Vill læra af Íslendingum

Framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Angel Gurría,
Framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Angel Gurría, AFP

Framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Angel Gurría, vill læra af árangri og mistökum Íslendinga á sviði samkeppniseftirlits. Stofnunin myndi styðja sterkari samkeppnislöggjöf hér á landi.

 Þetta var á meðal þess sem kom fram í erindi hans á ráðstefnu sem Samkeppniseftirlitið boðaði til í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá því að íslensku samkeppnislögin tóku gildi.

Gurría sagði jafnframt að skortur á regluverki hafi leitt til fjármálahrunsins sem skall á heimsbyggðina haustið 2008. Kreppan stæði enn yfir og ekki sæi fyrir endann á henni.

Hann benti á að samkeppnislög væru í raun innanríkismál en aukin viðskipti á alþjóðavettvangi hafi kallað á aukna samvinnu. Fyrirtæki starfi í mörgum löndum og eigi ekki að komast upp með slæma viðskiptahætti í einu landi samtímis og þeim sé refsað annars staðar.

Mikilvægt að lækka tolla 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði áherslu á að innleiða samkeppni í frekari mæli í heilbrigðis- og menntamálum í ræðu sinni. Slíkt yrði mjög til hagsbóta, en nærtækt sé að líta til Norðurlandanna, sér í lagi Svíþjóðar, og leita fyrirmynda þar. Þá benti hún á mikilvægi þess að tollar yrðu lækkaðir á innfluttar vörur.

 Hafa áhyggjur af ógagnsæju eignarhaldi

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði að sú staða sem atvinnulífið væri í, það er lítil arðsemi og framleiðni, kallaði á sérstaka árvekni. Sú hætta sé fyrir hendi að ástandið leiði til meiri aðgangshindrana fyrir nýja aðila, innlenda sem erlenda, undir því yfirskyni að vernda þurfi fyrirliggjandi félög. Slík stefna leiði til minni samkeppni sem loks leiði til minni framleiðni og lakari lífskjara.

Fram kemur í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem Páll Gunnar kynnti á ráðstefnunni, að eftirlitið hafi áhyggjur áf ógagnsæju eignarhaldi lífeyrissjóða, banka og einstaklinga í gegnum sjóði, sér í lagi sameiginlegu eignarhaldi fagfjárfesta í tveimur eða fleiri keppinautum á sama markaði, en hlutur lífeyrissjóða í eignarhaldi fyrirtækja hefur vaxið mikið frá hruni.

„Skuldir stærri fyrirtækja við banka hafa minnkað verulega með niðurfærslu skulda, gengislánadómum og uppgreiðslum. Samt sem áður er arðsemi fyrirtækja lág, einkum í innlenda þjónustugeiranum og vísbendingar eru um að endurskipulagningu sé ekki lokið. Stöðnun ríkir í atvinnulífinu og fjárfestingar eru ekki umfram afskriftir. Þessi staða minnir á þá stöðnun sem ríkti í Japan eftir kreppuna 1990 og nefnd hefur verið „týndi áratugurinn,“ segir ennfremur í skýrslunni.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK