Framleiðsla þotueldsneytis á Íslandi

Gangi áætlanir Hannibal ehf. eftir má búast við framleiðslu á …
Gangi áætlanir Hannibal ehf. eftir má búast við framleiðslu á þotueldsneyti hér á landi á næstu árum. AFP

Unnið er að því að koma á fót verksmiðju sem framleiðir þotueldsneyti hér á landi, en það yrði gert úr forhreinsuðu sorpi, sem jafnan kallast SRF. Helst er til skoðunar að reisa verksmiðjuna nálægt Helguvík eða Keflavíkurflugvelli. Þetta segir dr. Halldór Ármannsson, einn þeirra sem standa á bak við fyrirtækið Hannibal ehf., sem hefur unnið að verkefninu síðustu ár.

Gæti skapað 50 störf

Framleiðsla sem þessi er enn á tilraunastigi, en tæknisamstarf er í gangi milli íslensku aðilanna og VTT (finnsku Iðntæknistofnunarinnar), sem er hvað fremst í heiminum við ná að umbreytingunni yfir í þotueldsneyti. Halldór segir í samtali við mbl.is að ef allt gangi að óskum geti framleiðsla hér á landi skilað allt að 50 störfum á ársgrundvelli þegar hún sé komin á fullt. 

Ísland þykir góður staður undir þessa framleiðslu að sögn Halldórs þar sem orka er ódýr og þá sé einnig hægt að nálgast jarðhitagufu sem þurfi í burðarefni við framleiðsluna. Þá geri aukið vægi Keflavíkurflugvallar og auknar kröfur um notkun koltvísýringshlutlauss eldsneytis vegna loftslagsbreytinga þessa framleiðslu nálægt flugvellinum mjög fýsilega. Gerir hann ráð fyrir að framleiðslan mun þurfa á bilinu 50 til 100 megavattsstundir, eftir því hversu framleiðslan verður mikil. Þá sé tiltölulega lítil mengun af þessari framleiðslu, en Halldór segir að verksmiðjan flokkist sem lítið mengandi.

Í vinnslu síðustu sex ár

Halldór segir að hugmyndin hafi kviknað hjá Ásgeiri Leifssyni hagverkfræðingi fyrir um fimm til sex árum. Síðan þá hafi, auk Halldórs, þeir Valdimar Kr. Jónsson prófessor emeritus í vélaverkfræði og Gestur Ólafsson, arkitekt, komið að verkefninu. 

Til að framleiða þotueldsneyti með þessum hætti þarf fyrst að umbreyta forhreinsaða sorpinu yfir í svonefnt syngas (blanda kolmónoxíðs og vetnis). Úr syngasi má vinna eldsneyti á borð við flugvélabensín og dísilolíu, en Halldór segir að finnska Iðntæknistofnunin sé sú eina í heiminum sem hafi náð að hreinsa syngas þannig að það megi nýta til umbreytingar í dísilolíu eða þotueldsneyti.

Framleiðslan allt að 1 milljón tonn

Hann segir að upphaflega hugmyndin sé að reisa 200-300 þúsund tonna framleiðslueiningu, en nú þegar er komið vilyrði frá Bretlandi um slíkt magn af hreinsuðu sorpi. Ef allt gengur upp verður svo horft til þess að stækka verksmiðjuna þannig að hún geti framleitt um 800-1.000 þúsund tonn. Halldór segir að helst sé horft til þess að flytja forhreinsaða sorpið til hafnar sem er nálægt háhitasvæði, svo sem Helguvíkur, en þaðan er einnig stutt á Keflavíkurflugvöll þar sem hægt væri að setja það sem eldsneyti á flugvélar. 

Hannibal ehf. hefur nú þegar aflað sér einkaleyfis á framleiðsluaðferð sinni á Íslandi, Mexíkó og Nikaragúa, þar sem unnt er að afla háhitajarðgufu. Hagnýting ódýrrar upphitunarorku í formi háhitajarðgufu, vatnsaflsraforku yrði mótvægi við flutningskostnað á mötunarefninu.

Dr. Halldór Ármannsson hefur ásamt þremur öðrum komið að verkefninu. …
Dr. Halldór Ármannsson hefur ásamt þremur öðrum komið að verkefninu. Hann segir að 50 manns muni vinna í verksmiðjunni þegar framleiðsla sé komin á fullt.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK