Slæmt starfsumhverfi á hótelum

Renato Gruenenfelder, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar, segir að þjónusta á …
Renato Gruenenfelder, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar, segir að þjónusta á mörgum hótelum sé ekki boðleg starfsfólki og þá þurfi að passa upp á að sparnaður komi ekki niður á þjónustu. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Aðstaða fyrir starfsfólk á hótelum á landsbyggðinni er oft óboðleg og það leiðir til þess að fólk kemur ekki aftur að ári liðnu til að vinna og þar með byggist aldrei upp þekking eða reynsla. Þá eru margir hótelhaldarar hræddir við að auka kostnað og dæmi eru um starfsfólk sem hefur fengið pakkasúpur í þrjá mánuði meðan á háannartími er í ferðaþjónustunni.

Þetta segir Renato Gruenenfelder, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar, en hann hélt fyrirlestur á morgunfundi KPMG um ferðaþjónustu í gær.

Slæmt starfsumhverfi

Gruenenfelder segir í samtali við mbl.is að á landsbyggðinni sé oft vandamál að fá fólk til starfa þar sem ekki sé nægjanlega mikið fólk á staðnum. Þannig komi fólk frá höfuðborgarsvæðinu eða öðrum stöðum á landinu til að vinna tímabundið yfir sumarmánuðina. Aftur á móti sé aðstaða fyrir starfsmenn oft ekki upp á marga fiska, enda ekki gert ráð fyrir starfsmannaaðstöðu í flestum slíkum hótelum. Hann segir þetta verða til þess að oft á tíðum séu margir starfsmenn saman um vistverur og allt að tíu með sameiginlega hreinlætisaðstöðu.

„Starfsfólk þarf hvíld, hreinlæti og annað sem fólk vill almennt geta gengið að,“ segir Gruenenfelder og telur að léleg aðstaða dragi mikið úr þjónustugetu hótelanna. Þá segir hann marga hótelhaldara ganga of langt í sparnaði þegar kemur að starfsfólki og þannig þekki hann dæmi um að starfsfólki hafi verið gefin pakkasúpur í þrjá mánuði og því bannað að setja álegg á brauð sem það þó fékk að smyrja sér. „Þegar fólk er búið að vinna þarna í þrjá mánuði, vill það vinna þarna aftur?“ spyr Gruenenfelder og segir líklegast að fólk komi ekki aftur og að reynsla tapist.

Mikill sparnaður kemur niður á fagmennsku

Gruenenfelder segir að mörg hótel tími ekki að verja fjármunum í kaup á línvögnum fyrir hótelþernur og noti í staðinn svarta ruslapoka sem séu svo út um alla ganga þegar verið sé að þrífa. Þetta segir hann dæmi um léleg vinnubrögð og að sé ekki faglegt. Nefnir hann fleiri dæmi um sparnað hótela sem komi niður á þjónustu og bendir til dæmis á að oft sé gerð krafa um það á erlendum hótelum að nýtt starfsfólk gisti nokkrar nætur á hótelum til að finna betur sjálf hvað þurfi að gera til að bæta þjónustuna. Þá segir hann sum hótel ekki eiga tvenn rúmföt á hvert rúm og því geti hótel ekki tekið við viðskiptavinum á bílaleigubílum á ákveðnum tímum dags þar sem enn eigi eftir að klára þvott.

Hótelin koma verst út

Guðmundur Jónsson ehf. gerði nýlega könnun meðal viðskiptavina sinna sem fóru í hringferð með fyrirtækinu. Þá er almennt gist á fjölda hótela víða um land, en Gruenenfelder segir að niðurstöðurnar sýni að hótelin komi lang verst út. Leiðsögumenn fái alla jafna hæstu einkunn, en þar á milli komi svo bílstjórar og matur. Hann segir þetta vera áhyggjuefni og að huga þurfi betur að upplifun ferðalanga á hótelum landsins.

Í fyrirlestri sínum hafði Gruenenfelder sagt að hótelgisting væri nokkuð dýr hér á landi miðað við það sem gerist í stórborgum eins og New York og París. Aðspurður hvort Ísland væri þá ekki fast í vítahring verri þjónustu og hás verðlags. Gruenenfelder segir að þrátt fyrir hátt verð, þá sé ákvörðunin að lækka verð verri kostur en að auka þjónustu og þurfa jafnvel að hækka verð. Nauðsynlegt sé að finna út hvernig bæta megi þjónustuna án mikils tilkostnaðar, eða að markaðssetja sig sem dýrara hótel með góða þjónustu. Bendir hann á að nokkur slík komist upp með að rukka 50-60% hærra verð, án þess að það komi niður á vinsældum þeirra.

Hann tekur þó fram að það séu alltaf einhver þolmörk fyrir hækkandi verði, en að það sé einnig einhver lágmarksþjónusta sem ferðamenn vilji fá þar sem þeir greiði nú þegar nokkuð mikið fyrir gistingu hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK