Neikvætt viðhorf til alþjóðavæðingar

Viðhorf Íslendinga til alþjóðavæðingar, svo sem erlendrar samkeppni og alþjóðaviðskipta, …
Viðhorf Íslendinga til alþjóðavæðingar, svo sem erlendrar samkeppni og alþjóðaviðskipta, er neikvæðara nú en áður. mbl.is/Golli

Vísbendingar eru um að viðhorf Íslendinga til alþjóðavæðingar, svo sem erlendrar samkeppni og alþjóðaviðskipta, sé neikvæðara nú en áður. Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, segir að svo virðist sem að við séum í meira mæli farin að loka okkur af.

„Við þykjum hafa neikvæðara viðhorf en áður gagnvart til dæmis erlendri samkeppni og fjárfestingu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Það sem er ef til vill erfiðast fyrir okkur er að opna hagkerfið fyrir alþjóðaviðskiptum. Við búum við háa tolla og vörugjöld sem draga úr slíkum viðskiptum. Við erum með hindranir á erlenda fjárfestingu, höft á fjármagnsflutninga og þá er viðhorf okkar til þess að opna landið fyrir erlendri samkeppni neikvætt, sér í lagi þegar kemur að landbúnaðarmálum,“ segir hann.

Í síðustu viku voru niðurstöður úttektar IMD-háskólans á samkeppnishæfni sextíu ríkja heims kynntar á fundi Viðskiptaráðs og VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í Hörpu. Samkeppnishæfni hvers ríkis er metin út frá samsettri einkunn sem skiptist í fjóra meginþætti: efnahagslega frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslega innviði.

Ísland upp um fjögur sæti

Ísland færist upp um fjögur sæti á listanum, úr 29. sæti á árinu 2013, og situr nú í 25. sæti.

Bandaríkin tróna á toppi listans og á eftir koma Sviss, Singapúr, Hong Kong, Svíþjóð, Þýskaland og Kanada. Þess má geta að Danmörk er í 9. sæti, Noregur í 10. sæti og Finnland í 18. sæti og stendur Ísland því hinum Norðurlöndunum töluvert að baki, en þokast þó upp á við á listanum.

Aðspurður hvað átt sé við með samkeppnishæfni segir Björn Brynjúlfur að það byggi á þeirri kenningu að ríki heims keppist um að bæta lífskjör þegna sinna líkt og fyrirtæki. „Á sama hátt og fyrirtæki keppa sín á milli um viðskiptavini til að auka hagnað hluthafa sinna keppast ríki um mannauð og fjármagn til að bæta lífskjör þegna sinna. Í því felst samkeppnin,“ segir hann.

Björn Brynjúlfur segir að Ísland hafi bætt sig mest þegar kemur að efnahagslegri fammistöðu. „Við hækkum um tíu sæti þar, en erum þó reyndar að koma úr mikilli lægð. Við vorum í 45. sæti en erum nú í því 35. Þar skiptir máli að verðbólgan hefur lækkað töluvert á milli ára og atvinnustigið hækkað. Við erum aftur komin með nokkuð lágt atvinnuleysi og mikla atvinnuþátttöku,“ útskýrir hann.

Hins vegar erum við enn neðarlega, eða í 35. sæti, í þessum flokki. „Þetta er enn okkar stærsti veikleiki,“ útskýrir Björn.

Áhersla lögð á góða stjórnarhætti

Hvað varðar meginþáttinn skilvirkni hins opinbera, þá er Ísland nú í 27. sæti en var í því 35. í fyrra. Hann segir að þar muni mestu um fjármálin en dregið hafi verulega úr fjárlagahallanum á milli ára. „Það er stærsta einstaka breytingin, en annars eru litlar breytingar í þeim flokki.“

Þegar kemur að skilvirkni atvinnulífsins bætum við okkur líka og förum úr 36. sæti í það 31. „Það hefur meðal annars orðið vitundarvakning hvað varðar stjórnarhætti. Nú er meiri áhersla lögð á góða stjórnarhætti í atvinnulífinu. Það hjálpar okkur við að bæta samkeppnishæfnina. Einnig er litið til þess árangurs sem náðst hefur á vinnumarkaði, svo sem aukins stöðugleika og lægra atvinnuleysis,“ nefnir Björn.

Athygli vekur að þegar kemur að fjármögnunarflokknum erum við aftarlega á merinni, eða í fertugasta sæti. „Svo virðist sem aðgengi fyrirtækja að fjármagni sé verra hérlendis en í öðrum þróuðum ríkjum. Vaxtastigið er hátt, vaxtamunurinn í bönkunum er mikill og erfitt er fyrir fyrirtæki að afla sér fjár á markaði vegna gjaldmiðilsins og haftanna. Gjaldmiðlaáhætta og minni samkeppni í fjármálageiranum miðað við grannríkin ýtir fjármögnunarkostnaði þeirra upp og dregur úr aðgengi að fjármagni. Þetta er mikill veikleiki.“

Eitt stærsta verkefnið að aflétta höftum

Ísland er í 13. sæti í ár í flokknum samfélagslegir innviðir, en þar er meðal annars litið til grunnstoða, heilsu og umhverfis, menntunar og tæknilegra og vísindalegra innviða. Hífir landið sig upp um eitt sæti á milli ára.

Björn Brynjúlfur segir að við stöndum ágætlega í þessum efnum. „Það er helst að það mætti styðja betur við nýsköpun hjá fyrirtækjum sem og rannsóknir og nýsköpun á háskólastiginu. Það eru helstu sóknarfærin í þessum flokki.“

- Hvar liggja helstu sóknarfærin þannig að við getum bætt samkeppnishæfni okkar?

„Ég tel að eitt stærsta verkefnið sé að aflétta höftunum. Það myndi bæta aðgengi að fjármagni, opna hagkerfið betur fyrir erlendri fjárfestingu og stuðla að því að við gætum komist ofar á þennan lista. Það er stórt verkefni.

Hið opinbera kemur ekki vel út

Nátengt því er að greiða fyrir fjárfestingu. Við höfum bent á það í nýlegum skýrslum að það eru mörg tækifæri til að bæta hér umhverfið fyrir bæði erlenda og innlenda fjárfestingu og fjölga fjárfestingartækifærum. Það myndi einnig auðvelda fyrirtækjunum að sækja nýtt fjármagn.

Þá er einnig mikilvægt að auka framleiðni hins opinbera. Við sjáum að hið opinbera er ekki að koma vel út úr þessari úttekt. Fjármál hins opinbera, regluverk atvinnulífsins, langtímastefnumörkun stjórnvalda og vinnubrögð innan stjórnsýslunnar eru allt þættir þar sem við stöndum nágrannaríkjum okkar að baki,“ segir hann.

Kynning Viðskiptaráðs á niðurstöðunum

Upptaka af fundi Viðskiptaráðs og VÍB í heild sinni

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, kynnti niðurstöður skýrslunnar á …
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, kynnti niðurstöður skýrslunnar á fundi VÍB í Hörpu í seinustu viku.
Fundurinn var vel sóttur.
Fundurinn var vel sóttur.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt einnig erindi á fundinum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt einnig erindi á fundinum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK