Opna stórt hvalasafn á Granda í sumar

Á safninu verður hægt að skoða líkön í fullri stærð …
Á safninu verður hægt að skoða líkön í fullri stærð af öllum 23 hvalategundum sem lifa í kringum strendur Íslands. Heimir Harðarson

Í sumar mun stærsta hvalasetur Evrópu opna úti á Granda í Reykjavík, en það er athafnamaðurinn og frumkvöðullinn Hörður Bendur, ásamt fjárfestingasjóðnum Landsbréf-Icelandic touristic fund (ITF), sem standa á bakvið verkefnið. Í samtali við mbl.is segir Hörður að líkön af 23 hvölum í fullri stærð verði á safninu, en áhersla verður lögð á líffræði og atferli hvala.

Líkön og beinagrindur á 1.700 fermetrum

Allir hvalirnir 23 sem verða til sýnis á safninu eiga það sammerkt að lifa við strendur Íslands, en til viðbótar við líkönin verða einnig beinagrindur af nokkrum hvölum á safninu. Gólfflötur safnsins verður um 1.700 fermetrar og verða gagnvirkar stöðvar víða til þess að setja upplýsingar um hvalina fram á myndrænan og skemmtilegan hátt.

Hörður segir að hann hafi fylgst með því undanfarin ár hvernig uppgangur ferðaþjónustunnar hafi verið og hann hafi talið það eðlilegt að ráðast í þessa uppbyggingu þegar þegar horft er til þess mikla áhuga á hvölum sem endurspeglast í vinsældum hvalaskoðunar. Segir hann að í dag fari stór hluti erlendra ferðamanna í slíka skoðun og því sé safnið ákjósanleg viðbót fyrir þá sem vilja ennþá meiri upplýsingar og læra meira um hvalina.  Hann segir að stefnan sé á samstarf við öll hvalaskoðunarfyrirtækin, en enn á eftir að útfæra það nánar.

Ferlið hefur verið nokkuð hratt, en í haust hófst vinna við uppbygginguna, meðal annars að byggja upp líkönin og hanna gagnvirkar stöðvar og grafík. Hann segir að unnið sé með helstu sérfræðingum Íslands í sjávarlíffræði og að sama sýningarteymið og kom að Fákaseli sjái um ljós og framsetningu í hvalasafninu.

Hafa komið að fleiri ferðaþjónustuverkefnum

ITF er sjóður í eigu Icelandair Group, Landsbankans og nokkurra lífeyrissjóða, en á stefnuskrá sjóðsins er að fjárfesta í uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu og fjölga þeim afþreyingarkostum sem ferðamönnum standa til boða.  Sjóðurinn hefur meðal annars fjárfest í hestagarðinum Fákaseli á Ingólfshvoli í Ölfusi og ísgöngum á Langjökli sem fyrirhugað er að opna á næsta ári.

Hörður hefur áður verið viðloðandi ferðaþjónustuna, en hann vann í nokkur ár hjá Flugleiðum og seinna stofnaði hann stærstu netferðaskrifstofu Norðurlandanna, MrJet. Þá er hann meðstofnandi að Fákaseli og situr í stjórn WOW air og rekur smálánafyrirtækið Folkia sem er með höfuðstöðvar í Noregi en bankaleyfi í fimm löndum. Áður var hann framkvæmdastjóri dagblaðsins Metro og starfaði sem forstjóri Schibsted Telecom.

Hörður Bender er stofnandi og eigandi hvalasafnsins ásamt ITF sjóðsins.
Hörður Bender er stofnandi og eigandi hvalasafnsins ásamt ITF sjóðsins.
Safnið mun opna fyrripart sumars, en unnið hefur verið að …
Safnið mun opna fyrripart sumars, en unnið hefur verið að uppsetningu frá því í haust. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK