Fréttaskýring: Þrátefli Landsbankans og LBI

Einu ári eftir að Landsbankinn fór þess fyrst á leit að hafnar yrðu formlegar viðræður um endurskoðun á ýmsum skilmálum á gjaldeyrisskuld sinni við kröfuhafa gamla Landsbankans (LBI) hefur enn ekki náðst niðurstaða um hvernig megi lengja í þungu afborgunarferli bréfanna. Að óbreyttu þarf Landsbankinn að greiða upp 240 milljarða á árunum 2014-2018.

Á síðustu vikum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, hefur viðræðum milli fulltrúa Landsbankans og LBI hins vegar miðað nokkuð áfram og drög að hugsanlegu samkomulagi voru á tímabili talin vera í burðarliðnum. Enn er þó alls óvíst hvenær – eða hvort – samningar munu nást. Það sem helst stendur í vegi fyrir því er sú tillaga slitastjórnar LBI að frekari greiðslur til forgangskröfuhafa verði ekki lengur háðar samþykki Seðlabanka Íslands um undanþágu frá fjármagnshöftum.

Hvorki Landsbankinn né LBI vildu tjá sig um viðræðurnar þegar eftir því var leitað.

Deilt um vaxtakjör

Bæði stjórnendur Seðlabankans og Landsbankans hafa ítrekað kallað eftir því að lengt verði í endurgreiðsluferli skulda Landsbankans. Í bréfi sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sendi til slitastjórnar LBI í lok maí 2013, sem Morgunblaðið hefur undir höndum og greindi frá á sínum tíma, fór hann þess á leit að greiðslutíminn yrði lengdur um tólf ár – og lokagjalddagi yrði á árinu 2030 í stað 2018. Að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála er aftur á móti gert ráð fyrir talsvert skemmri lengingu í þeim tillögum sem rætt hefur verið um milli gamla og nýja bankans. Samkvæmt þeim yrði endurgreiðslutími skuldabréfanna lengdur um sex til átta ár sem þýddi að lokagjalddagi yrði 2024 til 2026.

Slík lánalenging endurspeglar þá staðreynd að slitastjórn LBI og kröfuhafar búsins hafa ekki verið til í að fallast á viðræðuskilmála sem gerðu ráð fyrir að lengt yrði enn meira í endurgreiðsluferli skuldanna á sama tíma og vextir myndu lækka umtalsvert. Þannig hafði Landsbankinn upphaflega farið þess á leit við LBI á síðasta ári að þáverandi vextir skuldabréfanna, 1,75% álag ofan á Libor-vexti, héldust óbreyttir fram til ársins 2018 – en þeir hækkuðu í 2,9% sl. október í samræmi við upphaflega skilmála. Miðað við 240 milljarða höfuðstólsfjárhæð þá þýðir það að árlegar vaxtagreiðslur bankans í gjaldeyri hafa hækkað um þrjá milljarða. Í viðræðunum hafa fulltrúar LBI vísað til þess að eðlilegt sé að vextirnir taki mið af þeim kjörum sem hinir stóru bankarnir – Íslandsbanki og Arion banki – hafa verið að fjármagna sig á á erlendum mörkuðum. Eftir því sem næst verður komist standa væntingar hins vegar til þess að verði 6-8 ára lenging niðurstaðan þá muni vextir af erlendum skuldum Landsbankans – 290 punktar yfir Libor – lækka lítillega.

Íþyngjandi veðsetning

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gera þeir breyttu viðskiptaskilmálar sem nú er verið að skoða meðal annars ráð fyrir því að slitastjórn og kröfuhafar LBI séu reiðubúnir að koma til móts við óskir Landsbankans um að íþyngjandi kröfur um lágmarksveðsetningu að baki skuldabréfunum verði rýmkaðar. Í dag er bankinn skuldbundinn til að viðhalda að lágmarki 124,7% veðhlutfalli á stóru skuldabréfunum og 120% veðhlutfalli á skilyrtu skuldabréfunum. Í árslok 2013 námu veðsettar eignir gagnvart skuld bankans við LBI samtals um 314 milljörðum króna. Skuldabréfin eru ennfremur forgangskröfur í bankann, á undan innstæðum, gagnvart þeim eignum sem þau eru veðsett fyrir. Í upphaflegum tillögum Landsbankans var þess óskað að þau lágmarksveðhlutföll yrðu lækkuð í 105%.

Ljóst er að það skiptir Landsbankann miklu að það takist að endursemja um þessa skilmála enda hefur það veruleg áhrif á möguleika bankans til að endurfjármagna hugsanlega hluta af erlendum skuldum sínum að stór hluti eigna bankans sé veðsettur kröfuhöfum LBI. Að sama skapi er bankinn mjög áfram um að skoðaðar verði aðrar leiðir til að auka seljanleika bréfanna á erlendum lánamörkuðum. Þannig komi til greina í samningum við LBI að skipta höfuðstólsfjárhæðinni upp í fleiri og smærri skuldabréf sem hafi mismunandi líftíma (e. duration). Slíkt gæti aukið líkur á því að hægt yrði að selja áfram hluta af skuldunum til erlendra fjárfesta.

Landsbankinn hefur einnig sett fram þær kröfur í viðræðunum að skilmálum bréfanna verði breytt þannig að tryggt sé að hann hafi svigrúm til að greiða út arð til hluthafa– íslenska ríkið á 98% hlut í bankanum – án þess að þurfa samtímis að fyrirframgreiða sömu fjárhæð inn á skuldina, líkt og núverandi skilmálar kveða á um. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst er reiknað með því að sú tillaga Landsbankans eigi að geta náð fram að ganga í mögulegu samkomulagi við LBI.

Fundað stíft síðustu vikur

Ekki er þó langt síðan algjör pattstaða var uppi í viðræðum fulltrúa Landsbankans og LBI. Líkt og Morgunblaðið greindi frá um miðjan mars sl. þá hafði lítið þokast í átt að samkomulagi og engar formlegar viðræður enn hafnar á þeim tíma. Í lok janúar hafnaði Landsbankinn tillögum slitastjórnar LBI að viðræðuskilmálum (e. Heads of Terms). Samkvæmt heimildum bar talsvert á milli varðandi hugmyndir um lánalengingu og vaxtakjör.

Sú staða hefur sem fyrr segir breyst nokkuð á skömmum tíma. Að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins, sem þekkja vel til stöðu mála, gætir aukinnar bjartsýni um að samningsaðilar séu að ná saman um helstu skilmálabreytingar og hefur verið fundað stíft að undanförnu. Ráðgjafar LBI í viðræðunum hafa verið fulltrúar frá breska fjárfestingabankanum Barclays, bandaríska fjármálafyrirtækinu Great Circle Financial og bandarísku lögmannsstofunni Morrisson & Foerster. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið FTI Consulting hefur verið Landsbankanum til aðstoðar á undanförnum mánuðum. Fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands hafa verið upplýst um hvernig viðræðum hefur miðað. Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, hefur auk þess sótt marga fundi með fulltrúum LBI og Landsbankans á síðustu vikum en hún mun hafa lagt þunga áherslu á að endursamið verði um skilmála skuldabréfanna sem allra fyrst.

Þrátt fyrir að samningsaðilar séu nær því að ná saman nú um stundir en áður þá er enn of snemmt að fullyrða um framhaldið. Bakslag kom í viðræðurnar í lok síðustu viku og fundir sem halda átti í þessari viku hafa verið afboðaðir. Ræður þar hvað mestu óvissa um mögulegar undanþágu LBI frá fjármagnshöftum.

Vilja 610 milljarða undanþágu

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins grundvallast fyrirliggjandi tillögur slitastjórnar LBI að breyttum viðskiptaskilmálum skuldabréfanna á þeirri forsendu að Seðlabankinn heimili að veita búinu undanþágu fyrir öllum frekari greiðslum í erlendum gjaldeyri til forgangskröfuhafa – samtals upp á 610 milljarða króna. LBI hefur nú þegar greitt út allan „frjálsan gjaldeyri,“ reiðufé sem var á erlendum innlánsreikningum fyrir 12. mars 2012 og undanþegið fjármagnshöftum, með fjórum hlutagreiðslum til forgangskröfu að jafnvirði um 716 milljarða. Miðað við að fyrir liggur að forgangskröfuhafar – fyrst og fremst tryggingasjóðir innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi – munu fá kröfur sínar greiddar að fullu þá gera núverandi áætlanir ráð fyrir því að þeir eigi eftir að fá um 610 milljarða til viðbótar í sinn hlut.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er hins vegar afar ólíklegt að Seðlabankinn og einnig fjármálaráðuneytið séu á þessum tíma tilbúin til að fallast á jafn afdrifaríka undanþágubeiðni og LBI sækist eftir. Heimild fyrir slíkri undanþágu, þar sem kröfum í krónum yrði umbreytt í erlendan gjaldmiðil og hleypt undan höftum, myndi óhjákvæmilega hafa stefnumarkandi áhrif fyrir nauðasamningsumleitanir slitabúa Glitnis og Kaupþings. Slíkt fordæmi væri því mjög óheppilegt á meðan ekki liggja fyrir raunhæfar og útfærðar tillögur um hvernig fara eigi með útgreiðslur á krónueignum þeirra búa til erlendra kröfuhafa. Samkomulag milli nýja og gamla Landsbankans um skilmálabreytingar á skuldabréfunum í því skyni að létta á afborgunarferli erlendra skulda Landsbankans þarf því ávallt að haldast í hendur við uppgjör á hinum föllnu bönkunum. Sú afstaða stjórnvalda þarf ekki að koma á óvart. Ráðamenn hafa ítrekað lýst yfir að það þurfi að nást fram heildstæð lausn á öllum málefnum slitabúa föllnu bankanna áður en hægt verður að stíga skref til losunar hafta.

Strategísk kaup almennra kröfuhafa

Þrátt fyrir að heimtur almennra kröfuhafa LBI séu ekki miklar í samanburði við bú Glitnis og Kaupþings, en áætlað er að þeir fái 208 milljarða í sinn hlut eftir að búið er að greiða forgangskröfuhöfum, hafa þeir haft sig mikið í frammi í viðræðum LBI og Landsbankans. Hafa sumir furðað sig á því að slitastjórn LBI veiti þeim svigrúm til að hafa jafn mikil áhrif og raun ber vitni. Fulltrúar almennra kröfuhafa, til að mynda í gegnum óformlega kröfuhafaráðið, hafa verið tregir í taumi að samþykkja endurskoðun á skilmálum bréfanna.

Almennir kröfuhafar LBI eru í mörgum tilfellum þeir hinir sömu og í búum Glitnis og Kaupþings. Samkvæmt kröfuhafaskrá LBI, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, má sjá að á meðal þeirra sem hafa verið að kaupa meira af almennum kröfum á LBI á liðnu ári eru bandarísku vogunarsjóðirnir ACMO, sem eru í hópi stærstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings, Third Point og LMN Finance. Vogunarsjóðsstjóri Third Point er hinn þekkti fjárfestir Daniel Loeb en sjóðurinn er með um 10 milljarða dala í stýringu. LMN Finance er í eigu sjóðsstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner, stærsta einstaka kröfuhafa Glitnis, en það er Jeremy Lowe, betur þekktur sem „herra Ísland“, sem fer fyrir sjóðnum.

Heimildarmenn Morgunblaðsins, sem standa nærri viðræðum LBI og Landsbankans, lýsa kaupunum að hluta til sem „strategískum“. Með því að auka vægi sitt innan LBI eru stærstu kröfuhafar slitabúa föllnu bankanna um leið að reyna að styrkja stöðu sína gagnvart íslenskum yfirvöldum. Í því samhengi er einnig bent á að fram kom í breskum fjölmiðlum fyrr á árinu að þýski stórbankinn Deutsche Bank, sem er stór kröfuhafi slitabúanna, hafi keypt upp forgangskröfur breskra sveitarfélaga í LBI fyrir tugi milljarða. Slík kaup á forgangskröfum LBI, bæði í tilfelli Deutsche Bank og annarra kröfuhafa íslensku bankanna, hafa haldið áfram síðustu mánuði, að því er heimildir Morgunblaðsins herma.

Aðþrengd staða kröfuhafa

Staðan sem uppi er í viðræðum LBI og Landsbankans er þess vegna snúin – og á þessari stundu er ekki útlit fyrir niðurstöðu alveg á næstunni. Fyrirséð er samt að greiðslubyrði Landsbankans mun taka að þyngjast verulega strax á næsta ári, þegar bankinn þarf að greiða um 50 milljarða afborgun, en hann hefur margoft lýst því yfir að hann telji sig þurfa á endurfjármögnun að halda fyrir árið 2016. Á því ári eru ennfremur um 150 milljarða erlend lán ríkisins og Seðlabankans á gjalddaga. Tíminn til stefnu er því að verða knappur.

Kröfuhafar LBI ættu hins vegar að hafa augljósa hagsmuni af því að fallast fyrr en síðar á samkomulag um að lengja í endurgreiðsluferli skuldanna. Að öðrum kosti „munu fjármagnshöftin koma í veg fyrir að greiðslur til kröfuhafa gamla bankans raski stöðugleika,“ svo vitnað sé til rits Seðlabankans um fjármálastöðugleika sl. haust. Með öðrum orðum þá yrði sennilegt að kröfuhafar LBI þyrftu að sitja fastir með fé sitt innan hafta á Íslandi um ófyrirséðan tíma.

Þrjú sjónarmið við undanþágubeiðnir

Seðlabankinn gæti ekki veitt slitastjórn LBI undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða út óhindrað allt að 610 milljarða í erlendum gjaldeyri til forgangskröfuhafa nema að viðhöfðu samráði við Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. Samkvæmt breytingum á lögum um gjaldeyrismál í mars 2013 eru allar undanþágur frá höftum sem eru að hærri fjárhæð en 25 milljarðar jafnframt háðar samráði Seðlabankans við fjármálaráðherra og að undangenginni kynningu á efnahagslegum áhrifum fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Í gjaldeyrislögum segir að við mat á undanþágu skal líta til þess „hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum.“

Benedikt Gíslason, ráðgjafi fjármálaráðherra við framkvæmd áætlunar um afnám hafta, sagði í erindi sem hann flutti í síðustu viku í Valhöll að við mat á beiðni um undanþágu vegna skuldaskila föllnu bankanna ætti einkum að líta til þriggja mismunandi sjónarmiða:

1) Hreinnar erlendrar stöðu sem leiðir af skuldaskilum þegar undanþágubeiðnin berst.

2) Erlendrar stöðu sem leiðir af skuldaskilum þann tíma sem slitameðferð hefur varað.

3) Kröfur á slitabú eru krónukröfur og allar undanþágur sem fela í sér fjármagnsflutning yfir landamæri hafa því um leið áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins.

Nægir að lengja í erlendum skuldum Landsbankans?

Lengi hefur legið fyrir að miðað við spá Seðlabankans þá munu nettógjaldeyristekjur þjóðarbúsins að óbreyttu duga skammt til að standa undir samningsbundnum afborgunum erlendra lána – hvað þá að hleypa út krónueignum slitabúa föllnu bankanna eða aflandskrónueigendum. Í þessum efnum skipta afborganir af erlendum lánum Landsbankans langsamlega mestu máli fyrir endurfjármögnunaráhættu þjóðarbúsins á komandi árum.

Eftir ríflega gjaldeyrissöfnun á liðnum árum er Landsbankinn þó ágætlega í stakk búinn til að mæta afborgunum þessa árs og á því næsta. Verði ekki lengt í skuldunum eða þær endurfjármagnaðar að hluta á erlendum mörkuðum vandast hins vegar málið þegar komið er fram á árið 2016. Geta Landsbankans til að kaupa gjaldeyri á markaði til að greiða niður skuldabréfin er mjög takmörkuð, líkt og útskýrt er í nýjasta riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika, enda er gjaldeyrisjöfnuður bankans jákvæður um 6% af eiginfjárgrunni – en misvægið má mest vera 15%. Komi ekki til endurfjármögnunar þyrfti bankinn að vinda ofan af eignasafni sínu í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt greiningu Arion banka, sem Morgunblaðið hefur undir höndum og var kynnt á kröfuhafafundi Kaupþings 10. apríl sl., þá á Landsbankinn gjaldeyriseignir sem nema milli 21 til 68 milljörðum sem hægt væri að nota til greiða inn á skuldina við LBI.

Við núverandi skilmála skuldabréfa Landsbankans má reikna með umtalsverðum uppsöfnuðum halla á greiðslujöfnuði þjóðarbúins næstu fimm árin. Samkvæmt spá greiningardeildar Arion banka um undirliggjandi viðskiptaafgang og áætlaðar afborganir erlendra lána innlendra aðila – annarra en ríkissjóðs og Seðlabankans – þá mun uppsafnaður halli nema um 140 milljörðum króna árið 2018. Komi ekki annað gjaldeyrisinnflæði á móti myndi það leiða til gengisveikingar eða að brúa þyrfti bilið með því að ganga á skuldsettan gjaldeyrisforða Seðlabankans. Við þessar aðstæður væru engar líkur á því að hægt yrði að fara í aðgerðir til að losa um fjármagnshöft.

Sú sviðsmynd gæti hins vegar tekið nokkrum stakkaskiptum að gefnum þeim forsendum Arion banka að lengt yrði í erlendum lánum Landsbankans um tíu ár. Miðað við það, sem er þó meiri lánalenging en rætt hefur verið um í viðræðum LBI og Landsbankans að undanförnu, þá myndi greiðsluferill erlendra skulda þjóðarbúsins verða viðráðanlegri. Samkvæmt útreikningum Arion banka þá ætti slík aðgerð að leiða til þess að breyta verulegum uppsöfnuðum halla á greiðslujöfnuði í tugmilljarða afgang á næstu árum. Þannig gæti til að mynda skapast tækifæri fyrir Seðlabankann til að bæta í gjaldeyrisforðann.

Ekki er því um það deilt að farsæl niðurstaða varðandi endurfjármögnun eða lengingu á erlendum lánum Landsbankans er mikilvægur liður í áformum stjórnvalda um afnám hafta. Þær skuldir endurspegla aftur á móti aðeins eina birtingarmynd þess mikla greiðslujafnaðarvanda sem þjóðarbúið glímir við – og gríðarmikið uppsafnað fjármagnsútflæði biði enn sem fyrr fast á bak við fjármagnshöft. Lítið má út af bregða í þjóðarbúskapnum til að það fari að ganga á skuldsettan gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Bauð fyrst 150 milljarða í krónum

Fyrsta boð fulltrúa ríkisins og þáverandi forráðamanna nýja Landsbankans til að greiða þrotabúi LBI fyrir þær eignir – umfram skuldir – sem átti að flytja yfir í nýja bankann hljóðaði upp á óverðtryggt skuldabréf í krónum að andvirði 150 milljarða. Þetta herma áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins frá aðilum sem tóku þátt í viðræðum um endurskipulagningu Landsbankans á árinu 2009.

Niðurstaða samninga milli gamla og nýja bankans varð hins vegar að endingu allt önnur – og mun þungbærari fyrir bæði Landsbankann og þjóðarbúið. Samkvæmt rammasamkomulagi sem var undirritað í október 2009 um endurfjármögnun og eignarhald nýja bankans var ákveðið að eignir næmu 275 milljörðum umfram skuldir. Greitt var fyrir þær eignir með hlutafé í Landsbankanum að andvirði 28 milljarða (um 18% eignarhlutur) en það sem eftir stæði með tíu ára skuldabréfi í erlendri mynt að andvirði 260 milljarða sem væri afborgunarlaust fyrstu fimm árin. Í ársbyrjun 2013 fengu kröfuhafar gamla Landsbankans síðan afhent skilyrt skuldabréf – einnig í gjaldeyri – að fjárhæð 92 milljarðar í skiptum fyrir 18% hlut sinn í bankanum. Samtals fá kröfuhafar því að lokum greidda um 350 milljarða í gjaldeyri frá nýja bankanum, auk vaxtagreiðslna.

Gríðarmiklar skuldir Landsbankans í erlendri mynt við LBI, sem voru á tímabili hátt í 40% sem hlutfall af heildareignum bankans, hafa verið sem myllusteinn um háls íslenska þjóðarbúsins á umliðnum árum – og eru nú ein helsta ástæða þess að ekki er hægt að stíga skref í átt að afnámi hafta nema endursamið verði um skilmála þeirra. Þegar ljóst varð að bjartsýnar væntingar um að hægt yrði að endurfjármagna skuldirnar á erlendum lánsfjármörkuðum áður en kæmi að fyrstu afborgunum myndu ekki ganga eftir hóf Landsbankinn mikla gjaldeyrissöfnun á árunum 2011 til 2013. Bankinn hefur þó ekki verið virkur kaupandi að gjaldeyri á millibankamarkaði heldur er um að ræða gjaldeyrisinnflæði sem hann tók til sín, einkum gjaldeyristekjur af 187 milljarða erlendu lánasafni bankans, sem að öðrum kosti hefði skilað sér í meira mæli inn á markaðinn – og þannig til að mynda gefið Seðlabankanum tækifæri til að efla gjaldeyrisforðann.

Sé aðeins litið til tveggja fyrirframgreiðslna Landsbankans inn á skuld sína við LBI – í júní 2012 og desember 2013 – að fjárhæð samtals 123 milljarðar þá nema þær um þriðjungi af öllum uppsöfnuðum undirliggjandi viðskiptaafgangi Íslands 2009-2013. Nettógjaldeyrissköpun þjóðarbúsins á þeim árum var 380 milljarðar króna en slíkur viðvarandi viðskiptaafgangur á sér engin fordæmi í hagsögu Íslands. Þrátt fyrir það tókst Seðlabankanum ekki að nýta það tímabil til að byggja upp óskuldsettan forða og ljóst má vera að þung skuldabyrði Landsbankans er stór ástæða þess að það var ekki mögulegt.

Þessi þróun er í samræmi við þær áhyggjur sem ýmsir sérfræðingar settu fram þegar samið var um greiðsluskilmála á erlendum skuldabréfum Landsbankans. Þannig var vakin athygli á því í frétt Morgunblaðsins í október 2009 að samkomulagið myndi gera það að verkum að auka umtalsvert gjaldeyrisþörf bankans og því væri „nánast útilokað“ að gengi krónunnar myndi styrkjast á næstu misserum. Fjármálaráðuneytið sá aftur á móti ástæðu til að senda út tilkynningu þar sem fram kom að slíkar fullyrðingar um áhrif á gjaldeyrismarkaðinn væru alfarið rangar. Bent var á að ekki þyrfti að greiða afborganir af bréfinu fyrstu fimm árin, en það yrði síðan greitt allt niður 2014-2018, „þegar gjaldeyrismarkaður verður kominn í eðlilegt horf. [...] Ekki er því ástæða til að ætla að samningur um uppgjör milli bankanna muni hafa nein óeðlileg áhrif á gengi krónunnar á næstu árum,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK