Viðskiptaafgangur fari þverrandi

Greiningardeild Arion banka spáir því að afgangur af viðskiptum við útlönd fari þverrandi á komandi árum. Það mun hins vegar ekki gerast fyrirvaralaust, heldur gæti afgangurinn dregist saman hægt og bítandi yfir lengri tíma.

Telur deildin afar litlar líkur á því að viðskiptaafgangurinn snúist í halla í nánustu framtíð, enda væri það úr takti við reynslu erlendra ríkja af sambærilegum erfiðleikum og Ísland gengur nú í gegnum.

Greiningardeildin fjallar um málið í markaðspunktum sínum í dag.

Þar segir að afgangur af viðskiptum Íslands við útlönd sé lykilstærð þegar komi að afnámi hafta, endi nema viðskiptaafgangurinn þeim gjaldeyri sem þjóðarbúið aflar til þess að bæta erlenda eignastöðu þjóðarbúsins, til dæmis með niðurgreiðslu skulda. 

Spá greiningardeildarinnar um viðskiptajöfnuð til næstu sjö ára byggir á þjóðhagsspá deildarinnar síðan í febrúar. Gangi spáin eftir mun afgangur af viðskiptum við útlönd, án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð, nema um 4,8% í ár, en dragast síðan saman og verða um 1,9% árið 2020.

Uppsafnaður viðskiptaafgangur verður því um 23% af árlegri meðallandsframleiðslu tímabilsins, en það er nokkru minna en á síðustu fimm árum þegar uppsafnaður viðskiptaafgangur nam 26% árlegrar meðallandsframleiðslu.

Áframhaldandi vöxtur í útflutningi

Driffjöður afgangsins í spánni er áframhaldandi vöxtur í útflutningi á næstu árum, einkum í ferðaþjónustu, sem stenst nokkurn veginn á við vöxtinn sem deildin spáir í innflutningi vegna aukinna umsvifa innanlands, segir í markaðspunktunum.

„Við teljum útilokað að innflutningur taki að vaxa neitt í líkingu við það sem var á árunum eftir aldamót, enda átti sá vöxtur sér stað í skjóli fordæmalausrar útlánaþenslu og styrkingar krónunnar sem hvort tveggja átti rætur sínar að rekja til óhóflegs skammtímainnflæðis erlends fjármagns. Á meðan þess nýtur ekki við teljum við litlar líkur á að innflutningur fari úr böndunum,“ segir greiningardeildin.

Á móti hinum ágæta vöru- og þjónustuafgangi vegi aukinn halli á þáttatekjum, sem deildin spáir vegna hækkandi vaxtastigs á alþjóðavísu á komandi árum, afkomubata í áliðnaði og annarra þátta. Batnandi fjármögnunarkjör íslenskra aðila á erlendum mörkuðum, sem koma fram í lægra álagi, geti þó að einhverju leyti vegið á móti hærri grunnvöxtum. Gert er ráð fyrir stöðugu gengi og viðskiptakjörum í spánni.

mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK