Form5 og Sprettur sameinast

Pétur Orri Sæmundsen verður framkvæmdastjóri Kolibri og Ólafur Örn Nielsen …
Pétur Orri Sæmundsen verður framkvæmdastjóri Kolibri og Ólafur Örn Nielsen sölu- og markaðsstjóri.

Hugbúnaðarfyrirtækið Sprettur og hönnunarstúdíóið Form5 hafa sameinast undir nafninu Kolibri, en tuttugu hönnuðir og hugbúnaðarsérfræðingar munu starfa hjá nýja félaginu, sem er alfarið í eigu starfsmanna. Stjórnendur hins nýja félags segja í samtali við mbl.is að stefna félagsins sé að skapa stafræna upplifun fyrir viðskiptavini fyrirtækja, en þeir sjá fyrir sér næg verkefni á næstunni með aukinni vitundarvakningu um mikilvægi stafrænnar tengingar í viðskiptum.

Pétur Orri Sæmundsen verður framkvæmdastjóri Kolibri, en hann var áður framkvæmdastjóri Spretts. Ólafur Örn Nielsen og Steinar Ingi Farestveit voru eigendur Form5, en Ólafur verður sölu- og markaðsstjóri hins nýja félags meðan Steinar mun gegna starfi hönnunarstjóra (e. creative director).

Sprettur var stofnað árið 2007, en það hefur sérhæft sig í Agile og Lean aðferðafræði hér á landi og innleitt nýjar stjórnunar- og tækniaðferðir í hugbúnaðargeiranum. Form5 var aftur á móti stofnað í fyrra og hefur lagt áherslu á vel hannaða notendareynslu. Fyrirtækið vann meðal annars fyrstu verðlaun fyrir vef Nikita Clothing í fyrra sem besti vefurinn á SVEF, vefur ársins á NEXPO og hlaut Form5 verðlaun FÍT fyrir best hönnuðu vefsíðuna. Áætluð velta sameinaðs fyrirtækis er um 300 milljónir.

Stafræn viðskipti stór þáttur hjá fyrirtækjum

Ólafur segir að stafrænar upplifanir séu í raun allir snertipunktar sem fyrirtæki eigi við viðskiptavini í gegnum netið. Meðal annars sé um að ræða þjónustusíður, vefverslanir eða vinnuferli hjá starfsmönnum fyrirtækja. Nauðsynlegt sé að hafa í huga að illa hönnuð kerfi fyrir starfsmenn geti t.d. leitt til þess að heildarupplifun viðskiptavina verði slæm og því þurfi allt að passa vel saman.

„Stafræn viðskipti eru orðin mjög stór þáttur af viðskiptum og fyrirtæki þurfa að huga jafnvel að þeirri upplifun og t.d. varðandi verslun eða útibú,“ segir Ólafur, en hann telur að ef fyrirtæki vilji ná einstakri þjónustunálgun þurfi þau að aðgreina sig. „Það er nauðsynlegt að fjárfesta í nýsköpun, það er ekki alltaf hægt að leita í hillulausnir,“ segir hann um sérhæfð verkefni.

Næg verkefni hér heima

Pétur segir að með sameiningunni nái fyrirtækið að sameina tvö fyrirtæki í ólíkum verkefnum en með svipaða sýn á hönnun og notendaupplifun. Segir hann að hönnun er alltaf að verða stærri þáttur í lífi almennings og það hafi sést vel með uppgangi Apple og vinsælda iPhone og iPad síðustu ár.

Aðspurður hvort hann telji að mikil eftirspurn sé eftir sérsniðnum lausnum segir Pétur að svo sé. Nú þegar sé nóg af verkefnum og að það muni bara aukast á komandi tímum. „Við þurfum ekkert að horfa út á næstunni,“ segir hann, en lokar þó ekki á að þeir muni skoða það síðar meir. Fyrst um sinn verði þó einbeitingin á heimamarkaðinum.

Tilhugalífið í gangi í langan tíma

Töluvert langur fyrirvari er á þessari sameiningu, en Pétur segir að fyrir rúmlega ári hafi Steinar hannað vef fyrirtækisins. Strax þá hafi þeir rætt við hann um að ganga til liðs við Sprett, en Ólafur og Steinar hafi verið búnir að ákveða að stofna eigið fyrirtæki. Pétur segir að síðan þá hafi þeir mikið rætt saman og kynnst þeim vel. „Tilhugalífið hefur verið í gangi í eitt ár, þetta er því ekki aðdragandalaust,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK