„Þarf eiginlega einbeittan brotavilja“

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, á fjármálaráðstefnunni í dag.
Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, á fjármálaráðstefnunni í dag. mbl.is/Hjörtur

Leiðin út úr þeim efnahagsvanda sem Íslendingar eiga við að glíma er að vera eins og Asíuþjóð sagði Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Í því fælist mikill sparnaður, lítil einkaneysla og öflugur útflutningur. Þannig væri hægt að ná gengi krónunnar upp á nýjan leik og stuðla að afnámi gjaldeyrishafta. Hann sagðist hins vegar ekki vera viss um að Íslendingar væru fáanlegir til þess að fara slíka leið.

Ásgeir benti á að þrátt fyrir að ýmis vandamál væru fyrir hendi í efnahagsmálum landsins væri margt jákvætt líka. Þannig færi atvinnuleysi minnkandi og hefði einkum minnkað í röðum ófaglærðra og ungs fólks sem hann sagðist telja að mætti einkum rekja til uppsveiflunnar í ferðaþjónustunni. Það væri vísbending um að íslenskt hagkerfi væri á leið í jafnvægi í þeim efnum. Á hinn bóginn minnkaði atvinnuleysið ekki mikið á meðal menntaðs fólks. Líklega hefði atvinnuástandið aldrei verið verra fyrir það.

Fleira væri jákvætt varðandi vinnumarkaðinn. Þannig væri meðalvinnutími og heildarvinnustundir og fleira að aukast sem benti meðal annars til þess að fólk væri að fá meiri yfirvinnu sem þýddi meiri verðmætasköpun. Sömuleiðis væru fleiri að flytjast til landsins og brottflutningurinn hættur. Aftur væri þannig farið að flytja inn erlent vinnuafl. Það neikvæða væri hins vegar það að laun á Íslandi væru enn þau lægstu í Vestur-Evrópu.

Hægur efnahagsbati næstu 2-3 ár

Miðað við reynslu síðustu ára sagði Ásgeir að búast mætti við hægum efnahagsbata næstu 2-3 ár. Hann sagðist telja að hagkerfið ætti eftir að taka við sér á næsta ári þrátt fyrir að það hafi hægt á því á þessu ári. Meðal annars vegna þróunar mála á fasteignamarkaði sem og fjárfestinga meðal annars í hótelbyggingum. Hins vegar mætti síðan alltaf gera ráð fyrir niðursveiflu eftir nokkur ár en sagan sýndi að vænta mætti þess allajafna á 4-5 ára fresti.

Hann lauk ræðunni á því að vekja athygli á aldursskiptingu þjóðarinnar og sýna súlurit sem sýndi hana þar sem fjölmennustu aldursflokkarnir væru þeir sem yngri eru. „Þjóð sem er með svo mikið af ungu fólki, sem er einstakt í Evrópu, svo mikið af náttúruauðlindum. Það þarf eiginlega einbeittan brotavilja til að klúðra klúðra því,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK