Virkjanir og raforkusala sett „á ON“

Orka náttúrunnar á og rekur m.a. jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og …
Orka náttúrunnar á og rekur m.a. jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum. mbl.is/Rax

Nú um áramót tekur Orka náttúrunnar við rekstri virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og allri raforkusölu. Fyrirtækið er opinbert hlutafélag alfarið í eigu Orkuveitunnar og er sett á fót til að uppfylla ákvæði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnistarfsemi. Viðskiptavinir Orku náttúrunnar eru um 75.000 talsins og eru viðskiptin misjafnlega umfangsmikil, allt frá heimilum til álvers. Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar er Páll Erland.

Veituþjónustan – vatnsveita, hitaveita, fráveita og dreifing rafmagnsins – verður áfram rekin undir merki Orkuveitu Reykjavíkur. Við aðskilnaðinn þurfti að breyta lögum um Orkuveitu Reykjavíkur. Ný lög voru samþykkt á Alþingi 19. desember sl. og endurspegla þau líka breyttar áherslur eigenda fyrirtækisins, stjórnar og stjórnenda; að leggja höfuðáherslu á hið hefðbundna hlutverk veitnanna.

Í fréttatilkynningu segir að Orka náttúrunnar verði næststærsti raforkuframleiðandi á landinu og það sölufyrirtæki rafmagns sem hefur flesta viðskiptavini. Þær virkjanir sem Orka náttúrunnar á og rekur eru jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum og tvær vatnsaflsvirkjanir; Andakílsárvirkjun og Elliðaárstöð. Í jarðvarmavirkjununum er jafnframt framleiddur rúmlega helmingur þess hitaveituvatns, sem nýttur er á Höfuðborgarsvæðinu.

Páll Erland verður framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar er Páll Erland. Hann lauk MBA-prófi frá Rockford College Graduate School í Bandaríkjunum árið 1996.  Páll hefur unnið hjá Orkuveitunni frá árinu 2001. Hann var framkvæmdastjóri Veitusviðs í sjö ár áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri Virkjana og sölusviðs Orkuveitunnar, undanfara Orku náttúrunnar, í lok árs 2012.

Stjórn Orku náttúrunnar skipa; Ingvar Stefánsson fjármálastjóri Orkuveitunnar, sem er formaður, Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðingur og fyrrverandi Háskólarektor, Elín Smáradóttir lögfræðingur Orkuveitunnar, Ágúst Þorbjörnsson hagverkfræðingur og Hildigunnur H. Thorsteinsson framkvæmdastjóri Þróunar hjá Orkuveitunni.

Við skipan stjórnarinnar var litið til samvals þekkingar, að hlutfall kynja væri sem jafnast og þeirrar stefnu eigenda að fulltrúar óháðir Orkuveitunni sitji í stjórnum dótturfélaga fyrirtækisins.

Ekki aukinn kostnaður fyrir viðskiptavini

Kapp er lagt á að viðskiptavinir verði ekki fyrir óþægindum við uppskiptinguna og að ekki falli á þá aukinn kostnaður. Orkuveitan mun þannig senda út orkureikninga fyrir Orku náttúrunnar til þess að forðast aukinn innheimtukostnað. Viðskiptavinir þurfa ekki að senda inn sérstaka álestra vegna raforkunotkunar við aðilaskiptin.

Á Orku náttúrunnar hvílir sú skylda að framfylgja þeirri eigendastefnu, sem mótuð var einróma af Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð fyrir Orkuveituna og dótturfélög vorið 2012. Hún kveður á um að veita þjónustu á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði og að nýta auðlindir á ábyrgan, sjálfbæran og hagkvæman hátt og af virðingu fyrir náttúrunni án þess að ganga á rétt komandi kynslóða.

Ætlar að auglýsa eftir viðskiptavinum

Samkeppni á raforkumarkaði hefur aukist síðustu ár og Orka náttúrunnar mun hasla sér völl í þeirri keppni. Raforkukaupendur munu verða varir við auglýsingar og önnur merki um sókn fyrirtækisins á raforkumarkaði á næstunni. Heiti nýja fyrirtækisins er lýsing á því sem það framleiðir og selur. Skammstöfun þess – ON – á sér auðvitað skírskotun til rofans á þeim raftækjum, sem fólk notar til að létta sér hvunndaginn.

Felur í sér tækifæri

„Undirbúningur að uppskiptingu Orkuveitunnar hefur verið flókið og spennandi verkefni,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í fréttatilkynningu. „Krafan um uppskiptingu hefur verið umdeild. Nú er komið að henni og það er áríðandi að markmið hennar um aukna samkeppni skili almenningi ábata.

Það hefur tekist að snúa mörgu til betri vegar hjá Orkuveitunni á undanförnum misserum, ekki síst fjárhag fyrirtækisins. Með skýrri stefnu, sem mótuð hefur verið í samstarfi eigenda, stjórnar, stjórnenda og starfsfólks, göngum við öruggari til allra okkar verka, þar á meðal þeirra sem uppskiptingunni fylgja.

Orkuveitan er þess vegna ágætlega í stakk búin að skilja að sérleyfis- og samkeppnihluta starfseminnar. Í aðskilnaðinum felast líka tækifæri og okkar Orkuveitufólks – þó sérstaklega starfsfólks Orku náttúrunnar – bíður að grípa þau, viðskiptavinum til hagsbóta.“

Skammstöfun nýja fyrirtækisins er – ON – er skírskotun til …
Skammstöfun nýja fyrirtækisins er – ON – er skírskotun til rofans á þeim raftækjum, sem fólk notar til að létta sér hvunndaginn.
Páll Erland verður framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
Páll Erland verður framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK