Tæknin skapar nýja möguleika

Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu.
Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu. mbl.is/Eva Björk

Undanfarin tíu ár hefur aðsóknin að kvikmyndahúsum verið nokkuð jöfn, eða á bilinu 1,4 til 1,5 milljón seldir miðar á ári,“ segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu, í samtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins. „Aðsóknin sveiflast aðeins um nokkur prósent til eða frá milli ára og ræðst það aðallega af því hvernig framboðið er af íslenskum kvikmyndum. Þannig sáum við aðsóknina dragast ögn saman á milli áranna 2012 og 2013 en þá verður að muna að 2012 var mjög gott ár í íslenskri kvikmyndagerð með myndum á borð við Djúpið og Svartur á leik.“

Sena á og rekur Smárabíó, Borgarbíó á Akureyri og Háskólabíó og dreifir m.a. myndum frá 20th Century Fox, Sony Pictures, The Weinstein Company og Nordisk Film ofl.

Ekki það fyrsta sem fólk sparar

Athygli vekur að niðursveiflan í efnahagslífinu skyldi ekki hafa meiri áhrif á bíóaðsókn. Björn bendir á að í samanburði við aðra kosti sé ferð í kvikmyndahús ódýr afþreying. „Fólk byrjar frekar á að skera niður stærri og dýrari kostnaðarliði áður en það hættir að láta eftir sér þann hversdagslega lúxus að sjá góða kvikmynd á hvíta tjaldinu,“ segir hann. „Það hefur ugglaust líka hjálpað okkur að íslensku kvikmyndahúsin hafa verið mjög fljót að tileinka sér tækninýjungar og t.d. gerðist það á mjög skömmum tíma að öll kvikmyndahúsin tóku í notkun stafrænar sýningarvélar.“

Allt helst þetta svo í hendur: getan til að fjárfesta í nýjustu tækni og áhugi Íslendinga á kvikmyndum. „Íslendingar standa enn mjög framarlega í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að aðsókn á kvikmyndir og fer meðal-Íslendingurinn í bíó þetta fimm sinnum á ári. Þessi góða aðsókn skapar mjög viðunandi rekstrarforsendur fyrir kvikmyndahúsin.“

Tækninýjungarnar hafa síðan skapað nýja möguleika við markaðssetningu og sýningar. Þannig hafa þrívíddarmyndir gert kvikmyndahúsin enn meira spennandi í huga ákveðins hóps bíógesta og eins hefur verið hægt að bjóða upp á beinar útsendingar frá óperusýningum, tónleikum og íþróttaviðburðum. „Sýningar af því tagi eru á ensku kallaðar „alternative content“, enda ekki um hefðbundna kvikmyndasýningu að ræða. Þessar sýningar laða að töluverðan fjölda fólks og ákveðin kreðsa sem t.d. vill ekki missa af flottri uppfærslu hjá fremstu óperuhúsum heims eða viðburði á borð við bardaga Gunnars Níelssonar, sem sýndur verður í beinni í Smárabíóí í byrjun mars.“

Eins og að vera á vellinum

Beinar útsendingar í háskerpu segir Björn að séu til þess fallnar að upplifunin í kvikmyndasalnum verður nánast eins og að vera á staðnum. „Það gengur ekki lítið á á stórleikjum eins og í meistaradeildinni, sérstaklega þegar ensku liðin spila. Þá mæta stuðningsmenn liðanna í fullum skrúða og blása út eins og þeir væru komnir á sjálfan leikvanginn.“

Óskarsverðlaunaathöfnin fór fram um helgina og margir voru spenntir að sjá hvaða leikarar og kvikmyndir myndu hreppa verðlaunin að þessu sinni. Björn segir Óskarsverðlaunin stundum hafa þau áhrif að auka aðsókn að myndum. „Það veltur mjög á því hvar í sýningarferlinu myndirnar eru þegar verðlaunin eru afhent eða tilnefningar tilkynntar. Ef sýningar eru nýlega hafnar getur komið góður kippur í aðsókn, en ef langt er síðan sýningum lauk er ekki von á að tilnefning verði til þess að gestir fjölmenni á sýningar. Til dæmis er kvikmyndin Gravity, sem tilnefnd var í ár, líklega við það að detta inn á VOD- og myndbandaleigurnar og þeir sem vilja sjá myndina þá líklegri til að leigja hana frekar en leggja leið sína í bíó.“

Kvikmyndahúsin fylgjast vandlega með tilnefningunum og svo með athöfninnni sjálfri. „Við getum þá gert ráðstafanir og hafið aftur sýningar eða fjölgað sýningum. Það hefur vissulega áhrif á áhuga sumra kvikmyndagesta á myndunum hvort þær hafa verið tilnefndar og margir sem vilja alls ekki sleppa því að sjá bestu mynd ársins og bestu leikarana.“

Tapa á niðurhalinu

Kvikmyndahúsin og kvikmyndaverin hafa miklar áhyggjur af niðurhali mynda af netinu og vinsældum skráadeilisíða. Björn segir ekki fara milli mála að píratasíður kosti kvikmyndageirann stórar fjárhæðir. „Við sáum þetta t.d. mjög skýrt á mynd Tarantinos, Django Unchained. Áður en við gátum byrjað sýningar á myndinni vissum við af því að verið var að halda Django-partí á heimilum hér og þar um bæinn þar sem fólk kom saman til að horfa á myndina,“ segir Björn. „Miðað við aðsóknartölur á síðustu mynd Tarantinos má áætla að með þessu hafi Django orðið af um 10.000 kvikmyndahúsagestum.“

Björn kvartar yfir aðgerðaleysi lögreglu í þessum málum og segir yfirvöld hér á landi mega líta til nágrannaþjóða okkar þar sem tekið hafi verið fastari tökum á skráadeilingum. „Píratarnir geta stundum gerst ótrúlega kræfir. Til dæmis var franska myndin Intouchables komin á vinsælan íslenskan skráadeilingavef skömmu eftir að sýningar hófust í kvikmyndahúsum, og var myndinni deilt með íslenskum texta. Þeir sem stálu myndinni höfðu sem sagt haft fyrir því að þýða alla myndina af frönsku yfir á íslensku.“

Markar Timberlake endalok kreppunnar?

Sena stendur að baki tónleikum bandarísku poppstjörnunnar Justins Timberlakes seint í ágúst. Tónleikarnir þykja merkilegir fyrir margra hluta sakir, og sumir hafa viljað líta svo á að þeir séu til marks um að kreppan sé að baki.

Lesendur muna hversu fjölbreytt framboðið var á alþjóðlegum tónlistarstjörnum á árunum fyrir hrun, og var á tímabili úr svo mörgum heimsfrægum listamönnum að velja að sumum þótti nóg um. Þá kom efnahagshrunið og stórstjörnurnar hættu að koma. Smám saman tók erlenda tónlistarfólkinu að skola til landsins á ný, en það er núna fyrst að sannkallaður A-lista-söngvari á hátindi frægðar sinnar gerir lykkju á leið sína til að halda tónleika á Íslandi.

„Ég held það hafi hreinlega ekki gerst í tugi ára að listamaður sem er jafn heitur og eftirsóttur komi til Íslands. Viðbrögðin hafa verið frábær og mikið áreiti á Senu eftir að tilkynnt var um tónleikana. Ef allt gengur farsællega í kringum þennan viðburð segir það okkur að myndast hefur ákveðið svigrúm á markaðnum til að taka fleiri skref í sömu átt.“

Björn segir liklegt að margir samverkandi þættir skýri af hverju hægt var að fá Timberlake til að staldra við á Íslandi. Jákvætt umtal um Ísland vegur sjálfsagt þungt og sú athygli sem Íslend hefur fengið í Hollywood og víðar. „Stærst vegur þó að hér á landi er Sena búin að byggja upp þekkingu og ferla til að takast á við stór verkefni sem þetta. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við sömu umboðsmenn og við unnum með þegar Eagles komu til landsins. Þessir aðilar vita að það hefur ekki hver sem er burði til að leggja út þær upphæðir sem um er að ræða þarna og þeir vita líka að hér eru fagmenn sem hafa burðina til að gera svona risatónleika að veruleika.“

Justin Timberlake.
Justin Timberlake. Kevin Mazur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK