Greiða 200 milljarða vegna íslensku bankanna

Breskir bankar munu þurfa að reiða af hendi ríflega milljarð punda, sem nemur um 200 milljörðum króna, vegna taps breskra innstæðueigenda hjá íslensku bönkunum sem féllu 2008.

Fyrsta afborgunin af þremur var greidd út í dag, samkvæmt fréttatilkynningu sem Samtök fjármálafyrirtækja í Bretlandi (British Banking Association) sendi frá sér í dag.

Hundruð þúsunda Breta áttu innstæður í útibúum og dótturfélögum íslensku bankanna á Bretlandseyjum. Sem kunnugt er ákvað breska ríkið að grípa inn og bæta sparifjáreigendum tapið vegna hruns íslensku bankanna og tók breski innstæðutryggingasjóðurinn lán hjá breska ríkinu til þessa. 

Í yfirlýsingu Anthony Browne, framkvæmdastjóra BBA, í dag segir að sú staðreynd, að bresk fjármálafyrirtæk séu byrjuð að greiða þessa skuld, sýni að bankageirinn sé að ná kröftum sínum á nýjan leik. Jafnframt sé það sönnun þess að kerfið sé sterkt og muni verja innstæðueigendur, jafnvel ef annað bankahrun yrði.

Bróðurhluti upphæðarinnar sem fellur á breska bankakerfið er til kominn vegna Icesave reikninganna, eða ríflega 700 milljónir punda. Rúmar 100 milljónir punda eru vegna innstæðna í Heritable Bank, dótturfélagi Landsbankans, og rúmar 600 milljónir vegna innstæðna hjá Kaupþing Singer & Friedlander.

Upphæðin verður greidd út í þremur hlutum á þremur árum, frá og með deginum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK