Styrkur í krafti fjöldans

Aðalleikarar í kvikmyndinni Veronic Mars á frumsýningardegi. Myndin safnaði saman …
Aðalleikarar í kvikmyndinni Veronic Mars á frumsýningardegi. Myndin safnaði saman um 5 milljónum Bandaríkjadala í gegnum Kickstarter og tryggði sér þannig fulla fjármögnun. Michael Buckner

Á einungis ellefu mínútum tókst að fjármagna að fullu nýjan þrívíddarprentara sem ætlaður er almenningi. Á einum sólarhring var búið að tryggja að kvikmynd byggð á vinsælum táningaþáttum kæmist á hvíta tjaldið. Ókunnugir tóku sig saman og borguðu sumarfrí fyrir konu sem hafði orðið fyrir aðkasti á internetinu, að henni óafvitandi. Þetta eru einungis þrjú lítil dæmi um kraft hópfjármögnunar, og virðist lítið lát vera á vinsældum hennar.

Tækifæri fyrir lítilmagnann

Ljóst er að í gegnum hópfjármögnun hefur fjöldi verkefna og hugmynda fengið fjármögnun sem ellegar hefði hugsanlega þurft að bíða betri tíma. Kickstarter, vinsælasta fyrirtækið sem býður upp á hópfjármögnun, mun fagna fimm ára afmæli sínu í lok mánaðarins. Á þeim tíma hafa tæplega sex milljón manns tryggt fjármögnun fyrir rúm 59 þúsund mismunandi verkefni.

Samtals hefur rúmum milljarði Bandaríkjadala verið lofað í verkefni á vegum heimasíðunnar, um sex sinnum meira en hjá helsta keppinautnum, IndieGogo.

En í hvað hafa þessir fjármunir farið? Þegar litið er yfir tölfræðina á bak við vel heppnuð verkefni hjá Kickstarter sést að 62 verkefni hafa fengið meira en eina milljón Bandaríkjadala í stuðning og um þúsund hafa fengið einhvers staðar á bilinu frá 100.000 til einnar milljónar Bandaríkjadala. „Stóru verkefnin“, sem mesta athygli fá, hafa því einungis skapað um 43% af tekjum síðunnar. Eru þau einkum í formi tölvuleikja og „tæknidóts“ sem kannski hafa lítið notagildi.

Langflest af þeim verkefnum sem hljóta náð fyrir augum neytenda síðunnar fá hins vegar á bilinu eitt til fimm þúsund Bandaríkjadali. Meðalupphæðin sem verkefni á Kickstarter safnar er rétt um 6.700 Bandaríkjadalir, eða sem nemur um 750.000 íslenskum krónum.

Þessir fjármunir renna því einkum til minni aðila, oft tónlistarfólks eða listamanna sem hafa kannski ekki tök, getu eða þá vilja til þess að koma list sinni á framfæri á annan hátt.

Neytendavernd í lágmarki

„Við erum ekki búð,“ lýstu forsvarsmenn Kickstarter yfir árið 2012 að gefnu tilefni. Hópfjármögnun tryggir ekki að neytandinn fái það sem hann borgar fyrir. Í einu nýlegu, en vissulega öfgakenndu dæmi, náði einn skopmyndateiknari að safna rúmum fimm milljónum króna til þess að gefa út bók með teikningum sínum. Honum reyndist hins vegar um megn að uppfylla loforð sín um verðlaun fyrir þá sem studdu hann. Þegar kvörtunarbréfin bárust ákvað hann að brenna bókina frekar en að senda fleiri eintök til þeirra sem höfðu borgað fyrir hana, og birti langan reiðilestur gegn kapítalismanum á heimasíðu sinni. Enn er ekki ljóst hvaða úrræði þeir sem styrktu teiknarann hafa.

Þá sé engin trygging fyrir því að jafnvel þó að varan berist í hús að hún geri það sem lofað er. Eitt vinsælasta verkefnið á Indiegogo er armband, sem á að geta mælt í rauntíma þann kaloríufjölda sem neytandinn leggur sér til munns. Vísindin á bak við það loforð þykja ekki merkileg, og áhöld eru um hvort þeir sem standa að verkefninu séu frá San Francisco eða St. Pétursborg.

En á hópfjármögnun sér framtíð? Úrtölumenn segja að síður af þessu tagi taki ekki nógu há umboðslaun til þess að halda úti fyrirtækjunum, sér í lagi ef umsvif þeirra aukast. Á móti komi að ef prósentan hækki, geti verið hætta á að fæla fjármagnið í burtu. Kickstarter er til dæmis nú með 79 starfsmenn í vinnu, en tekur bara um 5% af verkefnatekjunum til sín. Yancy Strickler, annar af stofnendum Kickstarter, blés á þá gagnrýni í viðtali við heimasíðuna Quartz. Þar benti hann á að fyrirtækið hefði skilað hagnaði síðustu árin og ekki stæði til að selja. Þá byggi það á sterkum hugmyndafræðilegum grunni um kraft fjöldans. „Ég held að við munum líklega breyta lífi fleira fólks en fjöldi fyrirtækja sem munu vera hærra verðmetin en okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK