Ameríkuflug WOW air í uppnám

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air segir Norður-Ameríkuflug WOW air í …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air segir Norður-Ameríkuflug WOW air í uppnámi vegna deilumála um brottfaratíma. mbl.is

Ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að fresta skuli ákvörðun um úthlutun brottfaratíma á Keflavíkurflugvelli setur fyrirhugað flug WOW air til Norður-Ameríku í uppnám. Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air segir að vegna ákvörðunarinnar verði félagið að endurskoða öll áform sín um flug vestur um haf, en WOW air ætlaði að hefja flug til Boston í vor.

Brottfaratímarnir mjög mikilvægir

Samkeppniseftirlitið úrskurðaði 1. nóvember á síðasta ári að Isavia, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, beri að úthluta brottfarartímum á Keflavíkurflugvelli til WOW air. Í tilkynningu frá WOW air kemur fram að þessir brottfarartímar séu nauðsynlegir til þess að WOW air geti hafið flug til Norður-Ameríku í samkeppni við Icelandair sem er í dag með einokunarstöðu á flugi til og frá Norður-Ameríku.

WOW air hafði óskað eftir fjórum brottfarartímum, tveimur að morgni og tveimur seinnipart dags fyrir tvo áfangastaði í Norður-Ameríku. Til samanburðar mun Icelandair fljúga til 11 áfangastaða í Norður-Ameríku frá og með næsta vori og þarf því yfir 150 komu- og brottfarartíma sem eru langflestir á svipuðum tíma og WOW air óskaði eftir. Hagstæðasta rekstarmódelið er að flytja farþega til Evrópu að morgni og seinni part dags til Bandaríkjanna. Þess vegna er það mikilvægt fyrir WOW air að fá ofangreinda komu- og brottfaratíma til þess að geta hafið flug til Norður-Ameríku.

Nauðsynleg fyrir nýtingu vélanna

Skúli segir tímasetningar brottfarartímanna skipta miklu máli upp á tengingar beggja, bæði í Evrópu og Ameríku. „Ef við fáum brottfarartíma til Bandaríkjanna seinna en kl. 17 nær vélin þegar hún kemur til baka með farþega ekki að tengja við Evrópubrottfarir morguninn eftir. Þetta hefur með nýtingu vélanna að gera og tengingu farþega frá Bandaríkjunum til Evrópu sem er forsenda fyrir því að halda uppi mikilli tíðni flugs allt árið um hring frá Íslandi,“ segir Skúli

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var sem fyrr segir tilkynnt í nóvember á síðasta ári. Isavia og Icelandair kærðu hins vegar þessa ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem tók þá ákvörðun fyrir helgi að fresta þessari úthlutun þar til endanlegur úrskurður nefndarinnar lægi fyrir í málinu. Ekki liggur hins vegar fyrir hvenær sá úrskurður mun liggja fyrir og er því allt fyrirhugað flug WOW air til Norður–Ameríku í uppnámi, að því er segir í tilkynningunni.

Kemur í veg fyrir eðlilega samkeppni

„Það er skandall að Isavia skuli kæra úrskurð Samkeppniseftirlitsins og þar með koma í veg fyrir eðlilega samkeppni og heilbrigðan vöxt ferðaþjónustunnar,“ segir Skúli og bætir við: „Með því er ríkisfyrirtækið Isavia að vernda hagsmuni og einokun Icelandair. Þetta er sérstaklega ámælisvert þar sem stækkun Icelandair árið 2014 byggist fyrst og fremst á flugi til Edmonton og Vancouver en samkvæmt  upplýsingum Icelandair áætla þeir að 80-90% af farþegunum þangað verði svokallaðir tengifarþegar, það er að segja farþegar sem koma ekki til Íslands og koma þar af leiðandi ekki með neinar tekjur inn í landið.  Isavia innheimtir ekki einu sinni full gjöld fyrir slíka tengifarþega Icelandair líkt og tíðkast á öllum flugvöllum í kringum okkur.“ 

Skúli segir að Isavia verði af einum milljarði á ári vegna þessa fyrirkomulags sem sé ekkert annað en niðurgreiðsla á starfsemi Icelandair á kostnað íslenskra skattgreiðenda. Hann segir að félagið muni áfram halda áfram uppbyggingu, sama hver niðurstaðan verði, en að það sé tilneytt til að endurskoða öll áform um áætlunarflug til Norður-Ameríku að svo stöddu.

Brottfarartími skiptir miklu máli upp á rekstrarmódel flugfélaga.
Brottfarartími skiptir miklu máli upp á rekstrarmódel flugfélaga.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK