Niðurstaða Seðlabankans komi á óvart

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ómar

Forsvarsmenn Sparnaðar segja í yfirlýsingu að fyrirtækið hafi haft náið samráð með Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu vegna starfsemi sinnar. Þeir lýsa yfir vonbrigðum með að Seðlabankinn skuli ekki hafa tilkynnt þeim um breytingar á gjaldeyrislögum.

Yfirlýsingin er birt á heimasíðu Sparnaðar sem er umboðsaðili Bayern-Versicherung á Íslandi. Þýska félagið tilheyrir tryggingasamsteypunni Versicherungskammer Bayern.

Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær hefur reglum um gjaldeyrismál verið breytt þannig að söfnun sparnaðar á vegum erlendra tryggingafélaga verður óheimill. Verður veittur fjögurra mánaða aðlögunartímabil vegna þessa. Nýju reglurnar taka gildi á morgun en um þær má lesa hér á vef Seðlabankans

Einn forsvarsmanna Sparnaðar vísaði aðspurður á eftirfarandi tilkynningu þegar ákvörðun Seðlabankans var borin undir hann. Ekki náðist í fulltrúa Sparnaðar í gær.

Hafa frá upphafi haft samráð við stjórnvöld

„Í fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands, sem birt hefur verið á vef bankans, er tilkynnt um nýja túlkun bankans á gjaldeyrislögum og fyrirhugaðar breytingar á reglum um gjaldeyrishöft. Samkvæmt áliti bankans er flutningur iðgjalda vegna lífeyristrygginga Sparnaðar ehf. til erlendrs tryggingafélags óheimill. Sama gildir um starfsemi annarra aðila sem boðið hafa svipaðar tryggingar á íslenskum markaði.

Sparnaður hefur frá upphafi haft náið samráð við stjórnvöld, m.a. Seðlabankann, Fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið, um starfsemi sína. Því veldur það miklum vonbrigðum að lesa um nýja túlkun Seðlabankans á gjaldeyrislögunum í fjölmiðlum og á vef bankans án þess að Sparnaði ehf. hafi verið gefnar nokkrar skýringar á þessari breyttu afstöðu. Niðurstaða Seðlabankans kemur sérstaklega á óvart þar sem Sparnaður fékk á árinu 2009 sérstaka staðfestingu Seðlabankans þess efnis að gjaldeyrisfærslur vegna viðbótartryggingarverndar í samræmi við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, væru félaginu heimilar enda væru greiðslurnar í samræmi við samþykkta skilmála félagsins hjá Fjármálaráðuneytinu.“

Lágmarki hugsanlegt tjón viðskiptavina

Þá segir í tilkynningunni að Sparnaður muni leitast við að lágmarka hugsanlegt tjón viðskiptavina sinna.

„Seðlabankinn hefur gefið fjögurra mánaða aðlögunartíma að nýrri túlkun sinni á gjaldeyrislögunum. Sparnaður mun á næstu dögum funda með Seðlabankanum, FME, Fjármálaráðuneytinu og öðrum aðilum sem eiga hlut að máli. Stærsta verkefnið er að tryggja hag núverandi viðskiptavina og lágmarka hugsanlegt tjón þeirra en auðvitað sýnir þessi uppákoma hve erfitt það er fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga að þrífast í þeim gjaldeyrishöftum sem við Íslendingar búum við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK