Comac á að koma Kína á kortið

Bandaríkin hafa sitt Boeing og Evrópa sinn Airbus. Nú er komið að Kína að koma sér á kortið sem flugvélaframleiðandi með Comac. Fyrir dyrum stendur að framleiða farþegaþotuna C919 sem keppa á við Boeing 737 og Airbus A320. Ef allt gengur eftir verður C919 flogið í fyrsta skipti í lok næsta árs.

Boeing og Airbus hafa svo gott sem skipt með sér heimsmarkaðnum þegar kemur að framleiðslu og sölu farþegaþota. En nú þegar talið er að það þurfi nærri sex þúsund farþegaþotur á Kínamarkað á næstu 20 árum sjá kínversk yfirvöld sér leik á borði og vilja tryggja sér sneið af markaðnum.

Blaðamenn AFP fréttaveitunnar fengu nýverið að sækja heim höfuðstöðvar Commercial Aircraft Corporation of China, eða bara Comac, en fyrirtækið nýtur bæði fjárhagslegs og pólitísks stuðnings kommúnistaflokksins í Kína. „Kínverjar munu framleiða góðar farþegaþotur og þeim mun takast að selja þær,“ sagði Marwan Lahoud, framkvæmdastjóri áætlunargerðar hjá Airbus, á dögunum. „Okkur mun ekki takast að keppa við það verð sem þeir setja upp en tæknilegt forskot Airbus tryggir okkur áfram yfirburði á markaðnum.“

Shanghai Y-10 og Comac ARJ21

Kínverja hefur dreymt um framleiðslu eigin farþegaþotu frá því á áttunda áratug síðustu aldar þegar til stóð að hefja framleiðslu á Shanghai Y-10. Hún átti að taka 178 farþega í sæti og kostaði verkefnið gríðarlega fjármuni. Þrjár flugprófunarvélar voru framleiddar og fór sú fyrsta á loft 26. september 1980. Alls var vélunum þremur flogið í 170 klukkustundir í flugprófunum áður en hætt var við verkefnið þremur árum síðar. Kom þar margt til en meðal annars var Y-10 þung, þótti óhagkvæm í rekstri og ósennilegt að hún seldist vel.

Þá hefur frá árinu 2002 verið í bígerð framleiðsla á 90 sæta farþegaflugvél, ARJ21, og rann verkefnið inn í Comac árið 2009. Eilífar tafir hafa orðið á verkefninu og var fyrsta flug flugprófunarvélar 18. júní síðastliðinn, tólf árum eftir að vinna að verkefninu hófst og níu árum seinna en áætlað var í fyrstu. Alls kyns vandræði hafa tafir flugprófanir og er þar hönnun vélarinnar aðallega um kennt.

Meira en þrjú hundruð ARJ21-vélar hafa verið pantaðar og er áætlað að fyrstu vélarnar verði afhentar viðskiptavinum snemma á næsta ári.

Fjögur hundruð pantanir komnar

Pantanir á Comac C919 hafa ekki látið á sér standa frá kínverskum flugfélögum og er talið að boð AFP í höfuðstöðvar Comac sé til að vekja athygli á C919 í Evrópu. „Við munum láta reyna á fyrsta flugið í lok næsta árs,“ sagði Zhang Zhengguo, sem starfar í markaðsteymi fyrirtækisins. Höfuðstöðvarnar eru við Pudong-flugvöllinn í Sjanghæ og fljúga í sífellu yfir farþegaþotur frá Boeing og Airbus. Kom fram í heimsókninni að það væri aðeins til þess að halda mönnum við efnið.

Þrátt fyrir um fjögur hundruð pantanir hefur engin C919 enn verið framleidd og er beðið eftir flestum flugvélahlutum, meðal annars frá Evrópu, til að geta hafi framleiðslu á fyrstu flugprófunarvélinni. Fullbúin á hún að geta borið 174 farþega um 5.555 kílómetra leið. Í höfuðstöðvunum er engu að síður að finna endurgerð af flugstjórnarklefa og farþegarými vélarinnar og einnig flughermi.

Verkefnið fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun í Kína þegar Xi Jinping, leiðtogi Kína, heimsótti höfuðstöðvarnar í maí og fengu fjölmiðlar að taka myndir af honum í flugstjórnarklefanum. „Við verðum og munum framleiða okkar eigin farþegaþotu,“ sagði leiðtoginn þá og birtust ummælin í ríkisfjölmiðlum.

Hvort áætlanir standist og afhendingar fyrstu Comac C919 farþegaþotanna geti hafist á árinu 2018 verður að koma í ljós en miðað við reynslu Kínverja í flugvélaframleiðslu má allt eins gera ráð fyrir að töluverðar tafir verði. „Kínverska ógn á flugframleiðslumarkaðnum má hins vegar ekki afgreiða sem léttvæga,“ sagði Marwan Lahoud, framkvæmdastjóri áætlunargerðar hjá Airbus, einnig á dögunum við franska fjölmiðla.

Endurgerðir Comac ARJ21 og Comac C919
Endurgerðir Comac ARJ21 og Comac C919 AFP
Flughermir Comac C919 fyrir aftan og lítil endurgerð af ARJ21 …
Flughermir Comac C919 fyrir aftan og lítil endurgerð af ARJ21 fyrir framan. AFP
Verkamaður kíkir út um flugstjórnarklefa Comac ARJ21 á framleiðslulínunni.
Verkamaður kíkir út um flugstjórnarklefa Comac ARJ21 á framleiðslulínunni. AFP
Flughermir Comac C919.
Flughermir Comac C919. AFP
Endurgerð farþegarýmis Comac C919, og kennimerki (e. logo) Comac.
Endurgerð farþegarýmis Comac C919, og kennimerki (e. logo) Comac. AFP
Í flugskýli Comac er beðið eftir flugvélahlutum svo hægt sé …
Í flugskýli Comac er beðið eftir flugvélahlutum svo hægt sé að setja saman fyrstu flugprófunarvél C919. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK