Nefnd um heildarendurskoðun Seðlabankans

Bjarni Benediktsson á fundinum í dag.
Bjarni Benediktsson á fundinum í dag. mbl.is/Golli

Skipuð verður nefnd um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands og mun hún  gaumgæfa þróun á starfsemi annarra seðlabanka og löggjöf á sviði peningamála og efnahagsstjórnunar. Markmið nefndarinnar er að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og traust á íslenskum efnahagsmálum. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag.

„Með hliðsjón af því umróti sem orðið hefur á fjármálamörkuðum á undanförnum árum skal nefndin einnig skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans,“ sagði Bjarni.

Vor í lofti

Í ræðu sinni sagði Bjarni að þrátt fyrir að enn væri verið að glíma við afleiðingar efnahagsáfallsins væri orðið tímabært að Íslendingar færu að búa sig undir að vinna á móti þenslu til að tryggja varanlegan stöðugleika. „Þetta er ánægjulegt verkefni, sem grundvallast á þeirri staðreynd að hér var 3,3% hagvöxtur á síðasta ári og að seðlabankinn spáir að meðaltali 3,1% hagvexti næstu þrjú árin. Vinnumarkaðurinn er að jafna sig og samkvæmt nýjustu tölum var atvinnuleysi í febrúar rétt um 4%,“ sagði Bjarni og talaði um að nú væri vor í lofti í íslensku efnahagslífi.

Bjarni sagði að þrátt fyrir að það væri að birta til þyrfti að hafa í huga að íslenska vorið gæti verið hverfult. Sagði hann að fjármagnshöftin væru þar helsti skugginn og að þau væru eitt helsta málefni ríkisstjórnarinnar. Kom hann inn á að rétt væri að hafa í huga að slitabú bankanna hefðu nú starfað í meira en fimm ár, en erlendis væru dæmi um að slíkum búum væri veittur 3 ára frestur til að ljúka slitum með mögulegri lengingu upp í fimm ár. „Ef kröfuhafarnir ná ekki að ljúka nauðasamningum er ekki annað að gera en að fara með búin í gjaldþrot,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK