„Ég tók þessa ákvörðun“

Seðlabankinn við Arnarhól.
Seðlabankinn við Arnarhól. Ernir Eyjólfsson

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og formaður bankaráðs Seðlabankans 2009-2013, segist hafa tekið ákvörðun um að bankinn skyldi greiða málskostnað Más Guðmundssonar seðlabankastjóra vegna málareksturs hans gegn bankanum.

Lára sendi frá sér yfirlýsingu á sjötta tímanum í kvöld þar sem sagði m.a.:

„Það var ekki síður hagsmunamál Seðlabankans sjálfs að fá úr þessu skorið en þess einstaklings sem á hverjum tíma gegnir embætti seðlabankastjóra. Í ljósi þessa var sú ákvörðun tekin að bankinn stæði straum af öllum kostnaði vegna málsins.“

Mbl.is ræddi við Láru í kjölfar yfirlýsingarinnar og sagðist hún þá aðspurð hafa tekið ákvörðunina. Það væri hins vegar erfitt að tímasetja þá ákvörðun.

„Ég tók þessa ákvörðun.“

- Manstu hvenær?

„Ég tók hana ekki á einhverju einu augnabliki. Hún varð til og þetta leiddi hvað af öðru. Þetta var ákvörðun að vel ígrunduðu ráði á nokkrum tíma. Þetta var þannig mál að það er erfitt svona eftir á að vera að setja hlutina nákvæmlega í einhverja tímaröð. Þess vegna set ég þetta fram með þessum hætti.“

- Ragnar Árnason prófessor segir í samtali við Morgunblaðið í dag að umrædd ákvörðun hafi ekki verið borin undir bankaráð. Er það rétt?

„Þetta dómsmál var kynnt fyrir bankaráði frá einu stigi til annars,“ sagði Lára sem kvaðst að öðru leyti ekki vilja tjá sig um málið.

Í yfirlýsingu Láru segir svo um þetta atriði:

„Bankaráðið var á hverjum tíma upplýst um stöðu þessa dómsmáls og hafði öll tök á að fylgjast með málinu, en ég sem formaður ráðsins hafði meginumsjón með rekstri málsins fyrir hönd bankans og átti í samskiptum við þá sem önnuðust málareksturinn eftir þörfum.“

Lára V. Júlíusdóttir.
Lára V. Júlíusdóttir. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK