Tímaspursmál hvenær fleiri fara í heilsársflug

Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa Lónsins og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann …
Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa Lónsins og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir tímaspursmál hvenær fleiri flugfélög fari í heilsársflug til Íslands. Kristinn Ingvarsson

Fjölgun ferða easyJet til Íslands er frábærar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu, sérstaklega í ljósi þess að farþegar félagsins hafa ekki síður verið áhugasamir um vetrarferðamennsku en að koma yfir sumartímann. Þetta segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is, en flugfélagið stefnir á að fjölga ferðum sínum úr 52 í 110 á mánuði í vetur og fjölga áfangastöðum um þrjá.

Aðkallandi að fara í stefnumótun

Sú fjölgun sem er væntanleg mun hjálpa til við að koma ferðamönnum yfir einnar milljónar markið, en Grímur segir alveg ljóst að vinna þurfi að heildarstefnu fyrir greinina. „Það er orðið mjög aðkallandi að greinin sjálf og stjórnvöld sameinist um stefnumótum um fjölda ferðamanna sem við viljum að komi hingað, dreifingu um landið og dreifingu yfir árið. Þessi formlega stefnumótun liggur ekki fyrir og það er aðkallandi að til hennar verði gengið,“ segir Grímur.

Ekki þarf neinn fræðimann til að sjá að innviðir ferðaþjónustunnar yfir háönn eru við ystu mörk að sögn Gríms, en hann segir að auka þurfi fjárfestingu í innviðunum til muna til að geta tekið við þessum mikla fjölda, enda virðist stefna í áframhaldandi fjölgun ferðamanna á komandi árum.

Hömlulaus fjölgun áhyggjuefni

Spurður hvort hann telji fjölda ferðamanna að nálgast einhver mörk fyrir almenning í landinu segir Grímur að það sé auðvitað áhyggjuefni að fjölgunin sé hömlulaus. Koma þurfi böndum á vöxtinn og stýra honum og slíkt verði gert með stefnumótun.

Breskir ferðamenn eyða vel á Íslandi

Nokkuð hefur verið rætt um að reyna að ná til efnaðri ferðamanna og því leikur blaðamanni forvitni á að vita hvort það sé góður kostur að lággjaldaflugfélag fjölgi komum sínum hingað jafn mikið og raun ber vitni. Grímur segir að ekki sé samasemmerki milli lítillar eyðslu og lágfargjaldaflugs. „Breskir ferðamenn sem koma til Íslands eru að njóta lágra fargjalda en þeir stýra eyðslu sinni þannig að þeir gera vel við sig í mat og drykk og eru góðir gestir,“ segir Grímur.

Tímaspursmál hvenær fleiri flugfélög fara í heilsársflug

Nú þegar fljúga nokkur erlend flugfélög hingað til lands. Þar á meðal eru Air Berlin og flybe. Þau fljúga þó aðallega yfir sumartímann, en Grímur telur að nú sé aðeins tímaspursmál hvenær fleiri stór flugfélög í Evrópu fari að fljúga til Íslands allt árið.

Mikil uppbygging hefur verið í hótelum og gistingu undanfarin ár. Margir hafa gagnrýnt það og sagt að um bólu sé að ræða. Spurður hvort fréttir um þessa fjölgun ferða dragi úr gagnrýnisröddum segir Grímur að uppbyggingin hafi verið nauðsynleg. „Hótelin eiga alveg rétt á sér miðað við þær vaxtarhorfur sem eru innan greinarinnar og ég held að ef við værum ekki að fjárfesta myndarlega í hóteluppbyggingu myndi stefna hér í algjört óefni innan nokkurra missera,“ segir Grímur.

f.v. Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Grímur Sæmundssen, formaður SAF, Ali …
f.v. Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Grímur Sæmundssen, formaður SAF, Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet á Bretlandi og Stuart Gill, sendiherra Bretlands, á kynningarfundinum í morgun. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK