægi hafi boltinn farið að rúlla. Birgir Þór var svo ráðinn framleiðslustjóri og 1. júní hafi teymið svo formlega hafið vinnu við að undirbúa útgáfuna.

Kjarninn verður ókeypis miðill, en á milli renninga (ein frétt kallast renningur á spjaldtölvuforminu) verða auglýsingar sem borga fyrir útgáfuna. Aðspurðir hvort þeir telji þetta módel vera rekstrarlega mögulegt segja þeir svo vera. Þeir telja þó ólíklegt að hægt sé að færa dagblaðarekstur yfir í þetta form, allavega eins og staðan sé í dag, en að nýja framsetningin passi vel fyrir vikurit, eins og Kjarninn er.

Vefauglýsingar enn langt á eftir hérlendis

Eitt vakti sérstaka athygli þeirra þegar farið var að skoða rafræna auglýsingamarkaðinn, en þeir segja að aðeins um 8-9% af auglýsingafjárútlátum fyrirtækja fari í vefmiðla. Í Evrópu sé hluti vefmiðla aftur á móti kominn upp í 25% og þarna sé því um stórt bil að ræða með miklum sóknartækifærum.

Í kynningum fyrir miðilinn hefur verið lagt mikið upp úr aukinni dýpt í fréttaumfjöllun. Þeir segja að vikuritsfyrirkomulagið bjóði upp á þetta, en að sama skapi verði þeir lítið í því að reyna að vera fyrstir með fréttir af fundum eða einstökum atburðum.

Stór hópur sem búsettur er erlendis skrifar í blaðið

Blaðinu verður skipt upp í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum verða fréttaskýringar, en þar af verða um tvær af átta umfjöllunum um erlend málefni. Þórður segir að þar ætli blaðið að reyna að vera mjög sterkt, en þeir hafa fengið um 60-70 einstaklinga, sem margir hverjir séu búsettir erlendis, til samstarfs við sig og er ætlunin að margir þeirra skrifi um áhugaverð málefni í því landi eða heimshluta sem þeir búi í.

Í miðhluta blaðsins verða svo umfjallanir um dóms-, stjórn- og markaðsmál, auk þess sem fjallað verður um tækni. Lokahlutinn verður svo undirlagður undir listir, menningu og íþróttir. Magnús segir að þeir pennar sem fengnir hafi verið til samstarfs muni verða fyrirferðamiklir á þessum vettvangi.

Margir skrifa án greiðslu

Magnús segir að þegar þeir hafi haft samband við þessa aðila sem búsettir eru erlendis, þá hafi þeir fyrst valið 40 manns sem þeir töldu áhugaverða. Aðeins tveir þeirra sögðu nei, en það var í bæði skiptin vegna starfa sinna sem þeir gátu ekki tekið verkefnin að sér.

Aðspurðir um það hvort að slíku víðfeðmu neti fylgi ekki mikill kostnaður segir Þórður að margir sem skrifi fyrir blaðið geri það án greiðslu. Meðal annars verði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, einn greinahöfunda, en hann megi ekki taka við greiðslum starfs síns vegna. Meðal annarra einstaklinga sem koma að skrifum verða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem mun skrifa um málefni í Miðausturlöndum og Auður Jónsdóttir, rithöfundur. Þá eru einnig starfsmenn hjá alþjóðastofnunum og utanríkisþjónustunni sem munu skrifa í blaðið.

Lítið vit í því að prenta út og dreifa

Tækjaeign á Íslandi nokkuð algeng og segja Magnús og Þórður að því sé spáð að um helmingur heimila hér á landi muni í lok þessa árs eiga spjaldtölvu. Þeir telja rafræna útgáfu vera það sem koma skuli, enda ódýrari dreifingaleið en nú sé almennust. „Eftir því sem tækjaeign verður almennari og tækninni fleytir fram, þá er lítið vit í því að prenta út og dreifa, með þeim gengistryggða kostnaði sem á því hvílir, í stað þess að nota tækin og dreifa efninu beint í tækin,“ segir Magnús.

Newsweek, Wired og Vanity Fair fyrirmyndir

Þegar þeir eru spurðir um helstu áhrifavalda og fyrirmyndir blaðsins segja þeir báðir að hugmyndin komi upphaflega frá þeim og ætlunin sé ekki að líkja beint eftir öðrum miðlum. Hins vegar hafi til dæmis app-útgáfa Newsweek haft töluverð áhrif á hugmyndir þeirra og þá séu inntök Wired Magazine og Vanity Fair eitthvað sem þeir horfi til. Þeir taka þó fram að Kjarninn muni, þrátt fyrir nýja dreifingaleið, verða nokkuð íhaldssamur miðill.

Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson eru stofnendur Kjarnans.
Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson eru stofnendur Kjarnans. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK