Hið opinbera stærsta brotalömin

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata. Ómar Óskarsson

Stærsta brotalömin í aukinni hagnýtingu internetsins er hið opinbera. Þetta á bæði við um rafræna stjórnsýslu og ýmis atriði á stjórnsýslustigi sem mætti bæta til að koma í veg fyrir viðskiptahindranir. Þá þyrfti að skoða lagaumhverfið betur, t.a.m. með tilliti til að bæta samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að því að laða til sín hæft sérfræðimenntað starfsfólk. Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður starfshóps um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Fimmta stærsta hagkerfi heim 2016

Jón Þór segir að hér á landi sé margt gott að finna í tengslum við þennan málaflokk og bendir meðal annars á tengingar innanlands sem séu mjög góðar og verði aðeins betri á komandi árum. Á móti þurfi að horfa betur til tenginga við útlönd á komandi árum. Bent er á í greinargerðinni, sem kom út fyrr í mánuðinum, að internetið standi í dag undir fimmtungi af hagvexti þróaðra hagkerfa og að að árið 2016 stefni í að það verði orðið fimmta stærsta hagkerfi heims. Þá hafi skýrsla Boston Consulting Group sýnt að fyrirtæki með vel þróaðar veflausnir skilað hagnaði sem er langt umfram fyrirtæki með lakari lausnir. Því sé mikilvægt að Ísland skapi sér betri samkeppnisstöðu og vinni í að bæta þennan málaflokk sem kostur er á komandi árum.

Hið opinbera stærsta brotalömin

„Stærsta brotalömin er hins vegar hið opinbera,“ segir Jón Þór. Í greinargerðinni kemur fram að rafræn stjórnsýsla hafi fyrir nokkrum árum verið nokkuð framarlega, en svo hafi lítið gerst. Í dag sé hún búin að dragast aftur út öðru sem hafi gerst í atvinnulífinu. Smæð markaðarins bjóði aftur á móti upp á að snúa megi vörn í sókn á stuttum tíma og koma hinu opinbera og þjónustu þess framarlega á ný.

Viðskiptahindranir og lagaflækjur

Nokkur uppbygging hefur verið hér á landi í ýmsum atvinnugreinum sem nýta sér internetið og möguleika þess. Þannig hafa verið gangsett nokkur gagnaver og upplýsingatæknifyrirtæki og tölvuleikjaframleiðendur hafa byggst upp. Jón Þór segir mikilvægt að Íslendingar leysi þær viðskiptahindranir sem þessum fyrirtækjum standi fyrir dyrum. Nefnir hann sem dæmi að skilgreina þurfi ábyrgð hýsingaraðila á gögnum viðskiptavina til þess að auka áhuga slíkra viðskiptavina. Þá sé enn nokkur óvissa í skattaumhverfi upplýsingatæknifyrirtækja í viðskiptum við erlenda aðila og skýra þurfi íslenskar skattareglur varðandi „fasta starfsstöð“.  Segir Jón Þór að þar ætti að leyfa fyrirtækjum að setja upp netþjóna hér án þess að krefjast fastrar starfsstöðvar, en hann telur að þetta sé eitthvað sem lægri stjórnsýslustig en Alþingi geti verið leiðandi í.

Forgangsröðun fyrir erlenda sérfræðinga

Í greinargerðinni er komið inn á nauðsyn þess að bæta stöðu Íslands á alþjóðlegum samkeppnismörkuðum þar sem barist er um hæfasta starfsfólkið. Segir Jón að nauðsynlegt sé að horfa til þess að setja lög um forgagnsafgreiðslu erlendra sérfræðinga til auka samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja sem sæki sér starfskrafta erlendis. Í því ljós er einnig talað um að skoða möguleika á ívilnunum fyrir erlenda sérfræðinga, en slíkt þekkist í flestum löndum kringum okkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK