Íslenskt hugvit til Papúa Nýju-Gíneu

Ben Micah, ráðherra ríkisfyrirtækja og opinberrar fjárfestingar í Papúa Nýju-Gíneu …
Ben Micah, ráðherra ríkisfyrirtækja og opinberrar fjárfestingar í Papúa Nýju-Gíneu og John Tangit, forstjóri ríkisorkufélagsins PNG Power. Rósa Braga

Í vikunni kom sendinefnd frá Papúa Nýju-Gíneu í heimsókn til landsins, en megintilgangur ferðarinnar var að kynna sér uppbyggingu jarðhitavirkjana hér á landi og hvernig hægt væri að nýta þá þekkingu í framtíðar uppbyggingaráformum heima fyrir. Sendinefndin kom í boði Iðnaðarráðuneytisins og hitti meðal annars forsetann, ráðamenn Icelandair og ráðgjafa hjá orkufyrirtækinu Reykjavík Geothermal.

Í kjölfar heimsóknarinnar var meðal annars undirritaður samningur milli ríkisstjórnar Papúa Nýju-Gíneu og Reykjavík Geothermal, eins og greint var frá á fimmtudaginn. Þá hefur dótturfélag Icelandair, Loftleiðir, um langa hríð leigt flugvélar til ríkisflugfélags landsins og er stefnt á að auka það samstarf. Blaðamaður mbl.is settist niður með Ben Micah, ráðherra ríkisfyrirtækja og opinberrar fjárfestingar og John Tangit, forstjóra ríkisorkufélagsins PNG Power og ræddi um jarðvarma í landinu og tengsl þess við Ísland.

Nýta orkuna til að þurrka ávexti og auka iðnaðinn í landinu

Micah segir að mikilvægt sé fyrir land eins og Papúa Nýju-Gíneu, sem er að hefja jarðvarmavirkjun, að læra af Íslandi, sem hefur mikla reynslu og er framarlega í heiminum á þessu sviði. Hann segir Papúa Nýju-Gíneu búa yfir miklum jarðvarma, en landið er staðsett ofan á Eldhringnum svokallaða, en það er keðja af virkum eldstöðvum sem liggja í Kyrrahafinu.

Hann segir mjög áhugavert hvernig hægt hafi verið að nýta jarðvarma hér á landi til að framleiða bæði rafmagn og hita upp hús. Í Papúa Nýju-Gíneu er ekki líklegt að jarðvarminn verði notaður til að húshitunar, en Tangit segir að horft sé til þess að nýta hann í að þurrka ávexti og aðrar vörur sem séu fluttar út. Þá gefi aukin raforkuvinnsla landinu færi á að byggja upp eigin iðnað sem nýti þau hráefni sem finnist í landinu til framleiðslu þar. Í dag segir hann að mest allt hráefni sé flutt úr landi óunnið og með því verði landið af miklum fjármunum.

Stór áform á næstu árum

Á næstu árum ætlar ríkisstjórnin sér að fara í miklar framkvæmdir í jarðhitageiranum, en stefnt er á að fara í byggingu á 1000 MW virkjun. Í dag eru aðeins búið að virkja um 100 MW með jarðvarma, þannig að menn eru stórhuga í þessu málum. Tangit segir að landið sé einnig að horfa á aukna framleiðslu af grænni orku, til dæmis með aukinni uppbyggingu á vatnsaflsvirkjunum. Segir hann að uppi séu plön sem miði að því að framleiða 10.000 MW með vatnsafli.

Þetta er töluverður viðsnúningur fyrir landið, en í dag eru um 60% af raforku landsins framleidd með því að brenna jarðeldsneyti, en Tangit segir að á næstu fimm árum sé áformað að minnka það hlutfall um helming.

Reykjavík Geothermal með mikla þekkingu á svæðinu

Aðspurður um það hvort hann sjái fyrir sér aukið samstarf ríkisstjórnarinnar við íslensk fyrirtæki þegar kemur að uppbyggingunni sjálfri segir Micah að ráðgjafasamningurinn sé fyrsta skrefið og að Reykjavík Geothermal sé með mikla þekkingu á svæðinu. Í framhaldi af ráðgjafaskýrslu fyrirtækisins verði svo ákveðið með næstu skref, en hann útilokar alls ekki að íslensk fyrirtæki geti komið þar að.

Ísland og Papúa Nýja-Gínea eiga margt sameiginlegt að sögn Micah, en hann segir að bæði löndin séu eyjar á eldfjallasvæði með miklum jarðhita. Þetta skapi svipuð tækifæri í báðum löndum og svipuð vandamál.

Micah segir að hann sé einnig mjög áhugasamur um aukið samstarf á verkfræðivettvangi varðandi ráðgjöf um litlar vatnsaflsvirkjanir. Segir hann að gert sé ráð fyrir því að margar slíkar virkjanir verði settar upp á næstu árum í Papúa Nýju-Gíneu til að rafvæða minni svæði.

841 tungumál 

Miklar áskoranir eru fyrir hendi í landinu varðandi uppbygginguna, en það er eitt fjölbreyttasta land í heimi. Það er 462 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða um fjórfalt stærra en Ísland. Það samanstendur af hundruðum eyja með mjög fjölbreytt landslag, veðurfar og loftslag. Í landinu er hitabeltisloftslag með jöfnum háum hita allt árið og mikilli úrkomu í regnskóginum, en í fjöllunum sem rísa allt að 4000 metra yfir sjávarmál eru hitastigsbreytingar meiri og þar snjóar með reglulegu millibili.

Til viðbótar við fjölbreytt landslag er mikil fjölbreytni í lýðfræði landsins, en áætlað er að um 6,5 milljónir búi í landinu. Það telst til þróunarlanda en er á hraðri þróun til nýrra lífshátta. Atvinnuleysi er mikið og stór hluti íbúa býr í dreifbýli með lítinn aðgang að nútímatækni, en margir afskekktir og frumstæðir ættbálkar búa í landinu. Til að fullkomna fjölbreytileikann eru töluð 841 tungumál í landinu, en það er um 12% af tungumálum heimsins.

Gætu lært af fiskveiðum Íslendinga

Eins og fyrr segir er Papúa Nýja Gínea einnig eyland eins og Ísland og Micah segir að þar skapist annað tækifæri á samvinnu milli landanna. Hann segist hafa kynnt sér íslensk fiskveiðimál og þar megi geti landið nýtt sér þekkingu Íslands, bæði varðandi lagaumhverfi og til að byggja upp eigin iðnað í greininni.

Papúa Nýja-Gínea er mikil fiskveiðiþjóð, en kringum landið var veiddur fiskur að verðmæti 10 milljarðar Bandaríkjadalir í fyrra. Micah segir að þessir fjármunir fari þó að mestu úr landinu, en langstærstur hluti veiðanna var á vegum kóreskra, japanskra og taívanskra skipa. „Ég mun tala við sjávarútvegsráðherrann okkar og benda honum á þá tækni og stefnumótun sem hér er notuð og vonandi getum við lært af ykkur,“ segir Micah.

Sjá fyrir sér aukið samstarf við Icelandair

Í heimsókninni hittu sendinefndarmenn einnig forsvarsmenn Icelandair. Micah segir að síðustu sjö ár hafi Loftleiðir, sem er dótturfélag Icelandair, leigt fimm flugvélar til ríkisflugfélagsins á Papúa Nýju-Gíneu. Hann segir að stefnt sé að auknu samstarfi á þessum vettvangi, en Micah segir að áætlun ríkisstjórnarinnar gangi út á að landið verði næsta stóra miðstöð flugumferðar á svæðinu.

Segir hann að byggja megi upp svipað leiðakerfi þar og Icelandair hefur notað milli Evrópu og Ameríku, en í þessu tilfelli milli Eyjaálfu og Asíu. Þetta sé mjög áhugaverð hugmyndafræði sem Icelandair hafi náð að útfæra vel hér á landi og gæti gagnast vel hinu megin á hnettinum.

Papúa Nýja-Gínea er mjög fjölbreytt land, en þar búa um …
Papúa Nýja-Gínea er mjög fjölbreytt land, en þar búa um 6,5 milljónir á 460 þúsund ferkílómetrum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK