Ólíklegt að raungengi styrkist mikið á árinu

Gengið kann að styrkjast tímabundið með auknum ferðamannastraumi í sumar.
Gengið kann að styrkjast tímabundið með auknum ferðamannastraumi í sumar. mbl.is/Rax

Óraunhæft er að raungengi krónunnar styrkist umtalsvert á næstu 18 mánuðum. Gengið kann að styrkjast tímabundið með auknum ferðamannastraumi í sumar en þörfin fyrir jákvæðan viðskiptaafgang mun hins vegar þrýsta genginu niður. Þetta er mat Jóns Bjarka Bentssonar, hagfræðings hjá Íslandsbanka, sem telur þó ekki hægt að útiloka að nafngengi krónu gagnvart evru fari í 140 krónur í sumar, en það er nú tæpar 155 krónur.

Fram kemur í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika að síðustu þrjá ársfjórðunga hafi raungengið haldist í námunda við 85% af meðalgildi þess frá árinu 1980. Jón Bjarki telur aðspurður ólíklegt að raungengið nái þessu meðalgildi á næstu 18 mánuðum. Slíkt „yrði enda áhyggjuefni“. Samkvæmt því verður raungengið áfram sögulega lágt. „Hafa ber í huga að ekki er hægt að líta á meðalgildi síðustu áratuga sem eðlilegt raungengi. Það var enda of hátt og birtist meðal annars í erlendri skuldasöfnun,“ segir Jón Bjarki um þróun síðustu áratuga.

Viðskiptakjörin versnað

Til skýringar mæla viðskiptakjör hlutfall milli þróunar útflutningsverðs í samanburði við verð innfluttra vara og þjónustu. Þau mæla hvað fæst af innflutningi fyrir hverja einingu útflutnings.

Jón Bjarki tengir aðspurður spár um gengisþróun við horfur um viðskiptakjör, sem hafi dökknað frá því í haust. Sérfræðingar Íslandsbanka telji ekki heppilegt að gengið styrkist mikið meira, enda geti þá viðskiptaafangur minnkað.

„Raungengið er orðið eins hátt og heppilegt er fyrir hagkerfið, utanríkisviðskiptin og þörf þjóðarbúsins fyrir gjaldeyrisinnflæði. Ef viðskiptakjörin taka ekki við sér og verð á sjávarafurðum og álverð hækkar ekki, eða verð á innfluttri hrávöru eins og olíu lækkar, væri ekki heppilegt að raungengið styrktist mikið meira. Það sem hefur gerst síðan í október er að útlitið fyrir sjávarafurðir er orðið heldur lakara.

Verðið á botnfiski hefur ekki komið til baka eins og vænst var. Verð á lýsi og mjöli lækkaði einnig í fyrra. Útlitið hefur því heldur versnað fyrir þetta ár. Erlendir greinendur og Alþjóðastofnanir sem spá fyrir um þróun matvælaverðs telja hins vegar að til lengri tíma muni verðið á sjávarafurðum fara hækkandi. Biðin eftir því getur hins vegar orðið lengri en maður áleit áður,“ segir Jón Bjarki.

Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika

hjá Seðlabanka Íslands, segir bankann spá frekari veikingu viðskiptakjara á næstu mánuðum.

„Það yrði gríðarlega mikilvægt ef viðskiptakjörin styrktust. Þau eru nú 9% undir langtíma meðaltali. Ef þau styrktust um 1% hefði það í för með sér að viðskiptajöfnuður batnaði um sem nemur 0,5% af vergri landsframleiðslu. Það hefur áhrif á lífskjör okkar og getu til að greiða niður erlendar skuldir að viðskiptakjörin séu jafn veik og raun ber vitni,“ segir Sigríður.

Stöðugt eða lítil hækkun

Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir bankann ekki reikna með mikilli styrkingu raungengis í ár. „Við teljum að raungengi muni haldast stöðugt eða hækka lítillega, vegna þess að verðlag hér er að hækka hraðar en í okkar helstu viðskiptalöndum. Þrátt fyrir að verðbólga á Íslandi sé nú undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans er verðbólgan einstaklega lítil víða, eins og á evrusvæðinu, þar sem hún er undir 1%. Við gætum séð örlitla hækkun í raungenginu framundan.“

Regína kveðst aðspurð því ekki eiga von á að nafngengi krónu styrkist mikið í ár. „Ég efast um að Seðlabankinn muni leyfa því að styrkjast mikið. Ef nafngengið myndi styrkjast mikið myndi Seðlabankinn leggjast á kauphliðina til að reyna að lágmarka sveiflur í genginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK