Hagfræði á matseðli fjölskyldunnar

Janet Yellen sem Barack Obama Bandaríkjaforseti mun síðar í dag tilnefna sem næsta seðlabankastjóra landsins, er líkleg til að fylgja þeirri braut sem Ben Bernanke, forveri hennar, hefur lagt upp með.

Yellen er sagður frjálslyndur hagfræðingur og í hópi þeirra sem vilja einbeita sér að því að örva hagkerfið og hefur, að minnsta kosti enn um sinn, ekki áhyggjur af vofu ódýrs fjármagns sem myndi ýta undir stjórnlausa verðbólgu.

Mánuðum saman hefur fólk velt því fyrir sér hver verði arftaki Bernanke. Í kvöld kl. 19 að íslenskum tíma herma fréttir að Obama muni tilnefna Yellen og verður það gert frá Hvíta húsinu.

Obama hefur þar með valið Yellen fram yfir Larry Summers, sem flestir höfðu veðjað á að væri efstur á óskalista forsetans. Sá er fyrrverandi ráðgjafi Hvíta hússins á þinginu og því hugsanlegt að Obama hafi talið hann of umdeildan, nú þegar fjárlög ríkisins eru í miklu uppnámi. Hann hafði reyndar beðist undan því að verða útnefndur þar sem hann taldi sjálfur að hann yrði of umdeildur.

En talið er að Yellen verði einnig umdeild meðal þingmanna, sérstaklega þeirra íhaldsömustu sem telja að seðlabankinn hafi farið of frjálslega með fé og telja að Yellen haldi áfram á þeirri braut.

Áhrifamesta fjármálastofnun heims

Yellen er 67 ára og verður fyrsta konan til að leiða seðlabanka Bandaríkjanna, áhrifamestu fjármálastofnun heims.

Hún hefur í fleiri ár unnið hjá bankanum. Hún hóf starfsferil sinn þar á tíunda áratugnum sem hagfræðingur. Á árunum 2004-2010 var hún yfirmaður bankans í San Francisco.

Síðan þá hefur hún starfað sem ráðgjafi Bernanke núverandi seðlabankastjóra og setið í ýmsum nefndum bankans.

Hún er gift Nóbelsverðlaunahagfræðingnum George Akerlof og móðir hagfræðiprófessorsins  Robert Akerlof. Hún fæddist í New York og nam hagfræði við Brown-háskólann. Þaðan tók hún doktorspróf sitt.

Yellen var prófessor við Harvard-háskóla og síðar við Berkeley-háskólann í Kaliforníu. Eiginmaður hennar starfar við þann háskóla að kennslu og rannsóknum.

Vinnan og fjölskyldan

„Sannleikurinn er sá,“ sagði hún eitt sinn í viðtali um fjölskyldu sína, „að ef þú eyddir kvöldi með okkur fjölskyldunni þá myndir þú heyra að við ræðum mikið um hagfræði við kvöldverðarborðið. Þú myndir fá stærri skammt af umræðum um hagfræði og stjórnsýslu en flestir telja lystaukandi.“

Yellen hefur verið í innsta hring valdamanna Demókrata allt frá tíunda áratugnum. Árið 1994 valdi Bill Clinton, þáverandi forseti, hana í stjórn seðlabankans og útnefndi hana hagfræðiráðgjafa sinn á árunum 1997-1999.

Sá ekki hrunið fyrir

Er hún var gerð að helsta aðstoðarmanni Bernanke árið 2010 sætti hún harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki séð efnahagshrunið fyrir. Er kreppan skall á var hún æðsti stjórnandi bankans í San Francisco en það svæði varð sérstaklega illa úti í hruninu. Ríki sem tilheyrðu hennar svæði, s.s. Kalifornía, Nevada og Arizona, urðu fyrir miklu fjárhagslegu áfalli vegna fasteignabólunnar.

Árið 2007 varaði Yellen þó við mögulegri kreppu, en hún viðurkenndi fyrir rannsóknarnefnd þingsins árið 2010 að hafa ekki áttað sig á hversu slæmt ástandið gæti orðið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Yellen hefur verið orðuð við seðlabankastólinn. Árið 2009, er fyrsta tímabil Bernanke var að renna út, kom nafn hennar oft upp í umræðunni um mögulegan eftirmann hans. En Bernanke ákvað að halda áfram þar sem ástandið í efnahagslífinu var enn erfitt.

Síðan þá hefur hún verið helsti bandamaður Bernankes og stutt þá stefnu að bankinn einbeiti sér fyrst og fremst að aðgerðum til að minnka atvinnuleysi frekar en mögulegri hættu á verðbólgu.

„Að draga úr atvinnuleysi er mikilvægasta málið,“ hefur Yellen sagt.

Janet Yellen.
Janet Yellen. AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP
Ben Bernanke, núverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Ben Bernanke, núverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK