Eigum ekki fyrir afborgunum

Án sérstakra aðgerða til að leysa greiðslujafnaðarvandann er ekki hægt …
Án sérstakra aðgerða til að leysa greiðslujafnaðarvandann er ekki hægt að losa fjármagnshöftin án þess að taka óverjanlega áhættu með efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Eggert Jóhannesson

Ísland á við greiðslujafnaðarvanda að etja. Fyrirsjáanlegt er að á næstu árum verður viðskiptaafgangur ekki nægur til að standa undir samningsbundnum afborgunum erlendra lána, hvað þá að hleypa út krónueignum erlendra aðila. Þetta er meginástæða fjármagnshaftanna, segir í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands sem kom út í morgun.

„Lengja verður í erlendri fjármögnun og draga verulega úr vægi skammtíma krónueigna í höndum erlendra aðila og innlánsstofnana í slitameðferð áður en losun hafta er möguleg. Samhliða þurfa ríkissjóður og Seðlabankinn að endurfjármagna hluta af útistandandi skuldum. Þær aðgerðir sem ráðist verður í við losun haftanna þurfa að leysa greiðslujafnaðarvandann í bráð og lengd með hætti sem varðveitir fjármálastöðugleika og tryggir aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum,“ segir í ritinu.

Takmarkaður aðgangur að erlendu lánsfé

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri segir að vandinn sé stórum dráttum þríþættur.

„ Í fyrsta lagi er afborgunarbyrði erlendra lána þung á þessu ári og næstu fjögur ár þar á eftir og umfram horfur um viðskiptaafgang.

Í öðru lagi hafa innlendir aðilar aðrir en ríkið og Seðlabankinn enn takmarkaðan aðgang að erlendum lánamörkuðum á viðráðanlegum kjörum.

Í þriðja lagi gæti uppgjör föllnu bankanna bætt verulega við kvikar krónueignir í höndum erlendra aðila sem höftin hamla útgöngu.

Gætu þessar krónueignir farið upp í nærri hálfa landsframleiðslu ef krónueignir búa föllnu bankanna yrðu að fullu innheimtar og greiddar kröfuhöfum. Þjóðarbúið hefur hins vegar engan afgang af gjaldeyristekjum til að leysa út slíkar krónustöður,“ segir Már í formála Fjármálastöðugleika.

En þó svo greiðslujafnaðarvandinn sé enn skæður hefur staðan heldur batnað að undanförnu. Því veldur góður viðskiptaafgangur síðasta árs sem lækkaði skuldastöðuna meir en áður var búist við, segir í ritinu.

Óverjanleg áhætta að losa höftin

„Þá eru þyngstu árin varðandi raunverulegar afborganir af erlendum lánum þegar að baki, þ.e. árin 2012 og 2013, en safnað var fyrir hluta þeirra árin á undan. Þá er útlit fyrir að endurfjármögnun eða erlend eignasala muni fjármagna hluta afborgana á næstu árum, einkum á árinu 2015. Að lokum eru nú vísbendingar um að aðgangur nýju bankanna að erlendri lánsfjármögnun sé að batna.

Þetta breytir því ekki að án sérstakra aðgerða til að leysa greiðslujafnaðarvandann er ekki hægt að losa fjármagnshöftin án þess að taka óverjanlega áhættu með efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.

Í stórum dráttum felast þær aðgerðir í því að dreifa endurgreiðslum erlendra lána, einkum gjaldeyrisskuld nýja Landsbankans við þann gamla, greiða fyrir lausn varðandi krónueignir búa föllnu bankanna sem ekki krefst þess að gengið sé á gjaldeyrisforða eða gjaldeyristekjur landsins jafnvel þótt aðgengi að erlendu lánsfé sé takmarkað og  bæta aðgengi innlendra aðila að erlendum lánamörkuðum.

Margs konar útfærslur á slíkum aðgerðum eru til skoðunar í samvinnu stjórnvalda og Seðlabankans, með hliðsjón af ítarlegum sviðsmyndum greiðslujafnaðar langt fram í tímann. Ísland eins og mörg önnur þróuð ríki sem urðu illa úti í fjármálakreppunni hefur að undanförnu unnið að því að bæta regluverk varðandi fjármálakerfið,“ samkvæmt Fjármálastöðugleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK