Búa til nýtt slagorð fyrir Reykjavík

Einar Bárðarson forstöðumaður Höfuðborgarstofu.
Einar Bárðarson forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Rax / Ragnar Axelsson

Unnið er að nýju slagorði og vörumerki til kynningar á Reykjavík og nágrannasveitarfélögum fyrir ferðamenn og fjárfesta. Þetta segir Einar Bárðarson, forstöðumaður höfuðborgarstofu, en í morgun voru rannsóknaniðurstöður um vörumerkið Reykjavík, samkeppnishæfni borgarinnar og áhugasvið og ferðavenjur ferðamanna kynntar.

Einar segir að byggja eigi upp slagorð til næstu 10 ára, en hingað til hefur verið unnið með slagorðin „Reykjavík pure energy“ og „Reykjavík next door to nature“. Hann segir að það hafi sýnt sig að með því að einfalda kynningarefni, t.d. með að sleppa því að bæta alltaf höfuðborgarsvæðinu við þegar rætt er um Reykjavík (e. Reykjavík capital area), verði allt markaðsstarf skilvirkara og auki áhuga bæði ferðamanna og fjármagns.

Ferðamenn þekkja ekki Kópavog eða Hafnarfjörð

Á fundinum í morgun sagði Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og fulltrúi í stýrihóp um markaðssetningu höfuðborgarsvæðisins, að þrátt fyrir að bæjarfélög vilji auglýsa sig sérstaklega og nýta eigið nafn, þá væri hennar reynsla sú að enginn ferðamaður velti því fyrir sér hvenær hann kæmi inn í Hafnarfjörð eða Kópavog og hvar bæjarmörkin væru. Fyrir þeim væri þetta allt Reykjavík.

Einar segir margar borgir í Norður-Evrópu hafa tekist vel upp í þessum efnum. Þannig sé aðdáunarvert hvernig Amsterdam hafi tekist með „I Amsterdam“ herferðina. Þá hafi Kaupmannahöfn gert góða hluti kringum aldarmótin, en síðan þá flækt hlutina aftur. Það sé eitthvað sem notað verði sem lærdómur í þessari vinnu.

Meirihluti ferðamanna kemur í Reykjavík

Samkvæmt niðurstöðum um ferðavenjur ferðamanna hér á landi koma 95-97% ferðamanna við í Reykjavík. Einar segir að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eigi að nálgast þessa staðreynd með það fyrir augum að stækka kökuna og fá hluta af umferðinni til sín. Þannig ýti aukin þjónusta og framboð jafnan undir frekari uppbyggingu, án þess að stela bara viðskiptum yfir.

Meðal þeirra tækifæra sem Einar segir að séu ónýtt á höfuðborgarsvæðinu eru söfn og sundlaugar. Hann bendir á að fjölgun ferðamanna á þessum stöðum sé enn langt undir fjölgun ferðamanna sem koma til landsins og því megi á ódýran hátt bæta auka þjónustu við ferðamenn með litlum tilkostnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK