Ekki síður hagsmunir Seðlabankans

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Rósa Braga

Seðlabanki Íslands stóð straum af öllum kostnaði vegna málaferla Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Kjararáði. Þetta staðfestir Lára V. Júlíusdóttir, fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, í yfirlýsingu. Hún segir að það hafi ekki síður verið hagsmunamál Seðlabankans að fá úr málinu skorið. 

Lára sendi frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Morgunblaðsins í dag um kostnað Seðlabanka Íslands vegna málskostnaðar Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

Morgunblaðið hefur ítrekað óskað eftir viðtali við Má í dag en án árangurs. Fengust þær upplýsingar frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, upplýsingafulltrúa Seðlabankans, að Már hefði ekki tök á því að tjá sig um málið að sinni. Annirnar væru enda miklar.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að Seðlabankinn hefði greitt allan málskostnað Más vegna dómsmála hans gegn bankanum. Var tilefni dómsmálanna það að Már taldi að kjararáði hefði ekki verið heimilt að skerða laun hans og starfskjör eftir skipun hans í embætti.

Már tapaði málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og staðfesti Hæstiréttur þann dóm með viðbótarskýringum.

Bankaráð bað um álitsgerð

Lára var formaður bankaráðs Seðlabankans frá 2009 til 2013 eða á þeim tíma sem málareksturinn stóð yfir.

Yfirlýsing hennar er svohljóðandi.

„Vísað er til fréttaflutnings í Morgunblaðinu í morgun þess efnis að Seðlabanki Íslands hafi greitt málskostnað Más Guðmundsonar í máli sem hann rak fyrir dómstólum til að fá úr því skorið hvort hægt væri að skerða laun og starfskjör á skipunartíma hans með þeim hætti sem gert var með úrskurði kjararáðs frá árinu 2010.

Ég var formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands á þessum tíma. Bankaráðið hafði beðið Andra Árnason hrl. um lögfræðilega álitsgerð um réttarstöðu seðlabankastjóra þar sem hann var meðal annars spurður hvort hægt væri að lækka laun seðlabankastjóra á skipunartíma og frá hvaða tímapunkti ætti að greiða seðlabankastjóra laun samkvæmt ákvörðun kjararáðs. Niðurstaða lögfræðiálitsins var sú að ekki væri hægt að breyta launum seðlabankastjóra á skipunartíma og því kæmi úrskurður kjararáðs ekki til framkvæmda fyrr en að honum liðnum.  Tilraunir Más Guðmundssonar til að fá kjararáð til að staðfesta niðurstöðu álitsins reyndust árangurslausar. Eina leiðin til að fá úr þessu skorið var fyrir dómstólum. Það var ekki síður hagsmunamál Seðlabankans  sjálfs að fá úr þessu skorið en þess einstaklings sem á hverjum tíma gegnir embætti seðlabankastjóra. Í ljósi þessa var sú ákvörðun tekin að bankinn stæði straum af öllum kostnaði vegna málsins.

Bankaráðið var á hverjum tíma upplýst um stöðu þessa dómsmáls og hafði öll tök á að fylgjast með málinu, en ég sem formaður ráðsins hafði meginumsjón með rekstri málsins fyrir hönd bankans og átti í samskiptum við þá sem önnuðust málareksturinn eftir þörfum.“ 

Kostnaðurinn á fimmtu milljón

Fram í fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, til fjármálaráðherra að kostnaður vegna dómsmálsins næmi samtals 4.060.825 kr. samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands. 

Barst svarið 31. janúar í fyrra eða áður en Hæstiréttur felldi dóm sinn.

Má því ætla að heildarkostnaðurinn sé umtalsvert hærri.

Frétt mbl.is: Seðlabankinn greiddi málskostnað Más

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK