Bitcoin er búið að hasla sér völl

Frá fundi VÍB í Hörpu.
Frá fundi VÍB í Hörpu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tilkoma rafræna gjaldmiðilsins Bitcoin var mjög stórt skref í framþróun peningakerfisins, segir eðlisfræðingurinn Sveinn Valfells.

„Sagnfræðingurinn Niall Ferguson sagði að peningar hefðu verið forsenda framþróunar mannkynsins. Mín skoðun er sú að tilkoma Bitcoin hafi verið mjög stórt skref í framþróun peningakerfisins.

Gjaldmiðillinn hefur einnig stutt við þá framþróun sem hefur orðið á undanförnum árum, sem er að koma peningakerfinu í meira mæli á stafrænt form,“ sagði Sveinn á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, um Bitcoin sem haldinn var í Hörpu í vikunni.

Það eru fáir Íslendingar sem þekkja eðli rafrænna gjaldmiðla betur en Sveinn en hann heyrði fyrst minnst á Bitcoin fyrir um þremur árum. Síðan þá hefur hann kynnt sér hann afar vel, haldið erindi víða um heim og dreift boðskapnum, ef svo má að orði komast.

Á framtíðina fyrir sér

Á fundinum sagðist Sveinn trúa því að Bitcoin ætti framtíðina fyrir sér. Þó væri erfitt að segja fyrir um hversu hraður vöxturinn yrði. „Ég held að þau ríki sem munu tileinka sér bitcoin fyrst verði þau sem búa við vestrænt hagkerfi og hafa tiltölulega stöðugt fjármálakerfi.

Þau geta hagnast mest á því að nota Bitcoin. En þau ríki sem munu spyrna við þessari framþróun, líkt og svo mörgu öðru, munu verða eftirbátar í þessum efnum,“ sagði hann.

Spennandi yrði að fylgjast með framvindunni. „Þegar veraldarvefurinn varð fyrst til óraði fólk  ekki fyrir öllu því sem hann átti eftir að bjóða upp á. Ég tel að það sama gildi um Bitcoin,“ sagði Sveinn og bætti því við að það væri einmitt eitt það áhugaverðasta við þessa nýju, rafrænu gjaldmiðla.

Enginn vissi hvað framtíðin myndi bera í skaut með sér.

Að mati Sveins eru „veruleg tækifæri“ hér á landi til að nota Bitcoin, Íslendingum til hagsbóta. Hér væri tiltölulega há þjóðarframleiðsla, mikil tölvunotkun, mjög margar rafrænar færslur á höfðatölu á hverju ári og mikið gegnumstreymi af ferðamönnum sem kæmu með alls konar gjaldmiðla – af öllu tagi – hingað til lands. Bitcoin gæti verið góð viðbót í þá flóru.

Þá væri hér jafnframt mikið af ódýrri orku og góðum gagnaverum, þannig að hagstætt gæti verið að setja upp starfsstöðvar fyrir greiðslumiðlun byggða á gjaldmiðlinum.

Ekki hefðbundinn nútímagjaldmiðill

Bitcoin var fyrst kynnt til sögunnar í ársbyrjun 2009 af einstaklingi eða hópi fólks sem notaði dulnefnið Satoshi Nakamoto. Það er enn algerlega á huldu hver, eða hverjir, Nakamoto er, en markmið höfundarins var að koma á gjaldmiðli sem væri bæði ódýrt og einfalt að nota og sem væri jafnframt ekki stjórnað miðlægt af til dæmis seðlabanka. 

Sveinn sagði að Bitcoin væri í raun rafrænt auðkenni. Hann væri ekki hefðbundinn nútímagjaldmiðill að því leytinu að það væri enginn seðlabanki á bak við myntina.

Bitcoin væri heldur ekki krafa á eitt eða neitt, heldur einfaldlega auðkenni sem gengi kaupum og sölum manna á milli á netinu. Hann sagði að Bitcoin væri líkara gulli en flestum þjóðargjaldmiðlum. Gjaldmiðillinn væri í raun nokkurs konar rafræn útgáfa af góðmálmum, eins og gulli og silfri, en þó miklu ódýrari og auðveldari í notkun.

„Bitcoin hefur alla þessa eiginleika sem peningar hafa. Myntirnar eru einsleitar. Það er engin mynt öðruvísi en önnur. Það er hægt að skipta þeim niður í margar litlar einingar og það verða heldur ekki meira en 21 milljón Bitcoins í umferð í framtíðinni,“ nefndi Sveinn meðal annars.

Þá væri ómögulegt að falsa Bitcoin. Það hefði margoft verið reynt, en ávallt án árangurs. „Þeir byggja á dulkóðunartækni sem er nú notuð við vefverslun og traust samskipti manna á milli. Það þyrfti meiriháttar framfarir á sviði dulkóðunar til að geta búið til nýjar einingar og þá væri hvort eð er öll vefverslun og einkasamskipti á netinu í uppnámi,“ sagði hann.

Gegnir ekki hlutverki seðlabanka

Þá er enn fremur til sjálfseignarstofnun sem heldur utan um Bitcoin með svipuðum hætti og sjálfseignarstofnunin sem heldur utan um Linux-hugbúnaðinn. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að hún gegnir ekki á neinn hátt hlutverki seðlabanka. Hún getur hvorki - upp á sitt einsdæmi - breytt magni mynta í umferð né haft önnur meiriháttar afskipti af gjaldmiðlinum, svo sem með inngripum á markaði.

Hennar hlutverk er eingöngu að gæta þess að Bitcoin fylgi þeirri forskrift sem ætlað var í upphafi.

Sveinn sagði að gjaldmiðillinn hefði tvenns konar not og þá annars vegar sem eign. „Þú getur keypt Bitcoin og átt hann, alveg eins og þú vilt kaupa og eiga gull,“ sagði Sveinn og benti á að það væru helst þeir sem óttuðust verðbólgu í nútímahagkerfum - sem byggjast á pappírspeningum - sem vildu kaupa eitthvað sem væri í raun eins og stafræn fasteign.

„Hins vegar er hægt að nota það sem greiðslumiðil, því það er hægt að senda Bitcoin mjög hratt á milli. Þeir fara með ljóshraða á internetinu,“ sagði hann.

Heilmiklir möguleikar til vaxtar

Hann gæti til að mynda sent Bitcoin til frænda síns í Ástralíu og færslan yrði staðfest samstundis. Eftir tíu mínútur færi hún síðan í færsluskrána. Því oftar sem færsluskráin yrði uppfærð, þeim mun erfiðara yrði að vinda ofan af færslunni, útskýrði Sveinn.

„Þannig að innan klukkustundar gæti verið komin mjög trygg millifærsla frá mér til frænda míns í Ástralíu og hann getur þá gengið inn í kauphöll í Ástralíu, selt Bitcoin og keypt ástralska dollara.

Eiginleikar Bitcoin eru slíkir að þú getur samstundis sent hvert sem er, með litlum tilkostnaði, einingar og síðan leyst þær út fyrir pening.“

Sveinn telur að möguleikar Bitcoin til vaxtar séu heilmiklir. Þó sé ljóst að gjaldmiðillinn muni ekki vaxa eins hratt og verið hefur. Samkvæmt spá Sveins gæti markaðsvirði gjaldmiðilsins, sem er sex milljarðar Bandaríkjadala í dag, verið komið upp í tuttugu til þrjátíu milljarða Bandaríkjadala innan þriggja ára.

Gerir hann ráð fyrir því að vöxtur Bitcoin á næstu misserum verði tuttugufalt minni en verið hefur hingað til.

„Það gæti alveg komið til greina að vöxturinn verði hraðari ef það kemur eitthvað nýtt til með að kynda undir gjaldmiðillinn, sérstakega flott ný þjónusta sem færir mikið af peningum inn í Bitcoin-kerfið,“ sagði Sveinn.

Þá komi það að sama skapi til greina að Bitcoin einfaldlega hægi á sér, staðni eða minnki. Framtíðin væri óráðin.

Margir farnir að taka gjaldmiðilinn í sátt

Sveinn sagði að hagkerfið í kringum Bitcoin væri í stöðugri þróun og væri jafnframt sífellt að stækka.

„Við erum komin með fimm milljón niðurhöl á forritinu sjálfu. Til eru um þrjár milljónir það sem kallað er veskja. Fjörutíu þúsund kaupmenn um allan heim taka við Bitcoin. Veltan í sjálfu netinu er í kringum tuttugu milljarðar dollarar og veltan í kauphöllum sem kaupa og selja bitcoin er um sex milljarðar dollarar.“

Þá væri einnig fjöldi fyrirtækja sem notaði Bitcoin við ýmis tækifæri, til dæmis sem greiðslumiðil og jafnvel hraðbanka.

En hvað segja stjórnvöld við þessari þróun?

Sveinn nefndi að flestar ríkisstjórnir um heiminn væru farnar að viðurkenna Bitcoin með einhverjum hætti. Í Bandaríkjunum væri deilt um skilgreininguna á fyrirbærinu, hvort um væri að ræða hrávöru, pening eða eitthvað allt annað.

Í Þýskalandi væri búið að viðurkenna Bitcoin sem einkagjaldmiðil og í Bretlandi fengi Bitcoin sömu meðferð og gull til fjárfestingar eða aðrir gjaldmiðlar.

Stjórnvöld í Kína sæu hins vegar Bitcoin frekar sem ógn en tækifæri. „Þar er mikil skuldaþensla og fjármagnshöft og gera stjórnvöld allt sem í valdi þeirra stendur til að koma í veg fyrir framþróun Bitcoin,“ sagði Sveinn.

Á meðan aðrir þjóðir væru farnar að taka gjaldmiðilinn í sátt væru Kínverjar sér á báti.

Eðlisfræðingurinn Sveinn Valfells.
Eðlisfræðingurinn Sveinn Valfells. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Bitcoin-hraðbankar njóta vinsælda víða.
Bitcoin-hraðbankar njóta vinsælda víða. AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK