Komu heim með 125 milljarða

Fjármagnshöftum var komið á haustið 2008 þegar Ísland stóð frammi …
Fjármagnshöftum var komið á haustið 2008 þegar Ísland stóð frammi fyrir banka- og gjaldeyrishruni. AFP

Frá því að Seðlabankinn hóf að bjóða fjárfestum að koma heim með gjaldeyri í gegnum svokallaða fjárfestingaleið og ríkisskuldabréfaleið hafa verið fluttir heim 50,3 milljarða kr. með útboðum samkvæmt ríkisskuldabréfaleiðinni og rúmlega 124 milljarða samkvæmt fjárfestingarleiðinni.

Þetta kemur fram í greinargerð um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta sem fjármálaráðuneytið birti í dag. Gjaldeyrisútboð ríkisskuldabréfa hófust sumarið 2011, en fyrsta útboðið samkvæmt fjárfestingaleiðinni var haldið í febrúar 2012. Alls hafa verið haldin fimmtán útboð ríkisskuldabréfa og þrettán útboð hafa verið haldin í tengslum við fjárfestingarleiðina. Á grundvelli útboðsverðsins í hverju tilfelli og skráðs meðalgengis Seðlabankans á sama degi hafa fjárfestar fært alls um 50,3 milljarða kr. inn í landið með útboðum samkvæmt ríkisskuldabréfaleiðinni og rúmlega 124 milljarða samkvæmt fjárfestingarleiðinni. Um þriðjungur hefur farið gegnum innlendan gjaldeyrismarkað, þar sem 50% af þeirri fjárhæð sem fjárfest er fyrir samkvæmt fjárfestingarleiðinni verður að breyta í íslenskar krónur á gengi sem ákvarðast á innlendum gjaldeyrismarkaði. Í byrjun september 2013 höfðu gjaldeyrisútboðin veitt til Íslands fjárfestingum sem jafngiltu um það bil 10,5% af vergri landsframleiðslu ársins 2012. Um 43% af fjármagnsinnstreyminu af völdum fjárfestingarleiðarinnar hafa verið fest í skuldabréfum, um 43% í hlutabréfum, 13% í fasteignum og um 1% í verðbréfasjóðum. Þegar greint er á milli innlendra og erlendra aðila sem tóku þátt í útboðunum kemur í ljós að 36% heildarfjárhæðarinnar koma frá innlendum og 64% frá erlendum fjárfestum. Við þessa greiningu eru erlend fyrirtæki í eigu íslenskra aðila flokkuð sem innlendir fjárfestar.

Að auki hafa verið haldin fjórtán útboð þar sem leitað er tilboða frá aðilum sem vilja selja krónueignir sínar í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri sem er undanþeginn skilaskyldu. Árið 2011 voru haldin tvö slík útboð á genginu 210 krónur á evru. Verðið hélst nokkuð stöðugt árið 2012, eða 240 krónur á evru, en það hefur lækkað á árinu 2013. Í síðasta útboðinu, sem var haldið í byrjun september 2013, var útboðsverðið 224 krónur á evru. Í útboðunum fjórtán hafa alls 317 milljarðar kr. verið boðnir til sölu, en þar af hefur Seðlabankinn keypt um 104 milljarða kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK