Óráðsía þýðir aukin verðbólga og minni atvinna

mbl.is/Kristinn

Sýni hið opinbera ekki ráðdeild í opinberum fjármálum á næstu misserum, hvort sem 
litið er til útgjalda eða mögulegra skuldalækkana eða skattabreytinga, eða ef aðilar vinnumarkaðarins semja um hækkun launakostnaðar sem samræmist ekki verðbólgumarkmiðinu við gerð kjarasamninga í haust munu áhrifin verða aukin verðbólga og minni atvinna.

Þetta kemur fram í grein eftir þá Bjarna G. Einarsson og Jósef Sigurðsson er ber heitið „Ljón í vegi minnkandi atvinnuleysis“, en greinin er birt í nýjasta tölublaði Efnahagsmála, sem Seðlabanki Íslands gefur út.

Bjarni og Jósef segja, að peningastefnan verði að bregðast við ofangreindu ástandi, sem vegna heldni í atvinnuleysi geti haft í för með sér að atvinnuleysi verður meira og þrálátara en ella. 

Niðurfelling á húsnæðisskuldum getur haft þensluaukandi áhrif

Í greininni kemur jafnframt fram, að niðurfelling á húsnæðisskuldum einstaklinga geti haft veruleg þensluaukandi áhrif. Það eigi jafnt við hvort sem um sé að ræða beina endurgreiðslu, sem skili sér beint í auknum ráðstöfunartekjum í dag, eða lækkun höfuðstóls, sem leiði til aukinna ráðstöfunartekna í framtíðinni.

„Leiði slíkar aðgerðir til aukinnar verðbólgu yrði Seðlabankinn að bregðast við með auknu aðhaldi, sem gæti leitt til hækkunar jafnvægisatvinnuleysis,“ að því er fram kemur í greininni.

Mikilvægt að halda verðbólgu lítilli og stöðugri

Í upphafi greinarinnar benda þeir Bjarni og Jósef á, að þegar samdráttarskeiðinu sé lokið og hagvöxtur hafi tekið við sér, sé ekki óeðlilegt að spurt sé hver líkleg þróun atvinnuleysis verði á næstu misserum, hvort það haldi áfram að minnka og ef svo er hversu hratt. Svarið velti m.a. á því hver áhrif kreppunnar voru á jafnvægisatvinnuleysi.

„Niðurstöður nýlegrar rannsóknarritgerðar höfunda (How „natural“ is the natural rate? Unemployment hysteresis in Iceland, Seðlabanki Íslands, Working Paper nr. 64) benda til þess að jafnvægisatvinnuleysi hafi aukist töluvert í kjölfar fjármálakreppunnar og þrátt fyrir að það hafi minnkað nokkuð á ný er það enn nokkru meira en það var fyrir kreppuna,“ segir í greininni.

„Niðurstöðurnar sýna einnig að jafnvægisatvinnuleysi virðist hafa einkenni „heldni“, þ.e. breytingar á eftirspurn hafa ekki aðeins áhrif á atvinnuleysi heldur einnig á jafnvægisstöðu þess. Mikilvægi þess að halda verðbólgu lítilli og stöðugri er því enn meira vegna þessa eiginleika atvinnuleysis. Það er því mikilvægara en ella að stefnan í ríkisfjármálum miði að því að koma í veg fyrir ofþenslu í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi verðbólgu og að aðilar vinnumarkaðarins semji ekki um,“ segir ennfremur.

Bjarni er hagfræðingur við rannsóknar- og spádeild hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands og aðjunkt við hagfræðideild Háskóla Íslands. Jósef er doktorsnemi við Stokkhólmsháskóla. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK