Sun Lolly hermir eftir nýjum ís Kjöríss

Ísarnir eru mjög líkir, eins og sjá má.
Ísarnir eru mjög líkir, eins og sjá má. Mynd/Brandenburg

Merkilega mikil líkindi eru með nýrri vöru frá Kjörís og ís frá Sun Lolly sem kominn er á markað í Danmörku. Nafnið, útlitið og umbúðirnar eru þannig að óhjákvæmilega er hugsað til þess hvort hugmyndin hafi lekið eða hönnuðir fengið hana að láni.

Í færslu á fésbókarsíðu auglýsingafyrirtækisins Brandenburg er sagt frá málinu, en Bragi Valdimar Skúlason, texta- og hugmyndasmiður fyrirtækisins, segir að ísarnir séu óþægilega líkir.

Kjörís og Brandenburg hófu samstarf um hönnun á nýjum ís fyrir um ári síðan og var niðurstaðan að hann myndi heita Zombís. Fyrir nokkrum mánuðum var svo beiðni um framleiðslu á umbúðunum send til framleiðslufyrirtækis í Kína. Um daginn rákust svo starfsmenn Brandenburg á ís sem var að detta í sölu í Danmörku undir heitinu Brain Bites frá Sun Lolly fyrirtækinu. 

Greinilegt er að starfsmenn Brandenburg eru ekki ánægðir með þessu miklu líkindi. „Hvernig er það er alltaf millilent í Danmörku þegar farið er til Kína?“ segir á fésbókarsíðunni. Bragi tekur þó fram við blaðamann mbl.is að þau hafi ekkert fyrir sér hvort um stuld eða leka sé að ræða og mögulega gæti þetta verið sama hugmynd sem fæðist á mismunandi stað á sama tíma. Segir hann frekar langsótt að ætla að þarna sé einbeittur brotavilji að baki.

„Við erum aðallega bara spæld,“ segir hann og bætir við að það séu óþægilega mikil líkindi með vörunum. „Þetta er helst leiðinlegt hugmyndalega séð,“ segir Bragi, en þetta mun væntanlega ekki hafa áhrif á sölu íssins hér á landi eða erlendis, enda er Sun lolly ísinn ekki til sölu hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK