Sendir bréf á foreldra starfsfólks

Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, á fundinum í Þjóðleikhúsinu. Mikill áhugi …
Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, á fundinum í Þjóðleikhúsinu. Mikill áhugi var á erindi hennar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtæki þurfa í auknum mæli að hugsa til langs tíma í stað þess að horfa á skammtímahagsmuni og reyna að auka hagnað tímabundið. Með því að samþætta rekstrarlegan árangur og samfélagslega ábyrgð er hagur fyrirtækjanna best tryggður. Þetta sagði Indra Nooyi, forstjóri og stjórnarformaður PepsiCo, á hátíðarfundi Ölgerðarinnar í Þjóðleikhúsinu í dag.

Nooyi sagði að góð fyrirtæki væru ekki þau sem gerðu góða hluti með hagnaði sínum, heldur þau sem framkvæmdu góða hluti með þeim viðskiptum sem þau stunduðu. Þannig mættu fyrirtæki ekki koma kostnaði í viðskiptum yfir á næstu kynslóðir, til dæmis varðandi umhverfismál. Sagði hún PepsiCo hafa lagt mikið upp úr þessari hugsun síðan hún tók við stjórninni árið 2006.

Leggja áherslu á umhverfismál

Þannig sagði hún að mikil áhersla hafi verið lögð á umhverfismál og að draga úr umhverfissporum sem rekstur fyrirtækisins skilur eftir sig. Sagði hún að búið væri að draga mikið úr vatnsnotkun í framleiðsluferlinu og að útblástur bifreiða fyrirtækisins hefði einnig minnkað mikið. PepsiCo væri til dæmis stærsti kaupandi rafrænna bíla í Bandaríkjunum í dag. Í umbúðamálum hefðu einnig verið stigin stór skref og þannig hefðu til dæmis sparast um 150 milljón tonn af umbúðum á síðustu tveimur árum hjá fyrirtækinu á heimsvísu.

Hún sagði mikilvægt fyrir stjórnendur að horfa á stöðuna bæði í dag og svo einnig að horfa út sjóndeildarhringinn og velta fyrir sér hvað kæmi fyrirtækinu vel næstu áratugina. Nooyi var spurð að því á fundinum hvernig þetta viðhorf passaði í hið hraða viðskiptaumhverfi sem væri algengt í Bandaríkjunum og víðar.

Átti bara að selja fitu og sykur

Hún grínaðist með að þegar hún hefði nefnt þessar áherslur fyrst hefði hún verið minnt á að hennar hlutverk væri að selja fitu, sykur og óhollan mat og gera hann vinsælan. Hún hafi aftur á móti fljótt séð að langtímahagsmunir fyrirtækisins væru að taka þátt í að bæta samfélagið og heilbrigðismál neytenda væru þar á meðal. Þannig hefði PepsiCo í auknum mæli aukið framboð hollari drykkja og annarra vörutegunda.

Nooyi tók þó fram að það væri ekki hlutverk fyrirtækja að vera í hlutverki barnfóstru og að það væru alltaf neytendur sem tækju ákvörðun um það sem þeir vildu neyta. Maðurinn færi ekki að hætta því að leyfa sér stundum að fá eitthvað gott og óhollt og PepsiCo myndi áfram framleiða þannig vöru. Það væri aftur á móti hlutverk fyrirtækja að bjóða upp á aðrar vörur samhliða sem væru hollari og á sambærilegu verði.

Gagnrýndi Wall Street

Hún var harðorð í garð fyrirtækjamenningarinnar á Wall Street, sem hún sagði að einkenndist um of af forstjórum sem kæmu inn og ættu að auka hagnað á sem skemmstum tíma. Þannig reyndu þeir oft að setja allt á fullt án þess að hugsa um samfélagslegar afleiðingar og afleiðingar fyrir fyrirtækið til langs tíma. Sagði hún að oft væri reyndin sú að fyrirtæki sem hefðu svona forstjóra tækju dýfu niður á við í kjölfar tímabil sem einkenndist af offorsi.

Sendir bréf á foreldra starfsfólks

Nooyi er þekkt fyrir að senda út bréf til foreldra starfsfólks hjá PepsiCo. Aðspurð út í þessa venju sína sagði hún að þetta hefði byrjað eftir að hún sá áhuga móður sinnar á að segja frá því hversu farsæl hún væri. Sagði hún að þegar hún væri í heimsókn hjá móður sinni væri henni alla jafna stillt upp sem einskonar gluggaskrauti fyrir hemsóknir ættingja, sem jafnan hrósuðu svo móður hennar fyrir að hafa staðið sig svona vel í uppeldinu.

Nooyi  sagði að þar hefði hún áttað sig á því hversu mikilvægt það væri fyrir foreldra að fá viðurkenningu á því hvernig börnin þeirra væru að standa sig. Oftast fengju þau ekki neinar upplýsingar um árangur barnanna sinna í námi eða starfi eftir 18 ára aldurinn. Eitt lítið bréf, þar sem hlutverk og mikilvægi starfsmannanna væri til umfjöllunar, gerði því oft á tíðum mjög mikið fyrir foreldrana og það skilaði sér venjulega til starfsfólksins, enda segja flestir að foreldrar séu mestu áhrifavaldar í lífi þeirra.

Talar um börnin sín við starfsmenn

Þessi bréf eru þó ekki eina persónulega nálgunin sem Nooyi hefur sýnt í starfi, en hún er einnig þekkt fyrir að tjá sig mikið við starfsmenn gegnum bréf eða á innri síðu PepsiCo. Þar segir hún meðal annars frá því ef barnið hennar sé veikt eða ef eitthvað liggi henni á hjarta. Til viðbótar komi svo auðvitað punktar sem tengist viðskiptum, en þetta búi til betri tengingu milli starfsmanna fyrirtækisins og hennar.

„Það þarf að koma frá hjartanu“

Nooyi sagði að hún byggist við að þessi nálgun yrði að venju frekar en undantekningu innan skamms, enda leiði þetta til þess að starfsmenn finni sig betur í vinnunni og gefi sig betur í starfið í kjölfarið. „Það þarf að koma frá hjartanu,“ sagði hún, en sem dæmi um þessa persónulegu nálgun nefndi hún að fyrir nokkru hafi mjög frambærilegur starfsmaður verið í atvinnuviðtali hjá PepsiCo. Fyrirtækið hafi viljað gera allt til að ná í hann og því hafi hún ákveðið að hringja í móður hans og sagt henni frá því hversu áhugasöm þau væru um starfskrafa hans og útskýrðu hvað starfið fæli í sér. Fljótlega seinna hafi þau fengið svar frá honum um að hann tæki starfið.

Forstjórar þurfa að tala um stóru málin

Í lok fundarins var Nooyi spurð út í hvaða ráð hún gæti gefið íslenskum stjórnendum, sem voru fjölmargir á fundinum. Sagði hún mikilvægt fyrir stjórnendur að huga að langtímahagsmunum fyrirtækja og samfélags, eins og áður hefur verið nefnt. Þá sagði hún einnig mikilvægt að forstjórar og aðrir hátt settir aðilar í einkageiranum myndu láta meira heyra í sér varðandi mikilvæg málefni. Gagnrýndi hún hversu þögulir margir hefðu verið síðustu ár þegar kæmi að öðrum málefnum en væru nátengd eigin fyrirtækja. Með þessu væri svo hægt að ná betri tengingu við stjórnmálin, sem Nooyi sagði að mættu læra margt um skilvirkni frá einkageiranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK