Verðbólgan ekki lægri í fjögur ár

Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans.
Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans. DANIEL ROLAND

Verðbólga á evrusvæðinu lækkaði úr 0,7% í 0,5% í marsmánuði og hefur ekki mælst svona lág síðan í nóvember árið 2009, eða í yfir fjögur ár. Greinendur höfðu reiknað með að verðbólgan yrði 0,6% í mánuðinum þannig að lækkunin er meiri en þeir bjuggust við.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að verðbólgan sé enn langt undir verðbólgumarkmiði Evrópska seðlabankans, sem hljóðar upp á 2%.

Nýjar tölur frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, leiða í ljós að verðbólgan á evrusvæðinu hefur verið undir 1% nú sex mánuði í röð. Greinendur telja líklegt að það verði til þess að ráðamenn innan seðlabankans ákveði að grípa til aðgerða á fundi þeirra á fimmtudaginn.

Á seinasta fundi var ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 0,25% en Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, hefur ekki útilokað að gripið verði til frekari aðgerða, svo sem vaxtalækkana.

Greinendur hafa bent á að bankinn geti gert eins og Seðlabanki Bandaríkjanna og farið að kaupa skuldabréf í miklum mæli. Bankinn hefur keypt skuldabréf af fjármálastofnunum fyrir tugi milljarða Bandaríkjadala á undanförnum mánuðum í viðleitni sinni til að örva hagkerfið.

Í desember í fyrra var þó ákveðið að draga úr kaupunum.

Guillaume Menuet, hagfræðingur hjá Citibank, segir hins vegar að ekki sé samstaða innan peningastefnunefndar bankans um að grípa til viðlíkra örvunaraðgerða. Þær séu umdeildar og árangurinn af þeim ekki nógu ótvíræður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK