Fjármagnshöftin skipta miklu

Fjármagnshöftin og afnám þeirra myndi skipta miklu í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ljóst að aðstoð við það af hálfu ESB myndi ekki koma í ljós fyrr en á síðustu metrunum og bara sem hluti af áætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins sem kynnt var í morgun.

Þar segir að miðað við reynslu annarra ríkja komi nokkrir farvegir til greina fyrir ESB til þess að styðja við lausn hafta hérlendis. 

Segir í skýrslunni að slík aðstoð myndi ráðast á síðustu metrunum í aðildarviðræðunum og engar skuldbindingar af hálfu ESB myndu liggja fyrir fyrr en aðildarsamningur yrði gerður opinber.

Ef aðstoð yrði veitt yrði hún alltaf hluti af áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og undir eftirliti hans.

ESB og evrópski seðlabankinn hafa þegar gefið ádrátt um að koma að málinu með frumkvæmi um stofnun vinnuhóps um afnám hafta.

Lánalínurnar skipta ekki höfuðmáli

„Það skal haft í huga að lánalínur skipta ekki höfuðmáli fyrir afnám hafta nema að því marki sem aðgangur að þeim skapi trúverðugleika fyrir íslensku krónuna. Sú aðstoð sem skiptir mestu felst í þeim trúverðugleika sem stuðningur frá ESB skapar og því fyrirheiti að íslenskar krónur breytist í evrur innan ákveðins tíma. Gjaldeyrismarkaðir eru í eðli sínu framsýnir og myndu bregðast við um leið og aðildarsamningur yrði samþykktur,“ segir meðal annars í efnahagsmálahluta skýrslunnar.

„Fjármagnshöftin stafa af færsluvanda (e. transfer problem) íslenska myntsvæðisins. Það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað hægt er að flytja mikil verðmæti frá einu myntsvæði til annars á skömmum tíma. Eins og staðan er nú eru miklar krónueignir til staðar, í eigu bæði innlendra og erlendra aðila, sem gætu leitað úr landi um leið og gjaldeyrismarkaðurinn yrði opnaður. Sú hætta er því til staðar að fjármagnsútflæði muni þvinga fram lækkun á raungengi gjaldmiðilsins niður fyrir öll eðlileg þjóðhagsleg viðmið sem bæði rýrir lífskjör fólks og skaðar hagkerfið. Færsluvandinn hyrfi við upptöku evru þar sem Ísland yrði hluti af stærra myntsvæði. Ef myntskipti liggja fyrir innan einhvers ákveðins tíma er hægt að nýta þær upplýsingar strax til þess að leysa snjóhengjuvandann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísland stendur frammi fyrir því að afnema höft að kröfu ESB en við inngönguna í EES árið 1994 þurftu íslensk stjórnvöld að fella úr gildi ríflega sex áratuga gömul fjármagnshöft. Í kjölfar þess streymdi mikið af erlendu fjármagni inn í landið, sem nær ekkert lát var á í nær 15 ár. Öll líkindi eru til þess að stjórnvöld geti náð fram sömu áhrifum nú með því fyrirheiti að verða hluti af myntbandalagi Evrópu,“ segir í skýrslunni.

Yrðu að taka við lægri vöxtum og lægri verðbólgu

Ísland verður að uppfylla Maastricht-skilyrðin fjögur til þess að fá aðild að evrusvæðinu. Þau kveða á um lága verðbólgu, aðhald í ríkisfjármálum, samleitni langtímavaxta og síðast en ekki síst tveggja ára tengingu við evru í ERM II-fastgengiskerfinu sem er í umsjón Evrópska seðlabankans.“

Við inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evróu hafa íslensk stjórnvöld ekki lengur frelsi til þess að geta sjálf ákveðið eigin peningastefnu en verða að taka við bæði lægri vöxtum og lægri verðbólgu frá Evrópu. 

Höftin komu í veg fyrir mjög háa vexti

„Ríki geta að einhverju marki valið á milli atvinnuleysis og verðbólgu til skamms tíma, þar sem gengisfellingar og verðbólguskot flýta aðlögun á vinnumarkaði í niðursveiflu. Þegar gengið hefur verið fest varanlega er ekki hægt að leiðrétta þenslu og verðbólgu með gengislækkun. Aukinheldur getur ríkið ekki brugðist við ósamhverfum áföllum á framboðshlið hagkerfisins, svo sem miklum aflabresti í sjávarútvegi, með því að lækka gengið.

Ef litið er á gengislækkun sem kreppumeðal er ljóst að stjórnvöld geta ekki stjórnað skammtastærðinni nema að litlu leyti á frjálsum fjármagnsmarkaði, og lækningin getur hæglega orðið verri en sjúkdómurinn. Sú hefði einnig verið raunin ef landsmenn hefðu ekki gripið til þess ráðs að setja á höft haustið 2008 til þess að stöðva gengisfall krónunnar sem hefði ella valdið stórkostlegri röskun fyrir lífskjör fólks og rekstur  fyrirtækja. Án hafta hefði Ísland þurft að þola mjög háa vexti til þess að styðja við gengið á sama tíma og mjög snarpur samdráttur gekk yfir hagkerfið,“ segir í skýrslunni.

Velferðarbati en kostnaður á móti

Í skýrslunni segir að ekki verði önnur ályktun dregin en að upptaka evru með aðild að myntbandalagi Evrópu muni fela í sér gríðarlegan velferðarábata fyrir Ísland.

„Vitanlega kemur kostnaður á móti. Það er fórn að gefa eftir sjálfstæði í peningamálum og einhverju leyti sjálfstæði ríkisfjármála, jafnvel þó íslenskum stjórnvöldum hafi ekki tekist vel upp við beitingu þessara hagstjórnartækja. Líklegt er að í kjölfarið muni fylgja meiri breytileiki í atvinnuleysi samfara hagsveiflum þó langtíma atvinnustig ætti ekki að verða fyrir áhrifum.

Þá liggur einnig fyrir að samhliða upptöku evru verða töluverðar stofnanabreytingar að eiga sér stað þar sem hærri nafnlaunahækkanir hérlendis en erlendis munu draga verulegan dilk á eftir sér með verri samkeppnisstöðu og síðan kreppu. ESB er samband fullvalda ríkja og Íslendingar munu áfram þurfa að bera ábyrgð á sinni efnahagsstjórn, og það mun velta á þeim hvernig til tekst að vinna úr nýju stofnanafyrirkomulagi.

Frá fullveldi hefur Ísland háð mjög harða baráttu við að varðveita efnahagsstöðugleika samhliða því að halda landinu opnu gagnvart umheiminum. Í sögulegu samhengi verður ekki önnur ályktun dregin en sú að með aðild að myntbandalagi Evrópu leysist loks hin mikla þverstæða sem Íslendingar hafa barist við í hartnær heila öld; að geta notið samtímis fastgengis og frelsis í viðskiptum með vörur, þjónustu og fjármagn. En það hefur þeim reynst ómögulegt nema aðeins á þriðja og tíunda áratug tuttugustu aldar,“ segir í skýrslu Alþjóðamálstofnunar Háskóla Íslands.

Að úttektinni standa Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Ákveðið var að ráðast í gerð úttektarinnar á haustmánuðum síðasta árs vegna þeirrar óvissu sem uppi var um framhald aðildarviðræðna, enda um mikilvæg álitaefni að ræða fyrir efnahagslega framvindu þjóðarinnar.

Í úttektinni koma fram margvíslegar nýjar niðurstöður um aðildarviðræðurnar sem ekki hafa birst áður. Niðurstöðurnar endurspegla mat skýrsluhöfunda, enda komu þau aðildarsamtök sem að úttektinni stóðu ekki að efnisvinnu hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK