Keðjusagir til sölu fyrir aura

Fyrirbærið auroracoin, sem hefur verið kallað rafrænn gjaldmiðill, rafmynt eða sýndarfé í daglegu tali, hefur verið á flestra vörum undanfarna daga. Þúsundir Íslendinga hafa sótt sér sína „aura“ og hafa margir nú þegar komið þeim í verð, ef svo má að orði komast. Boðið er meðal annars upp á síma, húsgögn, keðjusagir, geisladiska og veðurmæla í skiptum fyrir auroracoin.

Erlendir fjölmiðlar fylgjast grannt með gangi mála og segja margir þeirra að sannkölluð „rafmyntarbylting“ eigi sér stað hér á landi. Seðlabanki Íslands hefur málið einnig til skoðunar en það hefur verið mat bankans að notkun, eða eftir atvikum viðskipti, með sýndarfé hafi ekki áhrif á fjármálastöðugleika.

Á sjöunda tímanum í dag höfðu tæplega sautján þúsund Íslendingar, eða fimm prósent þjóðarinnar, sótt sér sína aura á heimasíðu myntarinnar. Nauðsynlegt er að auðkenna sig með annað hvort símanúmeri eða Facebook-aðgangi til að taka þátt.

Á sér ekkert fordæmi

Byrjað var að dreifa auroracoin til Íslendinga á miðnætti aðfaranótt þriðjudags. Hver og einn Íslendingar getur nú fengið 31,8 einingar, eða aura, endurgjaldslaust. Á sjöunda tímanum í dag samsvaraði það um 24 þúsundum króna miðað við markaðsvirði myntarinnar.

Á þessi útdeiling sér engin fordæmi, hvorki hérlendis né erlendis, sem er ein helsta ástæðan fyrir því að málið hefur vakið heilmikla athygli í fjölmiðlum erlendis.

Ekki er vitað hver stendur á bak við verkefnið, en huldumaðurinn notast við dulnefnið Baldur Friggjar Óðinsson, sem vísar til norrænu ásatrúarinnar.

Hann hefur sagt að auroracoin sé tilraun til þess að gefa Íslendingum tækifæri til að eiga í viðskiptum með gjaldmiðil sem lýtur ekki valdi stjórnmálamanna, bankakerfisins eða Seðlabankans. Hann segir að þessir aðilar hafi misnotað vald sitt og að þeim hafi í raun tekist að eyðileggja þann gjaldmiðil sem þeir neyða Íslendinga til að nota.

Taki völdin af stjórnmálamönnunum

Baldur telur að með því að nota auroracoin í meira mæli geti það gert stjórnmálamönnum erfiðara um vik að reka hér samfélag hafta, boða og banna. Sýndargjaldmiðlar, eins og auroracoin og bitcoin, lúti ekki stjórn neins, hvorki ríkis né stjórnmálamanna, og séu í raun alþjóðlegir gjaldmiðlar - öfugt við krónuna.

Eins og áður sagði var byrjað að dreifa rafmiðlinum í byrjun vikunnar. Talið er að íslenska hljómsveitin 1860 hafi verið sú fyrsta til að taka við honum sem greiðslu fyrir geisladiskana sína. Á þriðjudaginn tilkynnti hljómsveitin á fésbókarsíðu sinni að plöturnar Sagan og Artificial Daylight væru til sölu.

Það væri vart í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að almenningi býðst að kaupa þær fyrir tvær einingar (AUR) hvora. Ef báðar plöturnar eru keyptar fær fólk meira að segja veglegan bol merktan hljómsveitinni í kaupbæti.

Keðjusagir fyrir aura

Fleiri Íslendingar hafa riðið á vaðið og notað aurana sína sem gjaldmiðil í viðskiptum. Sprottið hafa upp nokkrar síður á fésbókinni, þar sem vörur og þjónusta ganga kaupum og sölum í skiptum fyrir aura. Þá býðst fólki jafnframt að kaupa og selja aura fyrir krónur og aðra hluti af margvíslegu tagi á vefsíðunni bland.is.

Boðið er meðal annars upp á svefnsófa, síma, fartölvur, veðurmæla, bíla, keðjusagir og svo mætti telja áfram. Íslendingum býðst til dæmis að kaupa geislaplötu tónlistarmannsins Emmsjé Gauta, Þeyr, á um 3,6 einingar.

Einn býður til að mynda flugferð fyrir tvo með Wow Air til Kaupmannahafnar, aðra leiðina þó, í skiptum fyrir 31,8 aura.

Græddi fúlgur fjár

En í þeim tilvikum þar sem aurar eru keyptir og seldir í skiptum fyrir krónur hafa viðskiptin átt sér stað langt undir markaðsvirði auranna gagnvart til dæmis bitcoin. Athuganir mbl.is leiða í ljós að boðið hefur verið í allt frá 500 krónum og upp í 20 þúsund krónur fyrir 31,8 einingar. Það er töluvert undir markaðsvirði eininganna.

Nokkrir viðmælendur mbl.is skiptu aurunum sínum tiltölulega fljótt í „stöðugri“ gjaldmiðil, eins og bitcoin, bitcoin svo í Bandaríkjadollara, jafnvel á PayPal reikningi, og dollurum loks í krónur.

„Ég náði í aura fyrir fjölmarga ættingja og vini og græddi nokkur hundruð þúsund krónur á einum degi,“ nefnir einn og bætir við: „Þetta var tiltölulega auðvelt.“

Sveiflurnar miklar og öfgakenndar

Miklar sveiflur hafa verið á verði auroracoin frá því að útdeilingin hófst í byrjun vikunnar. Seðlabanki Íslands hefur meðal annars ítrekað að „notkun sýndarfjár [geti] fylgt mikil áhætta enda sýnir reynslan undanfarin misseri að virði sýndarfjár í viðurkenndum gjaldmiðlum hefur sveiflast mikið frá einum tíma til annars“.

Sem dæmi var virði eininganna sem hver og einn Íslendingur fær úthlutað um 45 þúsund krónur til að byrja með, en nú hefur það lækkað umtalsvert, eins og rakið var hér að ofan. Á þriðjudaginn kostaði ein eining um tólf Bandaríkjadali, verðið hríðlækkaði síðan í fimm dali í gær, fór hins vegar upp í tíu dali í dag áður en það fór að lækka á nýjan leik. Nú stendur það í rúmlega sjö Bandaríkjadölum, eða um 800 krónum.

Þó má benda á að miklar sveiflur hafa einnig verið á gengi krónunnar þegar litið er til sögu hennar sem gjaldmiðils. Verðgildi krónunnar hefur til að mynda rýrnað um 99,95% gagnvart þeirri dönsku á undanförnum níutíu árum.

Fylgjast grannt með stöðu mála

Eins og áður sagði fylgjast stjórnvöld grannt með þróuninni og hefur Seðlabankinn til dæmis haft málið til skoðunar. Hann, ásamt Fjármálaeftirlitinu, Neytendastofu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu, hefur varað almenning við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum eða viðskiptum með sýndarfé.

Seðlabankinn hefur einnig skoðað það hvort kaup og sala sýndarfjár brjóti í bága við gjaldeyrishöftin. Annars vegar er það mat bankans að ekki sé heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri til þess eins að kaupa sýndarfé og hins vegar telur hann að erlendur gjaldeyrir, sem var keyptur í skiptum fyrir sýndarfé, sé skilaskyldur samkvæmt gjaldeyrislögunum.

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar
Rafmyntin bitcoin hefur notið talsverðra vinsælda frá því hún var …
Rafmyntin bitcoin hefur notið talsverðra vinsælda frá því hún var sett á laggirnar árið 2009. PHILIPPE LOPEZ
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK