Kauphallir ekki lokaðir klúbbar

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki ættu að líta í meiri mæli til skráningar á First North-markaðinn. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að kauphallir séu ekki lokaðir klúbbar fyrir stór og stöndug fyrirtæki heldur geti þær reynst heppilegt umhverfi fyrir lítil og meðalstór fyriræki til að vaxa og dafna.

„Okkur hefur fundist þessi First North-markaður hér á landi vera vannýttur,“ segir hann í ítarlegu samtali við mbl.is.

Páll flutti erindi um þessi mál á ráðstefnu Startup Iceland í Hörpu í seinustu viku.

Hann bendir meðal annars á að smærri félög sæki í mun meiri mæli á skráðan markað á Norðurlöndunum, þá sér í lagi í Svíþjóð, en nokkurn tímann hér á landi. „Markaðurinn úti er sams konar og okkar markaður. Segja má að umhverfið sé það sama en samt sem áður hefur sænski markaðurinn fengið flestar nýskráningar allra markaða á Norðurlöndunum undanfarin ár,” segir hann og bætir við að áhugavert sé að sjá hversu lítil fyrirtæki hafi verið að skrá sig á sænska First North-markaðinn.

„Fyrirtækin sem hafa verið að koma inn á þennan markað eru að jafnaði með kannski um tuttugu starfsmenn og innan við 500 milljónir króna í árstekjur,” nefnir Páll. Og þá eru jafnvel fjölmörg dæmi til um minni fyrirtæki. Þriðjungur fyrirtækjanna er með um það bil tíu starfsmenn og minna en hundrað milljónir króna í tekjur á ári.

Kostnaðurinn ekki hindrun

Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar umræðu sem á sér oft á tíðum stað hér á landi, að smærri fyrirtæki eigi að leita einhverra annarra leiða en að fara á markað.

„Hér á landi er oft vísað til kostnaðarþáttarins, að það sé einfaldlega of dýrt fyrir lítil fyrirtæki að ná sér í fjármagn í gegnum þessa leið,“ segir Páll. Það þurfi hins vegar ekki verða raunin.

Hann vísar til nýrrar BS-ritgerðar eins starfsmanna Kauphallarinnar, Erlendar Hjartarsonar, en hann dró upp mynd af hlutabréfamarkaðinum í Svíþjóð með sérstakri áherslu á markaðstorg fjármálagerninga. „Það kemur í ljós í þessari athugun hans að hlutfallslegur kostnaður við þessa leið, að fara á markað, er í sjálfu sér ekkert hærri en við höfum séð í dæmigerðum hlutafjárútboðum stærri félaga. Kostnaðurinn er kannski í kringum 10% af því fjármagni sem fyrirtækin eru að ná sér í,“ útskýrir Páll.

Hann segir jafnframt að ein af niðurstöðum ritgerðarinnar hafi verið sú að frumútboðin á sænska markaðinum væru fremur lítil. Fyrirtækin séu með öðrum orðum að ná sér í tiltölulega lítið fjármagn, ef til vill á bilinu tvær til sex milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir um 220 til 680 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi.

Stærðin skiptir ekki öllu

„Hjá okkur í Kauphöllinni vakna þá ýmsar spurningar. Af hverju eru svona lítil félög að fara inn á markað? Af hverju sjá þau sér hag í því í Svíþjóð, en ekki hér á landi? Af hverju er kostnaðurinn síðan ekki meiri en raun ber vitni?“ segir Páll og bætir við:

„Ég hef oft verið spurður að því í gegnum tíðina hversu stór fyrirtæki þurfi að vera til að skrá sig á markað. Svar mitt við því er það að það skiptir ekki öllu máli hversu stórt fyrirtækið er, heldur skiptir það meira máli á hvaða leið það er. Fyrirtæki koma oft inn á markað vegna þess að þau eru að hugsa um hvernig hann getur hjálpað þeim við að vaxa og dafna fram í tímann. Þannig að einhver sérstök punktstaða í dag hefur ekkert afskaplega mikla þýðingu,“ útskýrir Páll.

Hann bendir enn fremur á að ástæðan fyrir því að fyrirtæki skrái sig á markað þurfi ekki endilega að vera sú að þau séu eingöngu að leita að auknu fjármagni. Þau geti einnig verið að „ná sér í trúverðugleika,“ eins og hann orðar það.

Mýtan um hagnaðinn

„Þau eru að ná sér í trúverðugleika sem auðveldar þeim að mynda viðskiptasambönd og stækka með þeim hætti. En jafnframt eru þau að ná sér í fjármagn sem hjálpar þeim að stækka. Og við sjáum það á markaðnum í Stokkhólmi að þessum fyrirtækjum gengur bara nokkuð vel að stækka. Starfsmannafjöldinn vex til dæmis um tugi prósenta á ári að meðaltali.“

Sú skoðun er almennt útbreidd að fyrirtæki verði að skila hagnaði áður en þau ákveða að fara á markað. Páll segir þetta hins vegar vera mýtu. „Ef litið er til dæmis til fyrirtækjanna á First North-markaðinum í Stokkhólmi hefur ekki nema þriðjungur fyrirtækja þar skilað hagnaði þegar þau eru skráð á markaðinn,“ útskýrir hann. 

Hann bætir því við að það henti ekki alltaf öllum fyrirtækjum að fara á markað. Fyrirtæki séu ólík og því gildi ekki eitt fyrir alla, eins og stundum er haldið fram. „Það er auðvitað gott mál að fá stóru fyrirtækin á markað. Bæði félögin sjálf sem og fjárfestar njóta góðs af því. En markaðurinn leikur hins vegar ekki nema takmarkað hlutverk miðað við hvað hann gæti ef hann fær ekki að hjálpa þessum litlu fyrirtækjum að vaxa. Þar er dýnamíkin,“ segir Páll.

„Ákveðinn Akkilesarhæll“

Vel hefur gengið að endurvekja First North-markaðina á Norðurlöndunum eftir fjármálakreppuna en það sama er ekki hægt að segja um hinn íslenska First North-markað, sem er enn í skötulíki ef svo má segja. 

Páll segir ýmsar skýringar á því. Fyrirtæki geri sér til að mynda ekki alveg grein fyrir þeim vaxtarmöguleikum sem felist í skráningu á þennan markað og þá vilji hann oft gleymast í almennri umræðu. Hluti ástæðunnar sé einnig sjálfur „kúltúrinn“ í fjármálageiranum. „Þú gerir eitthvað á einn veg vegna þess að þannig hefur það alltaf verið gert,“ segir Páll.

Hann segir þó engan vafa leika á því hver stærsta hindrunin sé. Hún sé sú að samkvæmt lögum beri lífeyrissjóðum að líta á bréf félaga sem eru skráð á First North sem óskráða eign í sínum bókum.

„Það er ákveðinn Akkilesarhæll fyrir markað þegar takmarkanir eru á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða vegna þess að sjóðirnir eru svo umsvifamiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði. Það ætti að vera hægt að bæta vel við þennan First North-markað með því að gefa þeim sömu heimildir til fjárfestinga þar og á sjálfum aðalmarkaðnum. Það hefði verulega þýðingu,“ nefnir hann.

Skattaafsláttur gæti hjálpað til

Í frumvarpi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem lagt var fram í vor, er einmitt lagt til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf sem skráð eru á skipulegan markað.

Frumvarpið er byggt á frum­varps­drög­um sem Kaup­höllin sendi nefnd­inni haustið 2013, en þingmönnum tókst hins vegar ekki að afgreiða það fyrir sumarfríið. Páll segir að mikill einhugur hafi verið innan nefndarinnar um málið, góð þverpólitísk samstaða. „Ég tel að þetta skipti miklu máli. Ekki einungis vegna þess að lífeyrissjóðirnir gætu verið mikilvægir fjárfestar á þessum markaði, heldur tel ég að þeir gætu einnig dregið aðra fjárfesta með sér,“ bendir hann á.

Eins segir Páll að hugmyndir, sem eru nú á borði ríkisstjórnarinnar, um að veita þeim sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum skattaafslátt gætu verið mikil lyftistöng fyrir markaðinn. „Jafnvel þótt fjárfestingarnar yrðu ekki háar gæti slíkur afsláttur  þegar allt kemur til alls  skipt gríðarlega miklu máli,“ segir Páll. 

Hann nefnir að það hafi gefið góða raun þegar veittur hafi verið skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa á árum áður. „Hver fjölskylda var kannski ekki að leggja mikla fjármuni í hlutabréf en þetta safnaðist saman og að lokum urðu þetta fjárhæðir sem skiptu markaðinn verulegu máli. 

Ég held því að þessi atriði gætu gjörbylt fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja.“

Fjölmenni var á ráðstefnu Startup Iceland í Hörpu í seinustu …
Fjölmenni var á ráðstefnu Startup Iceland í Hörpu í seinustu viku. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Verðbréfamarkaður gegnir því hlutverki að greiða fyrir fjármögnun atvinnulífsins og …
Verðbréfamarkaður gegnir því hlutverki að greiða fyrir fjármögnun atvinnulífsins og stuðla þannig að auknum hagvexti og bættum lífskjörum. mbl.is/Ómar Óskarsson
Höfustöðvar Kauphallarinnar á Laugavegi.
Höfustöðvar Kauphallarinnar á Laugavegi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK