QuizUp á þýsku

Starfsmenn Plain Vanilla fagna útgáfu QuizUp á þýsku.
Starfsmenn Plain Vanilla fagna útgáfu QuizUp á þýsku.

Íslenska tölvufyrirtækið Plain Vanilla gaf fyrir nokkrum dögum út QuizUp í sérstakri útgáfu fyrir Þýskalandsmarkað. Er þetta í fyrsta sinn sem QuizUp er gefinn út á öðru tungumáli en ensku en stefna Plain Vanilla er að leikurinn verði aðgengilegur fyrir öll stærstu málsvæði heims. Meðal þess sem unnið er að í þeim efnum er útgáfa leiksins á kínversku og spænsku. 

Viðtökur Þjóðverja hafa farið langt fram úr vonum Plain Vanilla en QuizUp á þýsku er nú þegar orðinn vinsælasti leikurinn í App Store versluninni í Þýskalandi, að því er segir í fréttatilkynningu.

Þýskumælandi notendur QuizUp geta svarað spurningum í leiknum á  móðurmáli sínu og keppt við spilara um allan heim sem svara sömu spurningum á ensku. Enginn annar sambærilegur leikur býður upp á þennan möguleika, segir í tilkynningunni.

100 þúsund nýir spilarar á dag

QuizUp samfélagið hefur haldið áfram að vaxa jafnt og þétt eftir útgáfu leiksins á Android og bætast nú að jafnaði við 100 þúsund nýir spilarar á dag. 17,2 milljónir manna hafa nú hlaðið QuizUp niður í farsíma sína í 230 löndum. Sífellt er bætt við nýjum spurningaflokkum og eru þeir nú yfir 400 með alls 220.000 ólíkum spurningum. Spilarar geta stungið upp á spurningum um sín áhugamál og það eykur fjölbreytnina í spurningagerðinni enn frekar, segir í tilkynningunni.

Plain Vanilla flutti nýverið í nýtt húsnæði við Laugaveg 77 og hefur ráðið fjölmarga nýja starfsmenn til að takast á við þau verkefni sem fylgja svo hröðum vexti. Meðal þess sem hefur vakið athygli forsvarsmanna fyrirtækisins er mikil virkni notenda á spjallborðunum innan QuizUp. Vinnur Plain Vanilla nú að frekari útfærslu á því hvernig haldið verði utan um QuizUp samfélagið og hvernig fólk getur sameinast um áhugamál sín og átt samskipti sín á milli utan hefðbundinna viðureigna í leiknum.

 „Við horfum á QuizUp ekki bara sem spurningaleik þó að það sé vissulega öngullinn sem dragi notendur inn,“ er haft eftir Þorsteini Baldri Friðrikssyni, forstjóra og stofnanda Plain Vanilla, í fréttatilkynningu. „Við sjáum framtíð QuizUp ekki síst sem samfélagsmiðil sem myndast í kringum sameiginleg áhugamál fólks um allan heim. Heimurinn er orðinn svo lítill í dag og nýjar kynslóðir eiga heilmikið sameiginlegt hvort sem þær vaxa úr grasi í Hong Kong, New York, Berlín eða Reykjavík.“

Hann segir að viðtökurnar sem QuizUp á þýsku hefur fengið á þessum örfáu fyrstu dögum séu virkilega ánægjulegar. „Bæði er þetta stór markaður sem mikilvægt er að sinna vel og einnig er þetta staðfesting á því að ákvörðun okkar um að leggja áherslu á að þýða leikinn fyrir stór málsvæði hafi verið rétt. Möguleikinn á því að spila QuizUp á þínu móðurmáli gefur okkur mikið samkeppnisforskot og mun stuðla að enn frekari fjölgun QuizUp notenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK