Kísilvinnsla alls ekki laus við mengun

Mengun fylgir alla jafna stóriðju. Kísiliðnaður er ekki undanskilinn, en …
Mengun fylgir alla jafna stóriðju. Kísiliðnaður er ekki undanskilinn, en þó er mengun vegna hans minni en í áliðnaði. AFP

Þótt kísilvinnsla sé hreinni en álvinnsla skilar hún töluverðri mengun út í andrúmsloftið og er langt frá því að geta flokkast sem hreinn iðnaður. Samanlögð losun frá kísilverunum tveimur sem áformað er að reisa í Helguvík er t.a.m. nokkuð meiri en frá álveri Norðuráls á Grundartanga og þá er losun gróðurhúsalofttegundarinnar koltvísýrings einnig nokkuð mikil. Verksmiðjurnar munu einnig skila frá sér ýmsum öðrum efnum og þá fer töluvert ryk frá þeim. Sólarkísilverksmiðjan sem reisa á á Grundartanga sker sig þó töluvert úr þar sem mengun hennar verður miklu minni en hinna verksmiðjanna.

Umræða um stóriðju og umhverfismál

Á undanförnum áratugum hefur verið nokkur umræða um stóriðju hér á landi og er einn angi þeirrar umræðu tengdur umhverfismálum. Skipta má þeirri umræðu í tvo megin flokka. Í fyrsta lagi mengun sem verksmiðjurnar sjálfar valda og svo þeim umhverfisáhrifum sem verða vegna virkjanaframkvæmda til að útvega stóriðjunni rafmagn. Hér verður aðallega horft til fyrri þáttarins, en að undanförnu hefur stundum heyrst að kísiliðnaður sé umhverfisvænni en áliðnaðurinn.

Nú eru uppi áform um að reisa fjórar verksmiðjur sem munu starfa að kísilvinnslu. Þrjár þeirra munu framleiða kísilmálm, en ein mun framleiða sólarkísil. Mbl.is skoðaði hvað hver og ein verksmiðja skilar af mengun og gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.

Fjögur kísilfyrirtæki á leið hingað

Í Helguvík er þegar hafin jarðvegsvinna fyrir kísilmálmverksmiðju United Silicon, en félagið keypti þróunarfélagið Stakksbraut 9 ehf. sem átti lóðina í Helguvík og hafði unnið umhverfismat sem var samþykkt af Skipulagsstofnun fyrir verkefnið. Fyrsti áfangi gerir ráð fyrir 22 þúsund tonna framleiðslugetu, en í heild er horft til 100 þúsund tonna framleiðslu. Orkuþörf United Silicon er áætluð 35 megavött.

Á sama stað hefur félagið Thorsil fengið úthlutaða lóð þar sem áformað er að reisa kísilmálmverksmiðju. Við undirritun fjárfestingasamnings milli Thorsils og iðnaðarráðuneytisins kom fram að áætluð ársframleiðsla væri 54 þúsund tonn af kísilmálmi, en í matsáætlun sem Mannvit vann fyrir fyrirtækið er unnið út frá 110 þúsund tonna framleiðslu. Fyrir 54 þúsund tonna framleiðslu er gert ráð fyrir 87 megavatta raforkuþörf.

Iðnfyrirtækið Silicor Materials hyggst svo reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga, en hefjast á handa við framkvæmdir á haustmánuðum. Verksmiðjan er nokkuð frábrugðin hinum verkefnunum, en þar á að notast við nýja tækni við gerð sólarkísils með framleiðsluaðferð sem Silicor fann upp og á einkaleyfi á. Þar verður kísilmálmur leystur upp í bræddu áli, en tilraunaverksmiðja hefur verið rekin í Kanada sem sýnir að vinnsluferlið virkar. Orkuþörf verkefnisins er 85 megavött.

Á Húsavík er svo áformað að PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, byggi kísilver. Áætluð framleiðslugeta kísilversins er 33 þúsund tonn af kísilmálmi á ári, með möguleika á stækkun upp í 66 þúsund. Samkvæmt samkomulagi við Landsnet er miðað við að starfsemin hefjist árið 2017 og aflþörf fyrsta áfanga verksmiðjunnar er 52 megavött.

Mengunarþættir kísilvinnsla

Í umhverfismati sem var samþykkt fyrir United Silicon kemur fram að áætluð losun brennisteinsdíoxíðs (SO2) sé 1500 tonn á ári og að útblástur koltvísýrings sé um 360 þúsund tonn. Þá er gert ráð fyrir að í útblæstri frá verksmiðjunni verði um 130 tonn af ryki á ári, 520 tonn af köfnunarefnisoxíð (NOx) auk minna magns af öðrum efnum og málmum.

Fyrir 110 þúsund tonna framleiðslu hjá Thorsil er gert ráð fyrir að losun brennisteinsdíoxíðs verði 1950 tonn og að ryk í útblæstri nemi um 200 tonnum. Fyrirtækið skilaði nýlega matsáætlun til Umhverfisstofnunar en ekki komu þar fram upplýsingar um aðra losun. Í síðustu viku óskaði Umhverfisstofnun eftir nánari gögnum og er unnið að því svari. Sé miðað við svipaða losun koltvísýrings og í kísilverum PCC og United Silicon má gera ráð fyrir að losun CO2 hjá Thorsil verði á bilinu 400-600 þúsund tonn á ári.

Sólarkísilverksmiðjan sem Silicor vill reisa á Grundartanga sker sig nokkuð frá hinum með að þar er ekki gert ráð fyrir neinni losun á brennisteinsdíoxíð og losun málma og annarra eiturefna er hverfandi. Þá er losun koltvísýrings einnig lítil, en aðeins er gert ráð fyrir að verksmiðjan losi eitt þúsund tonn af lofttegundinni á ári.

Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum fyrir kísilver á Bakka er miðað við tvær stærðir, eins og kom fram að ofan. Fyrir 33 þúsund tonna framleiðslu er gert ráð fyrir að losun brennisteinsdíoxíðs verði 416 tonn á ári, að ryk í útblæstri verði 28 tonn og losun koltvísýrings 181.500 tonn. Hægt er að tvöfalda þessar tölur fyrir 66 þúsund tonna framleiðslu.

Ekki hreinn iðnaður, en ekki heldur sá versti

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við mbl.is að losun kísilvera sé hlutfallslega minni en hjá álverum, en þá verði að horfa til þess að álver mengi töluvert mikið. Segir hún að ljóst sé að kísilver séu í eðli sínu mengandi starfsemi. „Þetta er ekki hreinn iðnaður, en ekki það versta heldur,“ segir Aðalbjörg.

Tvö kísilver samsvara einu álveri

Ef þetta er tekið saman má sjá að þær fjórar verksmiðjur sem eru í bígerð hér á landi á í tengslum við kísilvinnslu menga hlutfallslega minna en álverin. Aftur á móti inniheldur samanlagður útblástur kísilveranna þriggja um 4300 tonn af brennisteinsdíoxíð, eða um 1000 tonnum meira en hjá Norðuráli. Þá er útblástur koltvísýrings allra vinnslanna fjögurra um 65% meiri en frá álveri Norðuráls. Rafmagnsnotkun þeirra er þó svipuð, en kísilverksmiðjurnar fjórar munu í heild nýta tæplega 500 megavött, meðan álver Norðuráls er með á bilinu 500 til 550 megavött. Það er því ekki fjarri lagi að segja að United Silicon og Thorsil verin mengi svipað mikið og eitt álver, en þó með aðeins meiri úblástur koltvísýrings, en töluvert minni raforkunotkun.

Mismunandi tegund mengunar

Rétt er að taka fram að horft er mismunandi augum á mismunandi mengunarefni og fer það meðal annars eftir því hvort um er að ræða gróðurhúsalofttegundir eða efni sem valda mengun staðbundið, t.d. með að safnast saman í gróðri og vatni.

Gróðurhúsalofttegund er lofttegund sem veldur gróðurhúsaáhrifum og hefur áhrif á hlýnun jarðar og svokallaðar loftslagsbreytingar. Samkvæmt Aðalbjörgu hefur það verið yfirlýst markmið Íslands að draga úr losun þessara lofttegunda. Segir hún brennisteinsdíoxíð aftur á móti staðbundnari mengun sem t.d. geti hvarfast við vatn og myndað brennisteinssýruagnir og farið í gróður sem umbreytir þeim í súlfat. Þá geta t.d. komið fram gróðurskemmdir og er brennisteinsdíoxíð ein helsta ástæða fyrir súru regni.

Frétt mbl.is: Tímamót í þremur kísilverkefnum

Frétt mbl.is: Umhverfislegur ávinningur af sólarkísil

Frétt mbl.is: 77 milljarða verksmiðja á Grundartanga

Frétt mbl.is: Framkvæmdir við kísilver hefjast á morgun

Frétt mbl.is: Lóðin undirbúin fyrir kísilver

Frétt mbl.is: Thorsil ehf semur um lóð í Helguvík

11.7.2014: Í upphaflegri frétt stóð að losun CO2 hjá Silicor Material væri 1 tonn á ári. Hið rétta er að losunin er 1000 tonn á ári, eins og kemur fram í töflunni. Þá var einnig skerpt á því að tölur um áætlaða losun CO2 frá Thorsil væru áætlaðar útfrá losun svipaðra kísilvera.

Taflan sýnir mismunandi mengun frá þeim kísilverksmiðjum sem á að …
Taflan sýnir mismunandi mengun frá þeim kísilverksmiðjum sem á að reisa og svo til viðmiðunar mengun frá álverinu og málmblendinu á Grundartanga. Mynd/mbl.is
Hér má sjá yfirlitsmynd yfir Helguvík. Svæði United Silicon er …
Hér má sjá yfirlitsmynd yfir Helguvík. Svæði United Silicon er appelsínugult og Thorsil grátt, en þau eru bæði hægra megin á myndinni.
Grundartangi. Stefnt er á að reisa þar sólkísilverksmiðju.
Grundartangi. Stefnt er á að reisa þar sólkísilverksmiðju. www.mats.is
Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ásamt for­svars­mönn­um United Silicon …
Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ásamt for­svars­mönn­um United Silicon hf.
Forsvarsmenn Landsvirkjunar og PCC við undirritun raforkuafhendingar vegna kísilvers á …
Forsvarsmenn Landsvirkjunar og PCC við undirritun raforkuafhendingar vegna kísilvers á Bakka. Ljósmynd/Landsnet/Hreinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK