Stjórnin ræðir laun forstjóra Haga

Á ársfundi Gildis-lífeyrissjóðs, sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík síðdegis í dag, var samþykkt að vísa tillögu Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda og fulltrúa í fulltrúaráði lífeyrissjóðsins, um mánaðarlaun forstjóra Haga til stjórnar.

„Ég er mjög ánægður með það að tillögunni hafi allavega ekki verið hafnað,“ segir Örn í samtali við mbl.is. Umræðan um ofurlaun forstjóra og lykilstjórnenda skráðra félaga sé því hvergi nærri hætt.

Í tillögunni var lagt til að ráðningarsamningur við forstjóra félagsins yrði tekinn til endurskoðunar þannig að mánaðarleg laun, hlunnindi og árangurstengdar þóknanir færu ekki umfram þrjár milljónir króna.  

Jafnframt var lagt til að ráðningasamningar annarra stjórnenda fyrirtækisins yrðu teknir til endurskoðunar þar sem sambærilegar greiðslur yrðu innan hóflegra marka.

Mikill hitafundur

Örn segir að það hafi verið ansi mikill hiti í fundarmönnum.

„Fundurinn byrjaði nú á ákveðnu klúðri því að tillagan var ekki í fundargögnum. En þegar fundarstjóri hafði lesið hana upp kom hann strax með sínar skýringar og taldi það sitt mat að tillagan stangaðist á við ákveðnar samþykktir í hlutafélagalögum. Og því væri ekki rétt að bera hana svona fram og samþykkja hana á þennan hátt,“ segir Örn.

„Hann hvatti síðan fundarmenn til að vísa henni til stjórnar. Eftir að gerð hafi verið athugasemd við það að tillagan hafi ekki verið í fundargögnum var hún ljósrituð og lögð fyrir fundinn.

Þá fékkst fundarstjóri til að lesa tillöguna í heild sinni með greinargerðinni. Síðan urðu umræður um tillöguna og þeir sem til máls tóku, þ.e. fundarstjóri og síðan formaður stjórnar Gildis, vildu að henni yrði vísað til stjórnar,“ útskýrir hann.

Stjórnarformaður Gildis er Heiðrún Jónsdóttir héraðsdómslögmaður.

Loks hafi verið samþykkt að vísa tillögunni til stjórnarinnar til efnislegrar meðferðar.

Hljómgrunnur fyrir tillögunni

„Þannig er nú staðan.

Þetta var ekki frávísunartillaga, sem fundarstjóri lagði fram, heldur málsmeðferðartillaga, eins og hann orðaði það. Hann mat það svo að um leið og búið var að samþykkja að vísa henni til stjórnar væri umræðunni um hana lokið og tillagan þar af leiðandi komin til stjórnarinnar,“ segir Örn og bætir því við að mikill hljómgrunnur hafi verið fyrir efni tillögunnar á meðal fundarmanna.

„Það er að minnsta kosti mitt mat.“

Hann telur að skilaboðin, sem hann sendi með því að leggja tillöguna fram, hafi komið skýrt fram.

„Það leikur ekki nokkur vafi á því að samkvæmt siðareglum sjóðsins eru launin - í þessu tilviki - langt fram úr hófi,“ segir hann.

Á 10,32% í Högum

Í samskipta og siðareglum fyrir stjórn og starfsmenn Gildis lífeyrissjóðs segir meðal annars:

„Sjóðurinn fjárfestir í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins og viðurkenndum viðmiðunum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Sjóðurinn fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem og öðrum rekstrarþáttum.

Stjórn tekur afstöðu til slíkra mála sem upp koma og ákveður hvort selja eigi hlut sjóðsins í ljósi þeirra viðbragða sem athugasemdir við óeðlilega starfshætti fá.“

Gildi lífeyrissjóður á 10,32% í Högum, en í greinargerðinni segir að samkvæmt ársskýrslu Haga fyrir árið 2012 séu mánaðargreiðslur til forstjóra fyrirtækisins sex milljónir.

„Óumdeilt er að slík ofurlaun rúmast ekki innan framangreinds ákvæðis í siðareglum
Gildis lífeyrissjóðs,“ segir í greinargerðinni.

Frétt mbl.is: Hámark 3 milljónir fyrir forstjóra Haga

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. mbl.is
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK