Eignarhaldið á HB Granda skiptir ekki máli

High Liner segist hafa upplýsingar um að HB Grandi hafi …
High Liner segist hafa upplýsingar um að HB Grandi hafi nýtt vinnsluhúsnæði sitt til að vinna hvalaafurðir. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Eignarhald á HB Granda hafði ekki áhrif á ákvörðun High Liner Foods um að hætta viðskiptum við fyrirtækið, heldur segist High Liner hafa upplýsingar um að HB Grandi hafi notað vinnsluhúsnæði sitt til vinnslu á hvalafurðum. Segir fyrirtækið það vera andstætt stefnu sinni að eiga viðskipti við fyrirtæki sem stundi hvalveiðar eða vinnslu á hvalafurðum. Þetta kemur fram í svari fyrirtækisins við spurningum mbl.is, en þar er jafnframt greint frá því að vonast sé til þess að HB Grandi verði aftur í hópi viðskiptavina High Liner um leið og aðstæður breytist.

High Liner er með afnotarétt á vörumerkinu Icelandi Seafood í Norður-Ameríku og í svarinu segir að það sé í þágu þess að vernda vörumerkið sem ákvörðunin um að hætta viðskiptum við HB Granda hafi verið tekin. Segir þar að ákvöðunin hafi því verið viðleitni um að standa vörð um hagsmuni íslensks sjávarútvegs en ekki atlaga gegn honum. Fyrirtækið ætlar áfram að kaupa vörur frá öðrum íslenskum framleiðendum, en High Liner kaupir frá 15 fyrirtækjum hér á landi.

Svarið má í heild sinni lesa hér að neðan, en það er sent á íslensku frá High Liner Foods.

„Í tilefni fréttaflutnings um þá ákvörðun High Liner Foods, Inc. að hætta viðskiptum við HB Granda hf. þar til fyrirtækið hefur látið af tengslum sínum við vinnslu á hvalafurðum vill High Liner Foods koma eftirgreindu á framfæri:

Fyrir High Liner Foods er markaðssetning og aukning á sölu á íslenskum fiskafurðum í Norður-Ameríku undir vörumerkinu Icelandic Seafood mikilvægur þáttur í starfseminni. Það er í þágu þess verkefnis og almennra hagsmuna íslenskra fiskframleiðenda sem leitast er við að vernda orðspor vörumerkisins og hagsmuni þeirra viðskiptavina High Liner Foods sem kaupa íslenska vöru. Ákvörðunin um viðskiptin við HB Granda er nátengd þeirri viðleitni og því varðstaða um hagsmuni íslensks sjávarútvegs en ekki atlaga að honum. Engin breyting er fyrirhuguð á kaupum High Liner Foods frá öðrum íslenskum framleiðendum sem eru um fimmtán talsins og vonast er til þess að HB Grandi verði í þeirra hópi á nýjan leik um leið og aðstæður til þess hafa skapast.

Þessi ákvörðun tengist engan veginn eignarhaldi í HB Granda hf eins og haldið hefur verið fram. Hið rétta er að High Liner Foods, eins og fjöldi viðskiptavina High Liner Foods í Norður-Ameríku, fékk nýlega upplýsingar um að vinnsluhúsnæði HB Granda hefði verið notað til vinnslu á hvalafurðum. High Liner Foods styður ekki hvalveiðar í atvinnuskyni og það er andstætt stefnu fyrirtækisins að eiga viðskipti við fyrirtæki sem stunda hvalveiðar og/eða vinnslu og sölu á hvalafurðum. High Liner Foods er skráð fyrirtæki á opnum hlutabréfamarkaði og hefur skyldum að gegna gagnvart eigendum sínum og viðskiptavinum. Á meðal þeirra er að framfylgja samþykktri umhverfisstefnu félagsins og vinnureglum um birgja félagsins. Afstaða High Liner Foods gagnvart tengslum birgja sinna við hvalveiðar er óháð því hvar þeir eru staðsettir í heiminum og á engan hátt sértæk fyrir Ísland.“

Skeggjaði skipstjórinn er auðkenni High Liner Foods en fyrirtækið selur …
Skeggjaði skipstjórinn er auðkenni High Liner Foods en fyrirtækið selur framleiðslu sína undir nokkrum vörumerkjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK