Byrjað að útdeila auroracoin

Hugmyndin á bakvið auroracoin er að allir Íslendingar fái gefins …
Hugmyndin á bakvið auroracoin er að allir Íslendingar fái gefins 31,8 einingar í gjaldmiðlinum, en í heild nemur það 50% af heildarmagni myntarinnar.

Byrjað er að dreifa rafmiðlinum auroracoin, en hver og einn Íslendingur getur fengið úthlutaðar 31,8 einingar af myntinni án þess að greiða fyrir. Miðað við markaðsvirði myntarinnar á rafmiðlakauphöllum þessa stundina er virði eininganna sem úthlutað er um 45 þúsund krónur. Miðillinn, sem er í dag orðinn fjórði verðmætasti rafmiðillinn í heiminum, hefur vakið mikla athygli utan landsteinanna, en þetta er í fyrsta skipti sem gerð er tilraun á þessum skala með að dreifa hluta rafmyntarinnar ókeypis til stórs hluta einnar þjóðar. 

Á miðnætti hófst dreifingin, en það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Nokkrum mínútum eftir að dreifingin hófst hrundi vefsíða myntarinnar. Eftir um klukkustund var þó hægt að komast inn á undirsíðu þar sem útdeilingin fer fram, en svartími vefsins er þó enn mjög hægur. Þá hafa margir notendur gagnrýnt dreifingarleiðina, en notast er við símanúmer og facebookaðgang til að auðkenna hvern og einn. Margir hafa lent í því að ekki hefur gengið að auðkenna sig og því hefur þeim ekki tekist að sækja þær einingar sem lagt var upp með að afhenda.

Eins og mbl.is hefur greint frá er rafmynt ekki venjulegur gjaldmiðill, því enginn seðlabanki eða miðstýrður aðili getur aukið magn myntarinnar í umferð. Það leiðir til þess að ekki verður verðbólga í kerfinu. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa aftur á móti varað við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum og varðveislu á rafmiðlum, sem í tilkynningu var kallað sýndarfé. Segir þar að verðgildi og óhindrað aðgengi að sýndarfé sé alls ótryggt frá einum tíma til annars og að notkuninni fylgi mikil áhætta. 

Seinna í tilkynningu bankans kemur svo fram að viðskipti með sýndarfé geti heyrt undir fjármagnshöftin: „Það er mat Seðlabankans að ekki sé til staðar heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri af fjármálafyrirtæki hér á landi eða til flutnings erlends gjaldeyris á milli landa, á grundvelli viðskipta með sýndarfé. Þegar af þeirri ástæðu eru viðskipti með sýndarfé takmörkunum háð á Íslandi,“ segir í tilkynningunni. Það vekur þó spurningar þegar Seðlabankinn segir að auroracoin sé ekki viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga. Í tilkynningu frá forsvarsmanni myntarinnar kemur fram að um sé að ræða tækifæri til að nota gjaldmiðil sem sé frjáls frá gjaldeyrishöftum. Enn á eftir að koma í ljós hvort Seðlabankinn lætur þetta verkefni vera eða skoðar möguleg brot á fjármagnshöftum. 

Ekki er vitað hver stendur á bak við verkefnið, en Baldur Friggjar Óðinsson er skráður fyrir fréttatilkynningum um myntina. Enginn með því nafni er skráður í þjóðskrá, en þarna er sjálfsagt verið að vitna til norrænu ásatrúarinnar. Þá er heimasíða myntarinnar skráð í Panama, en erfitt getur verið að rekja hver raunverulegur eigandi er af síðum sem eru skráðar þar.

Frétt mbl.is: Gefa Íslendingum nýja rafmynt

Frétt mbl.is: Rúmlega 3 milljarðar fyrir auroracoin

Frétt mbl.is: Segir sýndarmiðla vera afkimastarfsemi

Frétt mbl.is: Vara við notkun sýndarfjár

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK