Eitt prósent félaga í þrot á fyrsta ári

Á árunum 1992 til ársins 2013 voru 71.545 aðilar skráðir …
Á árunum 1992 til ársins 2013 voru 71.545 aðilar skráðir í fyrirtækjaskrá, að því er segir í frétt Páls Kolbeins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 70% þeirra félaga sem voru skráð fyrir árið 1995 hafa verið felld brott af fyrirtækjaskrá og um 30% þeirra félaga sem voru skráð árið 2005. Með einföldun má jafnframt segja að um eitt prósent félaga fari í þrot á fyrsta ári. Á öðru og fram á sjöunda ár fara um 3% félaga í þrot en eftir það dregur nokkuð úr tíðni gjaldþrota.

Þetta kemur fram í grein Páls Kolbeins um líftíma íslenskra fyrirtækja í Tíund, nýjasta tölublaði Ríkisskattstjóra.

Í greininni segir að þrátt fyrir að nær fimmta hvert félag sem skráð er fari í þrot á fyrstu sex árunum sé engu að síður fjöldi fyrirtækja sem nái árangri og skapi störf og verðmæti fyrir þjóðfélagið.

„Gengi þeirra félaga sem ná fótfestu byggir ekki á gengi þeirra sem falla. Líkurnar á velgengni byggja á innri jafnt sem ytri þáttum í starfsemi félaganna. Hluti þessara þátta er á valdi aðstandenda þeirra og má ætla að í mörgum tilfellum hefði betur verið heima setið en af stað farið,“ segir Páll í grein sinni.

Skráðum félögum fjölgar ört

Hann segir að skráðum félögum hafi fjölgað mjög mikið á seinustu tveimur áratugum. Árið 1992 hafi verið 9.568 tekjuskattsskyld félög á skattgrunnskrá en árið 2012 hafi þau verið orðin nær þrefalt fleiri, eða 38.190.

Á sama tíma hafi einstaklingum á skattgrunnskrá fjölgað um 65.582 og mætti því segja að eitt nýtt félag hafi bæst á skrá fyrir hverja tvo einstaklinga. Hér er þó einungis um að ræða hreina aukningu, skráð félög umfram brottfelld.

Páll bendir á að fjölgun félaga segi ekki ein og sér alla söguna. Á hverju ári séu ný félög skráð og önnur felld brott af fyrirtækjaskrá.

„Á árunum 1992 til ársins 2013 voru 71.545 aðilar skráðir í fyrirtækjaskrá en þar af voru 47.586 einkahlutafélög, hlutafélög, sameignar-, samlags- og samvinnufélög. Á sama árabili voru 20.833 skattskyld félög felld af skrá en 12.079 félög höfðu verið lýst gjaldþrota.

Því hafa 8.754 félög verið felld af skrá vegna þess að þeim hefur verið slitið, starfsemi hætt, þau verið tekin yfir eða sameinuð öðrum félögum,“ segir Páll.

Árið 2011 sker sig úr

Rúmur helmingur þeirra félaga sem hafa jafnframt verið lýst gjaldþrota á síðustu árum, eða 6.169, voru lýst gjaldþrota á árunum 2008 til 2013. Þar af voru 2.642 lýst gjaldþrota árin 2011 og 2012, 1.551 árið 2011 og 1.091 árið 2012, segir í greininni.

Bent er á að þegar félög sem skráð voru árið 1992 og seinna séu skoðuð komi í ljós að fremur fátítt sé að félög séu lýst gjaldþrota árið sem þau eru skráð, þó það hafi auðvitað komið fyrir. 

„Yfirleitt fer um það bil eitt af hvejrum hundrað félögum í gjaldþrot strax árið eftir að það var stofnað,“ nefnir Páll og bætir því við að þá fari yfirleitt um 3 - 5% félaga í gjaldþrot á öðru ári og um 6 - 7% félaga á þriðja ári.

„Árið 2011 sker sig þó nokkuð úr en um 10,4% félaga sem stofnuð voru árið 2008 fóru í þrot það árið. Á fimmta ári eru 13 - 18% félaga yfirleitt farin í þrot og á tíunda ári hefur um fjórðungur stofnaðra félaga lýst yfir gjaldþroti,“ segir í greininni.

Með einföldun megi því segja að um eitt prósent félaga fari í þrot á fyrsta ári, á öðru og fram á sjöunda ár fari um 3% félaga í þrot, en eftir það drdagi nokkuð úr tíðni gjaldþrota. Á tólfta og fram á tuttugusta ár fari síðan um 1% í þrot á hverju ári.

Afföllin mest á fyrstu árunum

Þegar þau 818 félög sem skráð voru árið 1992 eru skoðuð nánar sést að 496 þessara félaga hafa verið brottfelld, eða 60,6%. Af þeim höfðu 326 félög verið lýst gjaldþrota, eða rétt tæplega 40%,

Afföllin eru mest á fyrstu árunum, að sögn Páls, því flest þeirra fyrirtækja sem lýsa yfir gjaldþroti ná ekki sex ára aldri.

„Árið 2013 höfðu 13.953 skattskyld félög lýst yfir gjaldþroti einhvern tímann á því tímabili sem skrá hefur verið haldin um þessi mál. Um 3% félaganna lýsti yfir gjaldþroti strax á fyrsta ári og hátt í þriðjungur, eða 28,1%, hafði lýst yfir gjaldþroti á þriðja ári.

Rúmur helmingur þeirra fyrirtækja sem fóru í þrot hafði lýst yfir gjaldþroti fyrir fimmta starfsár og um fimmtungur gjaldþrota félaga hafði náð tíu ára aldri þegar þau fóru í þrot,“ segir Páll í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK