„Viljum ekki skuldsetja félagið“

Sigmar Vilhjálmsson, stofnandi Konunglega kvikmyndafélagsins.
Sigmar Vilhjálmsson, stofnandi Konunglega kvikmyndafélagsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmar Vilhjálmsson, sem er á meðal þeirra sem standa að Konunglega kvikmyndafélaginu, er bjartsýnn á að hlutafjáraukningu félagsins ljúki sem fyrst. Mikilvægast sé að skuldsetja félagið ekki.

„Við viljum ekki skuldsetja félagið. Það sem hefur riðið öllum fjölmiðlum að fullu í sögunni er einmitt skuldsetning. Það er alveg ljóst mál að farið var í þessa vegferð af áhuga og ástríðu. Ef maður er farinn að sligast af skuldum, þá er ástríðan horfin úr verkefninu og er því betra heima setið,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Félagið er sáralítið skuldsett og við viljum halda því þannig.“

Öllum starfsmönnum sagt upp

Félagið, sem rekur fjölmiðlana Bravó og Miklagarð, leitar nú að nýju hlutafé til að styrkja rekstur félagsins en af þeim sökum hefur öllu starfsfólki verið sagt upp störfum og voru starfsfólki kynntar þessar aðgerðir á starfsmannafundi fyrr í dag.

Félagið segir upp ellefu fastráðnum starfsmönnum, þar á meðal fjármálastjóra og framkvæmdastjóra þess. Vonir standa til þess að með öflun nýs hlutafjár verði hægt að ráða þá alla aftur. 

Sigmar segir að engin breyting verði á starfsemi félagsins. Gert sé ráð fyrir að dagskráin verði óbreytt áfram og munu áhorfendur ekki finna fyrir þessum aðgerðum.

Vilja fá nýja hluthafa inn

Meirihluti hluthafa hefur, að sögn Sigmars, hug á því að taka fullan þátt í hlutafjáraukningunni og bindur jafnframt vonir við að nýir fjárfestar komi inn í félagið.

„Við viljum fá inn nýja aðila með okkur til þess að styrkja félagið enn frekar,“ segir Sigmar.

Er hlutafjáraukningin langt á veg komin?

„Við erum allavega komnir það langt að við leyfum okkur að vera bjartsýnir.

Við viljum heldur ekki vera að draga okkar fólk hér inn í óvissuna með okkur, þannig að við ákváðum að tilkynna þetta strax, vitandi það að þetta yrði fréttamatur, því fjölmiðlar elska fjölmiðla,“ segir Sigmar.

Hvað vantar ykkur mikið upp á?

„Ég get allavega sagt að það vantar minna en þú heldur en meira en við höfðum,“ segir hann.

Sækja fram

Stofnkostnaðurinn reyndist töluvert hærri en gert var ráð fyrir. Félagið hafði reiknað með að fara í hlutafjáraukningu einhvern tímann á þessu ári, en þó ekki svona snemma.

„Hlutafjáraukningunni er ætlað að sækja enn frekar fram. Þetta er klárlega fyrr en við ætluðum. Við vissum áður en við fórum í verkefnið að það kæmi að þeim tímapunkti að við þyrftum að fara í hlutafjáraukningu. Við viðurkennum það hins vegar alveg að í þessari uppbyggingu voru kostnaðarliðir sem fóru fram úr áætlunum,“ segir hann.

Þá hafi miðlarnir einnig farið mánuði seinna í loftið en til stóð. „Það er líka kostnaðarsamt. En þess vegna erum við að fara í þessa hlutafjáraukningu fyrr í ferlinu en við töldum að við myndum þurfa.“

Sigmar bendir enn fremur á að þrátt fyrir að miðlarnir hafi aðeins verið um tvo mánuði í loftinu sé verkefnið tíu mánaða gamalt. Mikilvægt sé að hafa það í huga.

Framtíðarsýnin er skýr

Aðspurður segir hann að viðtökurnar frá því að miðlarnir fóru fyrst í loftið hafi verið mjög góðar. „Þær umkvartanir sem við höfum fengið, til dæmis Miklagarðsmegin, hafa snúið að því að fólki finnst ekki vera nógu mikið efni á miðlinum. Það segir okkur að fólk er greinilega að horfa meira á miðilinn en við þorðum að vona.“

Sigmar segir að framtíðarsýn félagsins sé skýr. Áhugaverðir tímar séu í vændum á fjölmiðlamarkaði og ætli félagið sér að vera virkur þátttakandi í þeim breytingum sem framundan eru.

„Við erum með ákveðna framtíðarsýn í okkar félagi sem auðvitað mun taka tíma að byggja upp og klára,“ segir hann. Þeir séu alls ekki að tjalda til einnar nætur.

Frétt mbl.is: Öllum starfsmönnum sagt upp

Hlynur Sigurðsson, Edda Hermannsdóttir og Sigmar Vilhjálmsson störfuðu hjá Konunglega …
Hlynur Sigurðsson, Edda Hermannsdóttir og Sigmar Vilhjálmsson störfuðu hjá Konunglega kvikmyndafélaginu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK