Kafað ofan í Costco-málið

Costco skoðar að koma hingað til lands. Stutt gæti verið …
Costco skoðar að koma hingað til lands. Stutt gæti verið í að ákvörðun um það sé tekin.

Síðustu daga hefur mikið verið rætt um áform bandarísku verslunarkeðjunnar Costco að opna verslun hér á landi. Það er reyndar erfitt að flokka Costco sem venjulega verslun því um er að ræða ákveðna blöndu af verslun og heildsölu. Þá er vöruframboð Costco ekki takmarkað við matvöru heldur selur hún allt frá dekkjum í brúðarkjóla og matvöru yfir í heita potta. Að jafnaði eru sérstök bakarí hluti af versluninni ásamt sölu á áfengi og lyfjum. Fyrir utan er svo oftast bensínstöð og jafnvel önnur þjónusta fyrir bíla. Mbl.is skoðaði hvernig fyrirtæki Costco er og hver staðan er í raun og vera með komu þess til landsins.

Ísland verið lengi til skoðunar

Í vetur sagði Morgunblaðið frá áhuga Costco á að koma hingað til lands og var haft eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að hún liti málið björtum augum. Síðar var greint frá því að horft væri til Kauptúns í Garðabæ, en félagið hefur einnig verið í sambandi við skipulagsyfirvöld í Reykjavík til að koma upp verslun á Korputorgi.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, staðfesti þá að viðræður hefðu átt sér stað við forsvarsmenn Costco. Enn á þó eftir að skila inn teikningum fyrir fjölorkustöð sem fyrirtækið ætlar að reisa.

Svipaða sögu er að segja frá Reykjavík, en um­hverf­is- og skipu­lags­ráð Reykja­vík­ur tók já­kvætt í fyrirspurn Costco um að byggja sjálfsaf­greiðslu fjöl­orku­stöð á lóðinni við Korpu­torg. Ekki hefur þó verið tekin lokaákvörðun um málið, en vinna þarf breytingu á deiliskipulagi og sagði Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs, að það væri nú í höndum Costco hvort farið verði í þá vinnu.

Ummæli stjórnmálamanna vekja umtal

Í umfjöllun RÚV í vikunni var nefnt að verslunin hefði óskað eftir undanþágum fyrir innflutning á kjöti frá Bandaríkjunum og að selja mætti lyf og áfengi í búðinni. Haft var eftir Ragnheiði Elínu að hún sæi fyrir sér að hægt væri að greiða úr ýmsum málum meðan verslunin sýndi áhuga á að koma hingað.

Margir tóku þessu sem jákvæðu svari við undanþágum fyrir eina verslun á innflutningi á kjöti frá Bandaríkjunum og breytingu  á lögum um lyfja- og áfengissölu. Ragnheiður hefur leiðrétt það og sagt að ekki standi til að breyta lögum fyrir eitt fyrirtæki. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, tók í sama streng og Ragnheiður, en bætti við að hún væri til í að sjá breytingar á fyrrnefndum reglum fyrir öll fyrirtæki.

Undanþágubeiðnin misskilningur

Þá sagði lögmaður Costco einnig í frétt mbl.is að það væri mikill misskilningur að óskað hefði verið eftir undanþágu fyrir fyrirtækið eitt og sér. Aðeins hefði verið sett fram formlegar fyrirspurnir, en ekki hafi verið óskað eftir neinum undanþágum.

Í tengslum við komu fyrirtækisins hefur einnig verið rætt að Costco hefji sölu á íslenskum fisk í búðum sínum, en það gæti orðið nokkuð stót skref, enda er heildarfjöldi verslana Costco rúmlega 600 um allan heim.

Hvernig fyrirtæki er Costco?

En hvernig verslun er Costco? Er líklegt að hún muni koma til með að lækka vöruverð mikið eða verður þetta álíka búð og aðrar lágvöruverslanir hér á landi? Ljóst er að Costco gefur sig út fyrir að vera töluvert öðruvísi verslun en það sem við þekkjum í dag hér á landi, en þrátt fyrir nokkuð lágt vöruverð selur hún einnig talsvert af gæðavöru og á tíma vildi hún t.d. ekki taka við matarmiðum (e. food stamps) í Bandaríkjunum og sagði forstjóri félagsins að það væri vegna þess að almennt væru viðskiptavinir hennar ekki notendur matarmiða. Þ.e. að þeir væru nokkuð efnaðari en það.

Ekki bara matvælamarkaður

Ef Costco ákveður að koma hingað til lands er ljóst að það verður ekki bara matvælamarkaðurinn sem mun verða fyrir aukinni samkeppni. Búðinni fylgja venjulega bensínstöðvar og jafnvel dekkja- og þjónustuverkstæði fyrir bíla. Slíkt gæti haft talsverð áhrif á samkeppni á bensínmarkaði og hefur FÍB þegar gefið út yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að horft verði sérstaklega til þess atriðis þegar rætt er um skipulagsmál og verslunina.

Viðskiptaklúbbur og lág álagning

Viðskiptamódelið sem fyrirtækið byggir á er nokkuð ólíkt því sem við þekkjum hér á landi. Í fyrsta lagi þurfa viðskiptavinir að vera í viðskiptaklúbb Costco, en slíkt kostar frá um sex þúsund krónum upp í 13 þúsund krónur í Bandaríkjunum. Þá er markhópur fyrirtækisins stærri fjölskyldur eða fyrirtæki, enda eru vörur yfirleitt í stærri pakningum en í öðrum búðum. Á móti kemur að verslunin nær að halda verði lágu og t.a.m. er opinber stefna félagsins að hafa álag á vörur aðeins 14%.

Þessu marki sínu nær verslunin með allskonar aðferðum. Í fyrsta lagi er ekki mikið sett í framsetningu og er ekki óalgengt að vörur séu á brettum eða í stórum kössum í stað þess að þær séu í hillum. Þá hefur fyrirtækið verið óhrætt við að hætta sölu á vörum sem það nær ekki að kaupa inn á því verði sem það sækist eftir. Gott dæmi um það er þegar Costco hætti að selja Coca cola árið 2009 vegna þess að þeir fengu ekki það innkaupsverð sem þeir sóttust eftir. Mánuði seinna var reyndar gosdrykkurinn kominn aftur í búðirnar.

Taka almennt ekki við kreditkortum

Costco hefur einnig neitað að taka við flestum kreditkortum og segist ekki vera tilbúið til að greiða þau gjöld sem fylgja því. Eina undantekningin er American express kort, en sá kortaútgefandi ákvað að lækka verulega þau gjöld sem voru rukkuð af búðinni. Þá eru engir pokar í boði í Costco og er ætlast til þess að viðskiptavinir komi með eigin poka eða notist við kassa undan vörum sem verslunin skaffar.

Laun yfir lágmarkslaunum

Almennt er Costco talinn góður vinnustaður þegar kemur að verslunum í Bandaríkjunum og eru t.a.m. flestir starfsmenn sjúkratryggðir þar, öfugt við t.d. Walmart og fleiri verslunarkeðjur. Keðjan er því almennt talin bæði fínn vinnustaður, en eins hafa viðskiptavinir verið ánægðir með verslunina og hefur hún oft lent ofarlega í könnunum um ánægju neytenda.

Sem dæmi eru lágmarkslaun hjá Costco um 11 Bandaríkjadalir á klukkustund í Bandaríkjunum, en almenn lágmarkslaun í landinu eru 7,25 dalir. Aðrar keðjur hafa oft starfsfólk á slíkum taxta. Meðal annars kom fram í frétt í gær að fulltrúar fyrirtækisins hefðu tekið eftir því að lágmarkslaun fyrirtækisins í Bandaríkjunum væru aðeins hærri en lágmarkslaun hér á landi.

Gæti verið stutt í opnun

Ef verði af komu Costco er því ljóst að það gæti haft mikil áhrif á fjölmörgum mörkuðum, allt frá matvöru og sérvöru yfir í bensín og dekkjaþjónustu eða jafnvel ferðaþjónustu, en Costco rekur allstóra ferðaskrifstofu í Bandaríkjunum. Miðað við frásögn lögmanns fyrirtækisins hér á landi í gær á mbl.is er allavega ljóst að Costco skoðar af virkilega miklum áhuga á að opna hér verslun og það gæti jafnvel verið stutt í að slíkt verði að veruleika. 

Það eru einnig töluverð tíðindi fólgin í því að svona stórt fyrirtæki skuli horfa til Íslands þrátt fyrir þá stöðu sem er uppi t.d. með gjaldeyrishöftin og málefni þrotabúanna. Það er ekki hægt að setja það öðruvísi fram en að Costco virðist hafa trú á íslensku efnahagslífi á komandi árum og veðji á að krónan veikist ekki mikið.

Fyrirtækið vill fá að reisa fjölorkustöð fyrir bæði bensín, rafmagn …
Fyrirtækið vill fá að reisa fjölorkustöð fyrir bæði bensín, rafmagn og metan. AFP
Meðal þeirra staða sem Costco hefur skoðað að hefja starfsemi …
Meðal þeirra staða sem Costco hefur skoðað að hefja starfsemi á er í Kauptúni í Garðabæ. Rax / Ragnar Axelsson
Hinn staðurinn sem hefur verið í skoðun er Korputorg í …
Hinn staðurinn sem hefur verið í skoðun er Korputorg í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK