Óvæntur samdráttur í bílasölu

Óvæntur samdráttur var í bílasölu á árinu.
Óvæntur samdráttur var í bílasölu á árinu. mbl.is/Styrmir Kári

Allt stefnir í að sala á nýjum fólksbílum dragist saman um átta prósent á árinu sem senn er á enda borið saman við árið í fyrra, segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Bílasala var á hægri uppleið fyrr á árinu, eða fram í ágústmánuð, þegar hún hrundi. Í ágúst var um tíu prósent samdráttur á sölunni, miðað við sama mánuð í fyrra, 25,5% í september, 10% í október og hvorki meira né minna en 39,7% í nóvembermánuði.

Margir forsvarsmenn bílaumboða hér á landi bundu vonir við að árið 2013 yrði ár uppsveiflunnar í bílasölu en raunin hefur orðið þveröfug. Salan er mikil vonbrigði og eru horfurnar ekki ýkja bjartar. Bílaflotinn er orðinn einn sá elsti í Evrópu, eða um þrettán ára gamall, en æskilegur meðalaldur er sjö til átta ár, að mati sérfræðinga.

Í samtali við mbl.is segir Özur að engin einhlít skýring sé á þessum mikla og óvænta samdrætti. „Fólk var eflaust að bíða eftir þessum skuldaleiðréttingum sem ríkisstjórnin hafði lofað. Fólk vildi eflaust bíða með það að endurnýja bílinn til að sjá hvað það myndi fá, og hvort það myndi fá eitthvað, út úr þessum pakka. Það er ein hugsanleg skýring,“ segir hann. „Samhliða þessum samdrætti á haustmánuðum dróst líka saman hjá bílaverkstæðum, sem er frekar öfugsnúið. Það ætti frekar að vera nóg að gera á verkstæðunum eftir því sem bílasala dregst saman og bílaflotinn eldist. Gamlir bílar þurfa mun meira viðhald en nýir bílar. En svo var ekki,“ útskýrir hann.

Þá sé óvissa alltaf slæm. „Á meðan óvissuástand ríkir heldur fólk að sér höndum. Þetta er auðvitað önnur stærsta fjárfesting venjulegs heimilis, bíllinn, og stór ákvörðun í lífi hvers manns.“

Bílasala mun taka við sér

Özur er þó sannfærður um að bílasala muni taka við sér á næsta ári. „Það er ekkert annað í boði. Við erum komin með elsta bílaflotann í Evrópu. Það er ekki hægt að halda gömlum, lélegum bílum endalaust við. Það verður að eiga sér stað endurnýjun,“ segir hann. Bílgreinasambandið spáir því að sala á nýjum fólksbílum verði 8.500 á næsta ári, sem yrði mikil aukning á milli ára.

„Við erum samt sem áður ekki ánægðir með þá tölu. Eðlileg endurnýjun á bílaflotanum þyrfti að vera á bilinu tólf til fjórtán þúsund bílar ári. Og jafnvel meira núna vegna daprar sölu á undanförnum árum.“

Í fyrra nam salan um 7.900 bílum og verður hún líklegast á milli 7.200 og 7.300 bílar í ár.

Bílaflotinn alltof gamall

Özur segir hins vegar að Íslendingar hafi alltaf verið með gamlan bílaflota. „Við höfum alltaf verið með þeim elstu í Evrópu, kannski að undanskilinni Danmörku, sem við erum búnir að skáka. Bílar hafa líka alltaf verið hlutfallslega dýrir hér á landi vegna hárra vörugjalda, virðisaukaskatts og flutningskostnaðar til landsins. Verð á bílum hefur verið mjög hátt þannig að meðalaldurinn hefur haldist hár. En þó ekkert í samanburði við ástandið í dag.“

- Hver er æskilegur aldur bílaflotans?

„Í Evrópu er hann í kringum átta ár - heilt yfir. Þá erum við að tala um ansi fjölbreytta flóu. Það væri draumastaða að geta haldið okkur í þeirri tölu. Núna er meðalaldur fólksbíla rúmlega tólf ár sem er skelfilega mikið. Við erum að fara á mis við að fá öruggustu bílana á göturnar. Nýjustu gerðir af bílum, sem eru best búnir hvað varðar öryggi, eru ekki að koma hingað til lands. Við erum enn með bíla sem megna meira, eyða meira og eru dýrir í rekstri,“ segir Özur.

„Síðastliðin ár hefur það verið eitt helsta keppikefli bílaframleiðenda að framleiða bíla sem eyða minna, menga minna og eru öruggari. Það er það sem neytandinn vill og við erum að fara á mis við.“

Bílaleigur halda markaðinum uppi

Özur bendir einnig á að bílaleigurnar hafi tekið drjúgan skerf af öllum nýjum bílum sem hafa verið fluttir inn til landsins.

Í raun má segja að bílaleigurnar hafi haldið bílamarkaðinum uppi síðustu ár en í ár hefur sala á fólksbílum til bílaleiga numið um 40% af heildarsölunni. Hæst var hlutfallið árið 2010, eða 60%. Þann hægfara bata sem hefur átt sér stað frá árinu 2009, þegar aðeins um 2.200 bílar voru seldir, má því að miklu leyti rekja til bílaleiganna. Þess verður þó að geta að bílaleigubílarnir skila sér út á markaðinn síðar meir. Þá hafa forsvarsmenn bílaumboða bent á að mikilvægt sé að setja þessa sókn bílaleiga á markaðinn í samhengi við fjölgun ferðamanna.

Fyrirtækin halda einnig að sér höndum

Markaðurinn fyrir fyrirtækjabíla varð að engu í hruninu. Aukið líf hefur færst í hann undanfarin ár en enn er hann ekki svipur á sjón samanborið við hefðbundið árferði. „Það er sama sagan þar og með fólksbílana. Bílarnir eru gamlir og úr sér gengnir. Þörfin er orðin mjög brýn þannig að ég býst við því að salan komi til með að aukast á næsta ári. Það er ekkert annað í boði,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, að lokum.

Özur Lárusson er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Özur Lárusson er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK