WOW hættir við flug til Boston og Stokkhólms

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir grátlegt að þurfa að …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir grátlegt að þurfa að fresta stækkunaráformunum til Boston og Stokkhólms. mbl.is

Flugfélagið WOW air hefur ákveðið að hætta við fyrirhugað flug til Norður-Ameríku þar sem félagið hefur ekki enn fengið úthlutaða nauðsynlega brottfarartíma í Keflavík. Þessi niðurstaða hefur ekki eingöngu áhrif á áætlunarflug til Norður-Ameríku heldur einnig fyrirhugaða stækkun félagsins í Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en það hefur reiknað út að fækkun ferðamanna sem þetta leiðir til muni kosta íslenska ferðaþjónustu um 5,5 milljarða á árinu.

Þar sem félagið sér sig knúið til þess að hætta við flug til Boston er ekki grundvöllur fyrir því að vera með fimm flugvélar í rekstri, segir í tilkynningunni. Fyrir vikið verður WOW air einnig að hætta við flug til Stokkhólms sem hefur verið til sölu frá miðjum september á síðasta ári og átti áætlunarflug að hefjast þangað 2. júní. Þessi niðurstaða mun hafa áhrif á um 7000 farþega sem nú þegar hafa keypt flug með WOW air. Flugfélagið segir að komið verði til móts við þessa farþega að öllu leyti, þeim boðin endurgreiðsla eða annað flug sem þeir geta nýtt sér.

Minni tekjur fyrir ferðaþjónustuna

Fram kemur að WOW air hafi fjárfest fyrir 150 milljónir í undirbúningi fyrir áætlunarflug til Norður-Ameríku, en miðað við 80% sætanýtingu var gert ráð fyrir um 34 þúsund erlendum farþegum frá borgunum báðum. Miðað við tölur frá Ferðamálastofu eyðir meðal ferðamaður um 158 þúsund krónum hér á landi og segir í tilkynningunni að samanlagt þýði það um 5,5 milljarðar í glataðar gjaldeyristekjur. Af því er 1,1 milljarður hreinar tekjur ríkissjóðs.

„Það er grátlegt að neyðast til þess að fresta öllum stækkunaráformum okkar þar sem Isavia hefur kosið að fara ekki eftir skýrum tilmælum Samkeppniseftirlitsins sem hefur unnið ötullega að málinu í lengri tíma og komist að mjög skýrri og sanngjarnri niðurstöðu. Það er einnig með ólíkindum að Áfrýjunarnefnd samkeppnismála skuli nota það sem afsökun fyrir því að fresta þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að það muni koma Icelandair illa ef þeir missa brottfarartíma núna fyrir sumarið. Ég hélt í einfeldni minni að tilgangurinn væri að vernda hagsmuni neytenda og stuðla að samkeppni í öllum greinum en ekki að viðhalda hér einokun. Það tapa allir á þessari niðurstöðu, neytendur, ríkið, Isavia og íslenska ferðaþjónustan í heild sinni,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air.

Forsaga málsins er að Samkeppniseftirlitið úrskurðaði hinn 1. nóvember á síðasta ári að Isavia, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, bæri að úthluta brottfarartímum á Keflavíkurflugvelli til WOW air. Félagið hefur sagt brottfarartímana nauðsynlega til að geta hafið flug til Norður-Ameríku í samkeppni við Icelandair. Isavia og Icelandair kærðu hins vegar þessa ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem tók þá ákvörðun 23. janúar að fresta þessari úthlutun þar til að endanlegur úrskurður nefndarinnar lægi fyrir í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK